DR. VÉSTEINN Ólason prófessor tekur við starfi forstöðumanns Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi hinn 1. maí, en forveri hans, Stefán Karlsson prófessor, lét af störfum vegna aldurs um síðastliðin áramót. Vésteinn er fæddur á Höfn í Hornafirði 1939 og á að baki rösklega 30 ára feril við rannsóknir og kennslu íslenskra bókmennta.
FÓLK Nýr forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar

DR. VÉSTEINN Ólason prófessor tekur við starfi forstöðumanns Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi hinn 1. maí, en forveri hans, Stefán Karlsson prófessor, lét af störfum vegna aldurs um síðastliðin áramót.

Vésteinn er fæddur á Höfn í Hornafirði 1939 og á að baki rösklega 30 ára feril við rannsóknir og kennslu íslenskra bókmennta. Hann lauk mag.art.-prófi í íslenskum fræðum frá heimspekideild Háskóla Íslands 1968 og varð doktor frá heimspekideild Háskóla Íslands 1983. Doktorsritgerð hans, The Traditional Ballads of Iceland: Historical Studies, fjallaði um forna sagnadansahefð Íslendinga og kom hún út í ritröð Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi.

Á árunum 1968­1972 starfaði Vésteinn sem lektor í íslensku við Kaupmannahafnarháskóla en fluttist að því búnu aftur heim til Íslands og gegndi fyrst stöðu lektors og síðan dósents í almennri bókmenntasögu við Háskóla Íslands en dósent í íslenskum bókmenntum við háskólann var hann 1980­1985. Árin 1985­1991 var Vésteinn prófessor í íslensku við háskólann í Ósló og dvaldist þá veturinn 1988­89 sem gistiprófessor við Kaliforníuháskóla í Berkeley í Bandaríkjunum. Frá árinu 1991 hefur Vésteinn starfað hér heima og verið prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands.

Vésteinn er afkastamikill fræðimaður og meðal bóka sem eftir hann liggja má nefna Sagnadansa sem út kom 1979, Sögu af Tristram og Ísönd sem hann gaf út 1987, Íslenska bókmenntasögu I­II sem hann var meðhöfundur að og ritstýrði ásamt öðrum 1992­93 og loks bókina Samræður við söguöld. Frásagnarlist Íslendinga og fortíðarmynd sem kom út 1998 og samtímis einnig á ensku undir heitinu Dialogues with the Viking Age. Narration and Representation in the Sagas of the Icelanders. Þá hefur birst eftir hann mikill fjöldi greina í tímaritum bæði hér heima og erlendis.

Eiginkona Vésteins er Unnur A. Jónsdóttir menntaskólakennari og eiga þau tvö börn.