"VIÐ teljum okkur vera að bjóða minnsta mun á kaup- og sölugengi í framvirkum samningum um erlendan gjaldeyri. Ástæðan er sú að þegar boðið er upp á framvirk gjaldeyrisviðskipti beint gegnum Netið þurfum við ekki að hafa marga í vinnu við að svara í símann og þjónusta viðskiptavininn.
FBA býður framvirka gjaldeyrissamninga gegnum Netið "Netið gerir viðskiptin ódýrari"

"VIÐ teljum okkur vera að bjóða minnsta mun á kaup- og sölugengi í framvirkum samningum um erlendan gjaldeyri. Ástæðan er sú að þegar boðið er upp á framvirk gjaldeyrisviðskipti beint gegnum Netið þurfum við ekki að hafa marga í vinnu við að svara í símann og þjónusta viðskiptavininn. Sjálfvirknin skilar sér því í lægri viðskiptakostnaði," segir Einar Örn Ólafsson, sérfræðingur hjá markaðsviðskiptum Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, en FBA hóf í dag að bjóða þá þjónustu að viðskiptavinir fyrirtækisins geti gert framvirka gjaldeyrissamninga gegnum tengingu á heimasíðu FBA á Netinu, en í framvirkum gjaldeyrissamningi er samið um að viðskiptavinurinn kaupir eða selur þá fjárhæð sem hann kýs í erlendum gjaldmiðli, á tilteknu gengi á ákveðnum degi í framtíðinni.

Að sögn Einars Arnar og Hrafns Loftssonar, sérfræðings hjá markaðsviðskiptum FBA, búast þeir við að viðskiptavinir þessarar þjónustu verði aðallega fyrirtæki sem nota framvirka gjaldeyrissamninga til að verja sig gegn sveiflum í gengi gjaldmiðli, en einnig í einhverjum mæli svokallaðir spákaupmenn sem séu í slíkum viðskiptum til að hagnast á hreyfingum gjaldmiðla. Hvað einstaklinga varðar sögðu þeir að það væru helst mjög fjársterkir einstaklingar sem kæmu að slíku, enda stendur FBA almennt ekki í viðskiptum við einstaklinga heldur einbeitir sér að fyrirtækjamarkaði.

Lágmarksupphæð í einstökum framvirkum gjaldeyrssamningum eru þær sömu og í stundarviðskiptum, eða 1,5 milljónir, og hámark um 70 milljónir króna á hver viðskipti. Stundarviðskipti eru gjaldeyrisviðskipti sem taka gildi á því sama augnabliki. Hámarksviðskipti sem hægt er að gera í framvirkum gjaldeyrissamningum og gjaldeyrisviðskiptum samanlagt gegnum Netið á einum og sama deginum eru 250 milljónir króna. Fari upphæð upp fyrir þau mörk vilja þeir hjá FBA að viðkomandi taki upp símann og gangi frá viðskiptunum í beinu sambandi við FBA.

"Það er nú ekki oft að upphæðin fari yfir þessi mörk á einum degi, en kemur þó fyrir. Við höfum séð viðskipti upp í milljarð ef eitthvað stórt er að gerast," segir Einar Örn.

"Gengið á gjaldmiðlum í framvirkum samningum byggist á vaxtamismun í myntunum tveimur, lengd samningsins og stundargengi gjaldmiðlanna," segir Einar Örn um það hvernig viðskiptagengi framvirku samninganna er ákvarðað. Þjónustugjöld FBA er mismunurinn milli kaup- og sölugengis gjaldmiðla eins og í venjulegum gjaldeyrisviðskiptum, en mismunurinn í framvirkum viðskiptum er annar og ræðst af vaxtamismuninum sem er milli gjaldmiðlanna.

Á heimasíðunni uppfærist gengi gjaldmiðla með skömmu millibili í rauntíma. Ef viðskiptavinur hefur skráð inn viðskipti sem hann hyggst gera, og gengi gjaldmiðlanna breytist umfram ákveðin mörk innan þess tíma, aftengjast þau viðskipti sem búið var að stilla upp og tölvukerfi FBA stingur upp á nýjum viðskiptum á hinu nýja gengi. Þetta er gert bæði þegar breytingar verða viðskiptavininum eða FBA í óhag.

Aðrar nýjungar á heimasíðu FBA er sá möguleiki að viðskiptavinurinn kaupi margar gerðir gjaldmiðla í einni körfu með einni færslu, en aðeins er boðið upp á þann möguleika í stundarviðskiptum. Einnig eru möguleikar á greiningu á þróun og viðskiptum á gjaldeyrismarkaði mun ítarlegri en áður, auk þess sem tölvukerfið geymir á rafrænu formi yfirlit yfir viðskipti þeirra sem skipta við FBA á Netinu.

Morgunblaðið/Ásdís HRAFN Loftsson, sérfræðingur markaðsviðskipta, Þorvaldur Arnarson, forritari og Einar Örn Ólafsson, sérfræðingur markaðsviðskipta hjá FBA: "Sjálfvirknin skilar sér í lægri viðskiptakostnaði".