FRANZ Árnason, framkvæmdastjóri Hita- og vatnsveitu Akureyrar og stjórnarmaður í Þeistareykjum ehf., sagði fyrirhugaðar framkvæmdir og rannsóknir á Þeistareykjum mjög spennandi. "Hitt er svo annað mál að samkeppni kemst ekki á í orkusölu meðan Landsvirkjun skuldar það sem hún gerir.
Framkvæmdastjóri Hita- og vatnsveitu Akureyrar Skuldir Landsvirkjunar hamla samkeppni í orkusölu

FRANZ Árnason, framkvæmdastjóri Hita- og vatnsveitu Akureyrar og stjórnarmaður í Þeistareykjum ehf., sagði fyrirhugaðar framkvæmdir og rannsóknir á Þeistareykjum mjög spennandi. "Hitt er svo annað mál að samkeppni kemst ekki á í orkusölu meðan Landsvirkjun skuldar það sem hún gerir."

Franz sagði landsmenn sitja uppi með skuldir Landsvirkjunar og þótt þeir fengju ódýra orku frá Þeistareykjum, þyrftu þeir bara að borga skuldir fyrirtækisins í gegnum skattkerfið. Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær, var skrifað undir stofnsamning einkahlutafélagsins Þeistareykja ehf. í gangnamannaskálanum á Þeistareykjum sl. miðvikudag. Í máli Hreins Hjartarsonar, veitustjóra á Húsavík og stjórnarformanns Þeistareykja, kom fram að framhaldið á svæðinu réðist af orkuþörf og af því að stjórnvöld hleyptu fleirum inn í orkugeirann.

Samkeppni milli landssvæða

Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, sagði að það væri samkeppni í orkuiðnaði milli svæða á landinu og að á suðvesturhorninu væru orkubúnt sem sköpuðu mikla peninga sem nýttir væru til atvinnusköpunar og nefndi sem dæmi Hitaveitu Suðurnesja. Kristján Þór sagðist vera á móti því að þessum málum væri stýrt að sunnan og að tími væri kominn á að landsbyggðin tæki málin í sínar hendur eins og hægt er.

Fulltrúar stofnenda félagsins fóru í mikla ferð á stórum jeppum á Þeistareyki, þar sem skrifað var undir stofnsamninginn. Þar var jafnframt skrifað undir samning milli landeigenda, Aðaldalshrepps og Reykdælahrepps og Þeistareykja ehf. um réttindi félagsins til rannsókna á svæðinu og til orkuvinnslu að rannsóknum loknum. Hrepparnir báðir eru hluthafar í félaginu ásamt Hita- og vatnsveitu Akureyrar, Rafveitu Akureyrar og Orkuveitu Húsavíkur, sem jafnframt er langstærsti hluthafinn. Hlutafé Þeistareykja er 7 milljónir króna.

Morgunblaðið/Kristján FULLTRÚAR stofnenda Þeistareykja ehf. skoða sig um í blíðunni á Þeistareykjum. F.v. Valgerður Hrólfsdóttir, formaður stjórnar veitustofnana Akureyrar, Jóhanna Magnea Stefánsdóttir, fulltrúi Reykdælahrepps, Hreinn Hjartarson, stjórnarformaður Þeistareykja og veitustjóri á Húsavík, Dagur Jóhannesson, oddviti Aðaldalshrepps, Hilmir Helgason, fulltrúi í stjórn veitustofnana Akureyrar, Franz Árnason, framkvæmdastjóri Hita- og vatnsveitu Akureyrar, Reinhard Reynisson, bæjarstjóri á Húsavík, og Svanbjörn Sigurðsson, rafveitustjóri Rafveitu Akureyrar.FERÐALANGARNIR skoðuðu vítin þrjú, Litla-víti, Stóra-víti og Langa-víti á ferð sinni um Þeistareyki. Hér er hópurinn við Litla-víti.