HÓTEL Örk í Hveragerði hefur yfir vetrarmánuðina mörg undanfarin ár boðið eldri borgurum upp á svonefnda sparidaga frá sunnudegi til föstudags. Verðinu hefur verið mjög í hóf stillt, sem hefur orðið til þess að margir sjá sér fært að taka þátt í þessum dögum. Við eldri borgarar á Akranesi og nágrenni höfum sannarlega nýtt okkur þetta boð og fjölmennt á Örkina.
Sparidagar á Hótel Örk

Frá Bjarnfríði Leósdóttur:

HÓTEL Örk í Hveragerði hefur yfir vetrarmánuðina mörg undanfarin ár boðið eldri borgurum upp á svonefnda sparidaga frá sunnudegi til föstudags.

Verðinu hefur verið mjög í hóf stillt, sem hefur orðið til þess að margir sjá sér fært að taka þátt í þessum dögum.

Við eldri borgarar á Akranesi og nágrenni höfum sannarlega nýtt okkur þetta boð og fjölmennt á Örkina.

Nú fyrir skömmu eða í upphafi einmánaðar fór hópur héðan frá Akranesi, Borgarnesi og dölum Borgarfjarðar, ásamt Kópavogsbúum og Vestmannaeyingum. Hótelið var fullt af fólki.

Þarna dvöldum við síðan í dýrðlegum fagnaði, ágætri gistingu, góðum morgunverði og þríréttuðu veisluborði öll kvöld.

Á morgnana var byrjað á leikfimisæfingum og danskennslu, síðan var morgunverður, þá var farið að spila félagsvist, brids eða bingó. Eftir hádegi var ýmist farið í gönguferð, iðkuð boccia eða púttað, einu sinni var farið í Fjósið á Laugarbökkum við Ölfusá, farið í heimsókn á Heilsustofnun NLFÍ. Einu sinni var spurningakeppni, þar sem í verðlaun voru sólarlandaferðir, eða dvöl á hótelum.

Góðir gestir komu til okkar, svo sem barnakór Hveragerðis, sem söng fyrir okkur. Börnin eru okkur að góðu kunn, sem höfum verið þarna fyrr. Oft var líka rifjaður upp einhver dans. Rebekka okkar Kristjánsdóttir frá Úrvali-Útsýn var þarna með happdrætti, sólarlandaferðir, sem Ferðaskrifstofan gefur, þannig að margir fóru með utanlandsferðir í uppbót á þessa daga.

Glæsimeyjar úr héraðinu, verðandi fegurðardrottningar, sýndu okkur fatnað.

Áður en við settumst að kvöldverði, fóru sumir á barinn, aðrir spjölluðu, tengdu vináttubönd, gömul og ný, síðan sungum við með undirleik Ingibjargar í Fljótstungu.

Svo var opnað inn í matsalinn, þangað hélt þetta prúðbúna fólk, hvert kvöld til veislufagnaðar. Góður matur var framborinn af háttvísu starfsfólki. Hvert kvöld undir borðum flutti Árni Ísleifsson okkur ljúfa tónlist. Síðan voru ýmis skemmtiatriði. Eitt sinn kom bóndi úr Fljótshlíðinni sem flutti okkur gamanmál í tali og tónum. Afburða skemmtilegur.

Einsöngur, dúett og kvartett var, einnig danspör sem sýndu okkur samkvæmisdansa af mikilli list. Síðan var dansað öll kvöld og Árni okkar Norðfjörð spilaði undir dansinum.

Árni Norðfjörð hefur verið skemmtanastjóri á Örkinni undanfarin ár. Hann hefur svo sannarlega ekki slegið slöku við. Öll skemmtiatriði hefur hann undirbúið. Fengið fólk til að skemmta, oftast fyrir vináttusakir án endurgjalds. Hann hefur líka virkjað fólkið sem þarna er samankomið. Allir hafa verið samhuga um að gera þessa daga að sannkölluðum sparidögum.

Fyrir hönd okkar eldri borgara vil ég þakka öllum þeim mörgu sem gerðu þessa daga okkar ógleymanlega, ráðamönnum Hótels Arkar, öllu þjónustufólki, Árna Norðfjörð sem alls staðar var með okkur og síðast en ekki síst okkur sjálfum, sem svo sannarlega nutum samvistanna þessa daga. Sjáumst á næsta ári.

BJARNFRÍÐUR LEÓSDÓTTIR,

Stillholti 13, Akranesi.