EINS og greint var frá í blaðinu í gær seldi Eignarhaldsfélagið Alþýðubankinn 35% eignarhlut sinn í verslanakeðjunni 10-11 í gær. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka eru kaupendur hlutarins þrír; Íslandsbanki hf., Kaupþing hf.
Þrír aðilar keyptu 35% í verslanakeðjunni 10-11

Eiríkur Sigurðsson á nú 70% hlut

Stefnt að skráningu á VÞÍ í haust

EINS og greint var frá í blaðinu í gær seldi Eignarhaldsfélagið Alþýðubankinn 35% eignarhlut sinn í verslanakeðjunni 10-11 í gær.

Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka eru kaupendur hlutarins þrír; Íslandsbanki hf., Kaupþing hf. og Fjárfar, fjárfestingarfélag í eigu Eiríks Sigurðssonar og Helgu Gísladóttur, stofnenda 10-11, Árna Samúelssonar, eiganda Sam-bíóanna, og Sævars Jónssonar, kaupmanns í Leonard.

Samkvæmt Íslandsbanka, sem hafði milligöngu um kaupin, skiptist hlutaféð nokkurnveginn jafnt á aðilana þrjá.

Kaupþing og Íslandsbanki eiga eftir kaupin 12% hlut hvort fyrirtæki, Eiríkur og Helga eiga 25% hlut og ásamt öðrum eigendum Fjárfars, eiga þau 45% til viðbótar, samkvæmt heimildum frá bankanum.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins stefna bæði Íslandsbanki og Kaupþing að því að selja hluti sína áfram en stefnt er að því að gera félagið að almenningshlutafélagi í haust og skrá það á Verðbréfaþing Íslands í kjölfarið.

Ekki fékkst uppgefið hjá Íslandsbanka hvert kaupverð hlutarins var.