KRISTÍN EVA ÞÓRHALLSDÓTTIR: HEIMSPEKI OG BÓKMENNTAFRÆÐI "Finnst þér þú vera eitthvað merkileg?" Kristín Eva Þórhallsdóttir lauk BA-prófi frá Háskóla Íslands sumarið 1998. Hún tók heimspeki sem aðalgrein og bókmenntafræði sem aukagrein og lauk til viðbótar eins árs heimspekinámi við háskólann í Rennes í Frakklandi.
KRISTÍN EVA ÞÓRHALLSDÓTTIR: HEIMSPEKI OG BÓKMENNTAFRÆÐI

"Finnst þér þú vera eitthvað merkileg?"

Kristín Eva Þórhallsdóttir lauk BA-prófi frá Háskóla Íslands sumarið 1998. Hún tók heimspeki sem aðalgrein og bókmenntafræði sem aukagrein og lauk til viðbótar eins árs heimspekinámi við háskólann í Rennes í Frakklandi.

Hún er í fámennum hópi sem fengið hefur inngöngu í meistaranám í tilraunahreyfimyndagerð (experimental animation) við CalArt-listaháskólann í Kaliforníu í haust. Við sama skóla stundar unnusti hennar, Kolbeinn Einarsson, framhaldsnám í tónvísindum.

ÉG LAS ógurlega mikið af bókum eftir stúdentspróf og ákvað í framhaldinu að fara í bókmenntafræði. Þegar námið hófst komst ég hins vegar að því að bókaáhugi minn var heimspekilegur. Það voru viðfangsefnin sem heilluðu mig frekar en frásagnarmátinn svo ég ákvað að taka heimspeki sem aðalfag og bókmenntirnar með," segir Kristín Eva Þórhallsdóttir. "Ég á erfitt með að gera eitthvað á þeim forsendum einum að það sé gott fyrir mig eða hagkvæmt. Ég set því aðeins fullan kraft í hlutina að ég hafi á þeim áhuga og þannig var það með heimspekina."

Fólki fannst ég skrýtin

Kristín hlær þegar spurt er um almenn viðbrögð við ákvörðuninni. "Það var horft á mann eins og maður væri pínulítið skrýtinn. Mörgum þótti ég vera að velja mér letifag og grunuðu mig um að vilja spjalla og spekúlera á kaffihúsum alla ævi. Ég heyrði meira að segja spurningar eins og: "Finnst þér þú vera eitthvað merkileg?"," segir Kristín hlæjandi. "Ástæðan er eflaust sú að heimspeki er fag sem fólk kynnist hér lítið, svipað og mannfræði - þetta eru ekki sýnileg fög í íslenskri sögu eða samtíma. Í Frakklandi, svo dæmi sé tekið, er miklu sterkari hefð fyrir heimspeki og þar fékk ég allt önnur viðbrögð þegar fólk spurði mig hvað ég væri að læra. "Já, ertu í heimspeki? Vá!," sagði fólk og leit fyrir vikið fremur upp til mín, öfugt við það sem gerðist hérna heima."

Ef höfuðið er í lagi...

Kristín segir hluta óvissunnar í kringum heimspekina helgast af því að ákveðinn vinnustaður bíði ekki að útskrift lokinni. "Kennarar kenna og hjúkrunarkonur hjúkra en það er enginn ákveðinn bás fyrir heimspekinga," segir hún en telur það alls ekki ókost. "Það er einmitt áskorun að fara í nám þar sem ekki er lagður beinn og breiður vegur á einhvern tiltekinn áfangastað. Maður á að mennta sig menntunarinnar vegna, ekki starfsins vegna. Þá er það bara starfsþjálfun. Menntun er að mínu viti framtíðareign - höfuðið er manns stærsti banki og dýrmætari en veraldlegar eigur sem geta horfið þegar minnst varir. Maður á þó alltaf sjálfan sig. Ef höfuðið er í lagi er allt hægt, líka að finna sér starf."

