LÖGREGLAN í Hafnarfirði hefur upplýst smyglmálið sem kom upp á miðvikudag þegar 1200 lítrar af áfengi fundust í flutningaskipinu Hvítanesi í Hafnarfjarðarhöfn við leit tollvarða. Að sögn lögreglunnar liggja fyrir játningar nokkurra áhafnarmeðlima í málinu og hefur allri áhöfninni, fimm Íslendingum og fjórum Pólverjum,
Skipverjar á Hvítanesi í farbann Játa smygl á

1200 flöskum

LÖGREGLAN í Hafnarfirði hefur upplýst smyglmálið sem kom upp á miðvikudag þegar 1200 lítrar af áfengi fundust í flutningaskipinu Hvítanesi í Hafnarfjarðarhöfn við leit tollvarða.

Að sögn lögreglunnar liggja fyrir játningar nokkurra áhafnarmeðlima í málinu og hefur allri áhöfninni, fimm Íslendingum og fjórum Pólverjum, verið sleppt auk tveggja annarra sem voru handteknir og yfirheyrðir vegna málsins, en yfirheyrslum lauk undir miðnætti á miðvikudagskvöld.

Sýslumaðurinn í Hafnarfirði krafðist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að fjórir Pólverjar úr áhöfninni yrðu úrskurðaðir í farbann og samþykkti dómari um hádegisbil í gær, fimmtudag, að úrskurða þrjá þeirra í farbann til 12. maí.

Þeir áhafnarmeðlimir sem tengjast innflutningi áfengisins eiga yfir höfði sér ákæru sýslumanns að lokinni rannsókn lögreglunnar og málsmeðferð í héraði, leiði rannsóknin til ákæru.

Tollgæslan fann 1200 lítra af sterku áfengi við leit sína í skipinu, þar af 240 lítra af spíra með 96% alkóhólinnihaldi. Stóð til að tollgæslan skilaði áfenginu til ÁTVR seinni partinn í gær til geymslu, uns málinu lýkur að fullu. Samkvæmt upplýsingum hjá ÁTVR er vaninn að hella niður smygluðu áfengi að lokinni meðferð smyglmála.

Allri leit tollvarða hefur verið hætt í Hvítanesi og siglir skipið í kvöld, föstudagsköld, til Noregs.