MIKILL áhugi er fyrir tónleikum Kristjáns Jóhannssonar stórsöngvara með Karlakór Akureyrar-Geysi, en tvennir tónleikar verða á Akureyri, í kvöld, föstudagskvöldið 30. apríl, kl. 20 og á morgun, laugardaginn 1. maí, kl. 16 og þá verða tónleikar í íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum kl. 16 á sunnudag.
Þrennir tónleikar Kristjáns Jóhannssonar og Karlakórs Akureyrar-Geysis Mikill áhugi og nær

uppselt á tónleikana

MIKILL áhugi er fyrir tónleikum Kristjáns Jóhannssonar stórsöngvara með Karlakór Akureyrar-Geysi, en tvennir tónleikar verða á Akureyri, í kvöld, föstudagskvöldið 30. apríl, kl. 20 og á morgun, laugardaginn 1. maí, kl. 16 og þá verða tónleikar í íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum kl. 16 á sunnudag.

Á tónleikunum mun Kristján einnig syngja með bræðrum sínum, Svavari og Jóhanni Má, og er það í fyrsta skipti sem þeir bræður koma opinberlega fram saman. Auk þess munu systursynir þeirra bræðra, Örn Viðar og Stefán Birgissynir, koma fram með þeim. Stjórnandi er Roar Kvam og undirleikari Richard Simm.

Tónleikarnir eru þrískiptir, fyrsti hlutinn samanstendur af hefðbundnum íslenskum karlakórslögum, þá syngja þeir bræður og frændur og ítölsk óperulög og aríur verða í þeim þriðja.

Geir Guðsteinsson, formaður Karlakórs Akureyrar-Geysis, sagði tónleika Kristjáns Jóhannssonar með karlakórnum lengi hafa verið í farvatninu, en fastmælum var bundið þegar Kristján söng á minningartónleikum um föður sinn, Jóhann Konráðsson, í október síðastliðnum að halda tónleikana að vori. Kristján hefur ekki sungið með karlakór síðan árið 1974, en hann var á sínum tíma félagi í karlakórunum á Akureyri. Allir hafa þeir bræður og frændur sungið með karlakórum.

Skemmtilegt og ögrandi verkefni

Geir sagði kórfélaga hlakka mjög til tónleikanna, þeir væru verðugt og skemmtilegt viðfangsefni. "Þetta er afar ögrandi verkefni og mikill viðburður í tónlistarlífinu hér á Akureyri," sagði Geir. Þá nefndi hann að gaman væri að gefa Austfirðingum tækifæri til að njóta tónleikanna og ólíklegt að sá viðburður yrði endurtekinn. Geir sagði að nær uppselt væri á tónleikana sem haldnir verða á Akureyri og í það stefndi á Egilsstöðum. Greinilegt væri að tónleikagestir yrðu víða að af landinu, en um 150 manns hefðu nýtt sér tilboð Íslandsflugs, keypt flug, gistingu og miða á tónleikana og þá hefðu um 300 miðar verið seldir í Reykjavík. Nefndi Geir að hann vissi m.a. til þess að starfsfólk Landsbankans hygðist bregða sér norður á tónleikana og gista í sumarbústöðum bankans í Fnjóskadal, þá hefði útgerðarfyrirtæki fyrir austan keypt miða og býður starfsfólki á tónleikana og útlit væri fyrir að tvær rútur yrðu fylltar á Hornafirði.