ÁFENGIS- og tóbaksverslun ríkisins hefur hleypt af stokkunum svonefndum Fjarkaupum sem fela í sér að fólk á landsbyggðinni getur pantað áfengi símleiðis úr áfengisversluninni Heiðrúnu á Stuðlahálsi og greitt fyrir með greiðslukorti. ÁTVR annast að senda vöruna á pósthús viðkomandi viðskiptavinar og tekur á sig flutnings- og umbúðakostnað.

ÁTVR tekur á sig

flutningskostnað

ÁFENGIS- og tóbaksverslun ríkisins hefur hleypt af stokkunum svonefndum Fjarkaupum sem fela í sér að fólk á landsbyggðinni getur pantað áfengi símleiðis úr áfengisversluninni Heiðrúnu á Stuðlahálsi og greitt fyrir með greiðslukorti. ÁTVR annast að senda vöruna á pósthús viðkomandi viðskiptavinar og tekur á sig flutnings- og umbúðakostnað.

Höskuldur Jónsson, forstjóri ÁTVR, segir að kjarni málsins sé sá að flutningsgjald á áfengi til íbúa strjálbýlisins sé í raun fellt niður. Miðað við að þær póstkröfur sem tíðkast hafa til þessa megi gera ráð fyrir því að ÁTVR taki á sig flutningsgjöld sem nemi um það bil tveimur milljónum króna á ári.

"Við höfum verið að opna verslanir á Dalvík og Þórshöfn og það er í athugun að opna víðar í kauptúnum um landið. Sums staðar háttar svo til að okkur finnst ekki forsenda fyrir því að opna verslun og við viljum koma til móts við þá sem þar búa með því að fella niður sendingarkostnað af vöru sem þeir gætu keypt hefðu þeir aðgang að verslun," segir Höskuldur.

ÁTVR mun senda vöruna á nokkur tiltekin pósthús og miðast sendingarþjónustan við pósthús þeirra kauptúna þar sem u.þ.b. 25 km leið er í næstu vínbúð.