TALSMENN kínverskra stjórnvalda neituðu í gær algerlega ásökunum þess efnis að þau hafi átt hlut að máli þegar njósnari, sem er af kínversku bergi brotinn, stal leynilegum upplýsingum um fullkomnasta kjarnaodd Bandaríkjahers. Stjórnvöld í Peking sögðu málið vera alfarið á herðum Bandaríkjamanna og að vandamálið væri þeirra.
Upplýsingum um smíði fullkomnustu kjarnavopna Bandaríkjahers stolið

Kínverjar neita

ásökunum um aðild

Vandræðamál fyrir ríkisstjórn Clintons

Peking, Washington. Reuters, The Daily Telegraph.

TALSMENN kínverskra stjórnvalda neituðu í gær algerlega ásökunum þess efnis að þau hafi átt hlut að máli þegar njósnari, sem er af kínversku bergi brotinn, stal leynilegum upplýsingum um fullkomnasta kjarnaodd Bandaríkjahers. Stjórnvöld í Peking sögðu málið vera alfarið á herðum Bandaríkjamanna og að vandamálið væri þeirra. "Vandamálið sem verið er að ræða um er alls ekki til," sagði Sun Yuxi á blaðamannafundi í Peking í gær. "Ef upplýsingar hafa lekið um leynileg mál er það alfarið vandi Bandaríkjamanna sjálfra."

Á miðvikudag hafði bandaríska dagblaðið New York Times það eftir embættismönnum að vísindamaður, sem grunaður er um að hafa njósnað fyrir kínversk stjórnvöld, hafi fært dulkóðaðar upplýsingar um smíði fullkomnasta kjarnaodds Bandaríkjamanna úr rammgerðu tölvukerfi Los Alamos rannsóknastöðvarinnar í Nýju-Mexíkó yfir á aðgengilegt netkerfi. Þaðan hafi njósnarinn, Wen Ho Lee, taívanskur vísindamaður, fært skjölin (kóða á tölvutæku formi) yfir í einkatölvu sem síðan hafi verið flutt úr rannsóknabyggingunni af óþekktum aðila sem hafi haft aðgang að lykilorði öryggiskerfis byggingarinnar. Er talið víst að erlendir aðilar hafi staðið að stuldinum.

Höfuðdjásnum bandaríska kjarnavopnabúrsins stolið

Njósnamálið í Los Alamos er talið vera eitt hið stærsta sinnar tegundar fyrr og síðar og hefur Paul Redmond, fyrrverandi deildarstjóri gagnnjósnadeildar bandarísku leyniþjónustunnar (CIA), sagt málið vera "allt eins slæmt og mál Rosenberg-hjónanna," sem njósnuðu fyrir Sovétríkin á fimmta áratugnum og létu þeim í té upplýsingar um smíði fyrstu kjarnavopnanna.

Málið hefur hrundið af stað háværri gagnrýni á ríkisstjórn Clintons forseta, en stjórnin hefur verið sökuð um gróft gáleysi hvað kjarnorkuöryggismál varðar. Hafa menn tekið svo sterkt til orða að njósnir Bretanna Burgess, Philbys og Macleans hverfi algerlega í skuggann af Los Alamos-málinu.

Fyrir Bandaríkjaþingi liggur nú skýrsla, sem gerð verður opinber í lok maí, þar sem segir að Kínverjar hafi ekki eingöngu rænt "höfuðdjásnum bandaríska kjarnavopnabúrsins", heldur stundi þeir enn umfangsmiklar njósnir í Bandaríkjunum. Er talið að repúblikaninn Christopher Cox, sem fer fyrir öryggismálanefnd þingsins, muni senn upplýsa um viðamikil njósnamál þar sem Kínverjar ­ sem sumir telja að verði höfuðandstæðingar Bandaríkjanna á næstu öld ­ hafi rænt trúnaðarupplýsingum Bandaríkjamanna um allt frá ofurtölvum til smíði flugskeyta.

Þvert á fyrri yfirlýsingar Clintons er nú talið að Lee hafi stundað mestu njósnir sínar á árunum 1994­1995, eftir að Clinton tók við embætti forseta. En talið er að áður hafi hann gefið kínverskum stjórnvöldum nákvæmar upplýsingar um W88-vopnakerfið sem notað er í Trident-eldflaugunum, uppistöðu kjarnorkuvígbúnaðar Bandaríkjamanna og Breta. Með nýjasta framtaki sínu hafi Lee gert Kínverjum mögulegt að endurgera bandarísk vopn.

Gengið inn um opnar dyr

Talið er að ekki hafi komist upp um Lee fyrr en í síðasta mánuði er rannsóknarmenn bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) náðu að opna vinnutölvu hans eftir brottrekstur hans frá Los Alamos rannsóknastöðinni. Lee hefur enn ekki verið ákærður formlega en hans mun verða gætt vandlega uns gæsluvarðhaldsskipun liggur fyrir. Talið er að enn sé verið að safna nægilegum upplýsingum fyrir ákæruna. Þá hefur vakið furðu margra að Lee skuli hafa haldið starfi sínu og aðgangi að mikilvægum trúnaðarupplýsingum þrátt fyrir að hann hafi sætt rannsókn vegna W88-málsins.

Bill Richardson, orkumálaráðherra Bandaríkjanna, hefur fyrirskipað að tölvukerfi Los Alamos rannsóknastöðvarinnar skuli lokað og öryggisgæsla stórhert. Cox lýsti því yfir í vikunni að slíkar aðgerðir séu nú um seinan. Þá hafa aðrir þingmenn sagt að rannsóknin staðfesti versta ótta þeirra, um að Kínverjar hafi seilst langt ofan í vopnakistu Bandaríkjamanna. Bandarískur öryggismálasérfræðingur sagði í viðtali við breska dagblaðið Daily Telegraph að "seilast" væri ekki rétta orðið. "Þeir gengu inn um opnar dyr."

Í viðtölum við New York Times sögðu bandarískir kjarnorkumálasérfræðingar að upplýsingar þær sem Lee hafi komist yfir væru afrakstur rúmlega hálfrar aldar starfs sem hafi miðað að því að fullkomna mátt kjarnavopna. Með upplýsingunum sé hægt að reikna út skref fyrir skref allt sprengjuferli kjarnavopna og að sá aðili sem hafi slíkar upplýsingar undir höndum geti rannsakað gæði og áreiðanleika slíkra vopna án þess að gera á þeim kostnaðarsamar tilraunir.