KVIKMYNDIR/Stjörnubíó sýnir írsku gamanmyndina Waking Ned Devine með Ian Bannen og David Kelly í aðalhlutverkum. Myndin fjallar um tvo gamla félaga sem reyna að hafa uppi á heppnum lottóspilara í heimabæ sínum. Vinningshafa leitað FRUMSÝNING
KVIKMYNDIR /Stjörnubíó sýnir írsku gamanmyndina Waking Ned Devine með Ian Bannen og David Kelly í aðalhlutverkum. Myndin fjallar um tvo gamla félaga sem reyna að hafa uppi á heppnum lottóspilara í heimabæ sínum.

Vinningshafa leitað

FRUMSÝNING JACKIE O'Shea (Ian Bannen) og Michael O'Sullivan (David Kelly) eru aldagamlir vinir sem margt hafa brallað saman í gegnum tíðina og einatt komið sér í einhver vandræði. Þeir eru hinir mestu draumóramenn og treysta einatt á heppnina, en um langt skeið hafa þeir verið sannfærðir um að detta í lukkupottinn í lottóinu. Í hinum rólega og fámenna írska smábæ þar sem þeir búa, Tulaigh Morh, myndi janvel hinn smæsti pottur í lottóinu koma þeim að miklu gagni. Það verður því uppi fótur og fit hjá þeim félögum þegar þeir lesa frétt um það í dagblaði að einhver í þorpinu þeirra lumi á vinningsmiða í lottóinu. Þeir eru ekki í minnsta vafa um að auðvelt verði að hafa uppi á vinningshafanum og fá hann til þess að deila vinningnum með svo góðum vinum sem þeir eru. Íbúarnir í þorpinu eru aðeins 52 og þeim hefur farið fækkandi upp á síðkastið. Hinn heppni gæti verið hinn illa lyktandi svínabóndi Finn (James Nesbitt) eða hin lyktnæma kærasta hans, Maggie (Susan Lynch). Það gæti líka verið hin dularfulla Lizzie Quinn (Eileen Dromey), eða reyndar hver sem er í þorpinu. Eftir að hafa eytt nokkrum viskíflöskum og 18 kjúklingum í að reyna að hafa uppi á hinum nýríka nágranna hafa þeir Jackie og Micheal ekkert annað haft upp úr krafsinu en timburmenn og magapínu. Eiginkona Jackies, hin slæga Annie (Fionnula Flanagan), er orðin meira en lítið pirruð á þeim félögum og árangurslausri leit þeirra, en þá kemur í ljós að einn þorpsbúanna vantar. Það er enginn annar en gamli góði Ned Devine, og þegar þeir Jackie og Michael fara í heimsókn til hans kemur nokkuð óvænt í ljós sem heldur betur setur strik í reikninginn.

Ian Bannen hefur leikið í rúmlega 70 kvikmyndum og meðal þeirra eru Flight of the Phoenix með Jamie Stewart, en fyrir hlutverk sitt í henni var Bannen tilnefndur til óskarsverðlauna, The Offence og The Hill með Sean Connery, The Mackintosh Man með Paul Newman, Ghandi, Gorky Park, Damage og Braveheart. Bannen á jafnframt að baki langan feril í bresku leikhúsi og með Royal Shakespeare Theatre lék hann m.a. í As You Like It með Vanessu Redgrave og Othello með Sir John Gielgud. Þá er Bannen vel þekktur úr ýmsum sjónvarpsmyndaflokkum og meðal þeirra eru þættirnir Dr. Finlay og The Politician's Wife.

David Kelly á eins og Bannen að baki langan og glæstan feril í leikhúsum og hann hefur einnig leikið í fjölda kvikmynda í gegnum tíðina. Meðal þeirra eru myndirnar A Man of No Importance og Run of the Country með Albert Finney, The Jigsaw Man með Laurence Olivier og Pirates með Walther Matthau. Meðal sjónvarpsþátta sem hann hefur leikið í eru Fawlty Towers með John Cleese og Heartbeat.