FIÐLULEIKARI getur leikið á sína fiðlu og dómari getur dæmt en kanadíski dómarinn Ken Peters komst að því á dögunum að erfitt getur verið að sinna hvoru tveggja. Peters lék fiðlarann í Fiðlaranum á þakinu í nýlegri uppfærslu í heimabæ sínum, Dauphin, í Kanada.
Stutt

Fiðlarinn dæmdi ekki bóksalann

FIÐLULEIKARI getur leikið á sína fiðlu og dómari getur dæmt en kanadíski dómarinn Ken Peters komst að því á dögunum að erfitt getur verið að sinna hvoru tveggja.

Peters lék fiðlarann í Fiðlaranum á þakinu í nýlegri uppfærslu í heimabæ sínum, Dauphin, í Kanada. Þegar Peters mætti í dómsal á dögunum til að skera úr um mál manns sem ákærður var fyrir manndráp sá hann að verjandi mannsins var meðleikari hans í "Fiðlaranum". Verjandinn lék Avrahm bóksala í Fiðlaranum og þeir Peters voru búnir að æfa leikritið í marga mánuði. Peters afréð því að láta af dómarahempunni vegna of mikils kunningsskapar við verjandann.

Tennis- boltar á tertunni

EDWARD prins og Sophie Rhys- Jones hafa ákveðið að skreyta brúðkaupstertu sína með tennisspöðum og tennisboltum í brúðkaupinu í júní segir í breska blaðinu Sun. Væntanlegu brúðhjónin vilja með því minnast síns fyrsta fundar árið 1993 þegar Rhys-Jones skipulagði vinatennismót og hitti þar Edward.

"Brúðkaupstertan mun einnig verða skreytt með konunglega ættarmerkinu, páskaliljum og skreytingum sem bera áhuga parsins á skíðum, kappreiðum og leikhúsinu vitni," sagði kökugerðarmeistarinn Andrew Davidson í samtali við Sun.

Falsaðar myndir

SPÆNSKA lögreglan hefur handtekið fyrrverandi ritara spænska málarans Salvador Dali vegna fundar á fjölda falsaðra málverka meistarans í mörgum söfnum sem ritarinn og eiginkona hans reka í Katalóníu.

Ritarinn John Moore, sem er breskur að uppruna, er núna á níræðisaldri en hann var í þjónustu Dali um fimmtán ára skeið. Moore var handtekinn ásamt eiginkonu sinni, Catherine, á dögunum eftir að ónefndur maður hafði samband við lögregluna.

"Þúsundir verka hafa fundist sem eru undirrituð af Dali og númeruð, tilbúin í sölu fyrir háar upphæðir," sagði í yfirlýsingu lögreglunnar. Listfræðingar eru nú önnum kafnir við að kanna hvort myndirnar eru örugglega falsaðar.

Fíll í embættis- erindum

FÍLL var fenginn til að trampa niður hundruð ólöglegra geisladiska í Nýju Delí á Indlandi. "Við höfum ákveðið að stemma stigu við ólöglegum fjölföldunum á geisladiskum og ákváðum að nota stærstu fæturna sem við gátum fundið til starfans," sagði Dewang Mahta, forseti Sambands indverskra hugbúnaðarfyrirtækja, eftir að fíllinn hafði troðið niður ólöglegan varninginn.

"Sala á sjóræningjavarningi er hreinn stuldur og Indland getur aldrei búist við að ná langt í hugbúnaðargerð ef ekki er brugðist við þessu háttalagi og tryggt að hugbúnaðarfyrirtæki fái greitt fyrir sína vinnu," sagði Mahta. En Indverjar standa framarlega í hugbúnaðargerð og á síðasta ári var útflutningsverð indversks hugbúnaðar 2,6 milljarðar dollara.