STJÓRN Evrópusambandsins, ESB, hvetur til þess að öll íþróttalandslið og alþjóðleg íþróttasérsambönd aflýsi öllum samskiptum við Júgóslavíu. Áskorunin er þó ekki bindandi fyrir aðildarríki ESB og eru pólitísk markmið sambandsríkjanna þess valdandi.
ESB hvetur til íþróttabanns á Júgóslavíu STJÓRN Evrópusambandsins, ESB, hvetur til þess að öll íþróttalandslið og alþjóðleg íþróttasérsambönd aflýsi öllum samskiptum við Júgóslavíu. Áskorunin er þó ekki bindandi fyrir aðildarríki ESB og eru pólitísk markmið sambandsríkjanna þess valdandi. Það er í höndum utanríkisráðherra einstakra ESB-ríkja að hvetja landssambönd sín til að hætta íþróttasamskiptum, að sögn Hans van den Broeks, sem fer með utanríkismál í framkvæmdastjórn ESB.

Ítalir og Grikkir leggjast gegn því að Júgóslavar verði útilokaðir frá íþróttakeppni, en Hollendingar hafa beitt sér fyrir slíku banni. "Við höfnum þeirri afstöðu að íþróttir og stjórnmál fari ekki saman," segir Jozias van Aartsen, utanríkisráðherra Hollands.

Chris Smith, íþróttamálaráðherra Bretlands, segir að koma verði í veg fyrir að Slobodan Milosevic, forseti Júgóslavíu, noti íþróttir sem tæki og tól í áróðursstríði sínu. Joschka Fischer, utanríkisráðherra Þýskalands, segir: "Hvert og eitt land og sérhvert alþjóðasamband verður að taka ákvörðun um að útiloka júgóslavnesk landslið frá keppni á eigin forsendum. Við hvetjum til að þær ráðstafanir verði gerðar sem taldar eru við hæfi," sagði hann.

Íþróttamót sem hugsanlegt íþróttabann á Júgóslavíu kann að raska er Evrópumeistaramótið í körfuknattleik sem fram fer í Frakklandi 21. júní, HM í handbolta í Egyptalandi í júní og HM í frjálsíþróttum í Sevilla á Spáni í ágúst. Júgóslavar eru með landslið í öllum þessum mótum.

Eins og komið hefur fram er Ísland fyrsta varaþjóð á HM í handbolta í Egyptalandi. Ef Júgóslövum verður meinuð þátttaka tekur íslenska landsliðið sæti þeirra. Yfirlýsing ESB ætti að auka líkurnar á því að íslenska landsliðið fái þátttökurétt á HM.