Þessu til sönnunar segir Kristín frá heimsókn sinni á atvinnumiðlun að námi loknu. "Ég var komin með tvö atvinnutilboð eftir tíu mínútna setu á skrifstofunni," rifjar hún upp. "Annað tilboðið var einmitt um starfið sem ég gegni núna hjá Mími - Tómstundaskólanum, en þar sé ég við fjórða mann um skipulagningu, afgreiðslu og móttöku nemenda. Mér finnst menntunin nýtast mér vel í starfinu, hún hjálpar mér til dæmis að finna ferskt sjónarhorn á ýmis verkefni og skilja og meta viðmið annarra í hópvinnu. Heimspekin hefur kennt mér agað umburðarlyndi, ef svo má að orði komast, en ekki síður gagnrýna hugsun og aðferðir til að skilja kjarnann tímanlega frá hisminu."

Vertu þú sjálfur

Að mati Kristínar er hugtakið "hagnýtt" loðið, enda misjafnt við hvað fólk miðar. "Í raun er aðeins hægt að ákvarða hagnýti menntunar út frá einstaklingnum sjálfum. Sú menntun er hagnýtust sem samræmist upplagi hans og áhuga, því nám snýst um að þroska og aga þá hæfileika sem maður hefur. Nemandinn verður þannig að vera efniviður í námið - sjálf væri ég til dæmis ekki efniviður í viðskiptafræðing," segir hún og hlær glettnislega.

BA-ritgerð Kristínar snerist um hugrekki og hún brosir þegar hún skýrir frá efninu. "Kannski var ritgerðin mín aðferð til þess að verja þá ákvörðun mína að hafa farið í heimspeki, en ritgerðin fjallar um mikilvægi þess að breyta samkvæmt eigin sannfæringu en ekki annarra. Á meðan ytra hugrekki snýst um hetjudáðir og framgöngu í samfélaginu snýst innra hugrekki um að þora að vera maður sjálfur. Einstaklingurinn stríðir við að samræma hugmyndir úr umhverfinu og sína eigin eðlisávísun. Það er merki um hugrekki að viðhalda þessu innra stríði, að hlífa sér ekki of mikið og þora að fylgja eigin sannfæringu."

Alvöru nám nýtist alltaf

Ein meginforsenda þess að skilja áhrif umhverfisins er að kunna að lesa í það. Í því skyni hefur bókmenntanámið gagnast Kristínu vel, að hennar eigin sögn. "Í bókmenntafræðinni er kenndur gagnrýninn textalestur sem nýtist á ýmsum sviðum, til dæmis gagnvart fjölmiðlum og stjórnmálamönnum. Það er ekki nóg að fylgja þeim sem talar hæst. Það er óendanlega mikilvægt að skilja orðin og hvað þau segja í samhenginu, orð eru nefnilega svo ofsalega margræð."

Myndir eru annar áhrifaríkur tjáningarmáti sem heillar Kristínu og hún er nú á leið í mastersnám í tilraunahreyfimyndagerð (experimental animation) við CalArt- háskólann í Kaliforníu. "Walt Disney stofnaði þennan skóla á sínum tíma og kunnugir segja að deildin sem ég hef fengið inni í sé sú besta sinnar tegundar í heiminum," segir Kristín feimnislega. Hún er ómenntuð í listum en sendi með umsókninni snjalla hugmyndamöppu sem hún sýnir blaðamanni. "Hreyfimyndagerð byggir á frumlegri hugsun og ég þakka það heimspekinámi mínu að miklum hluta að ég komst inn í CalArt-skólann. Það sannar það sem ég hef alltaf haldið fram, að sé námi sinnt af áhuga fer það aldrei til spillis."

Morgunblaðið/Halldór KRISTÍN Eva Þórhallsdóttir, BA í heimspeki.