MIKIL umræða hefur verið um svonefndan aldamótaársvanda í tölvukerfuum víða um heim. Miklu fé hefur verið eytt í að undirbúa tölvukerfi undir áramótin örlagaríku þegar ártalið breytist út 99 í 00 samkvæmt áður viðurkenndum leiðum til að tákna ár í útreikningum.

Lagalegar

hliðar aldamótaársvandans Fyrirtæki eru sem óðast að búa sig undir næstu áramót, en þá óttast menn að tölvukerfi víða um heim fari úr skorðum þegar ártalið 99 verður 00. Árni Matthíasson sat fjarfund þar sem ræddar voru lagalegar hliðar þessa máls. MIKIL umræða hefur verið um svonefndan aldamótaársvanda í tölvukerfuum víða um heim. Miklu fé hefur verið eytt í að undirbúa tölvukerfi undir áramótin örlagaríku þegar ártalið breytist út 99 í 00 samkvæmt áður viðurkenndum leiðum til að tákna ár í útreikningum. Mjög hefur umræða verið æsingakennd og æsingurinn aukist eftir því sem nær dregur áramótum, en í seinni tíð hafa menn beint sjónum að lagalegum hliðum málsins, þ.e. hvaða ábyrgð stjórnendur og forsvarsmenn fyrirtækja bera, hvort sem það eru hugbúnaðar- og tölvufyrirtæki eða fyrirtæki sem treysta á upplýsingatækni í rekstri sínum. Fyrir skemmstu skipulagði bandaríska sendiráðið fjarfund um málið með frammámönnum í íslensku viðskiptalífi og bandarískum sérfræðingum. Vestur í Bandaríkjunum fjölgar sífellt málaferlum vegna raunverulegs eða ímyndaðs skaða af völdum 2000-vandans og hefur vakið ugg manna í bandarísku viðskiptalífi um að kostnaður vegna málaferla verði meiri en vegna úrbóta til að bæta úr. Þessu til viðbótar óttast menn að upp hefjist sægur málaferla á hendur stjórnendum fyrirtækja fyrir að hafa ekki gert nóg til að bregðast við fyrirsjáanlegum skaða eða að hafa eytt of miklu fé til að bregðast við ef kemur í ljós að vandinn var ekki eins víðtækur og menn óttast í dag. Fyrir vikið hafa menn nú áhyggjur af því vestan hafs að mörg fyrirtæki eigi eftir að lenda í þroti þótt þau lifi af næstu áramót. Á fjarfundi á vegum bandaríska sendiráðsins og Verslunarráðs var þetta mál reifað af Jan Amundson, varaforseta framleiðendasamtaka Bandaríkjanna og Mark A. Behrens, sem er lögmaður hjá Crowell & Moring LLP í Washington og hefur sérhæft sig í skaðsemiábyrgð og skaðabótarétti. Af Íslands hálfu tóku þátt Bjarni Ármannsson forstjóri Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Frosti Sigurjónsson, forstjóri Nýherja, Guðjón Rúnarsson, aðstoðar framkvæmdastjóri Verslunarráðs, Viðar Viðarsson frá rekstrarsviði Landssímans og Hörður Arnarsson, framkvæmdastjóri þróunar- og framleiðslusviðs Marels. Jan Amundson segir að framleiðendasamtökin hafi byrjað á því fyrir fimm árum að óska eftir upplýsingum um hvern veg fyrirtæki hygðust bregðast við fyrirsjáanlegum vanda en lítið hefði borist af svörum, meðal annars vegna þess að fyrirtæki óttuðust að segja of mikið, sem gæti svo komið niður á markaðsstöðu þeirra og -verðmæti og kallað yfir þau málssóknir frá hluthöfum og viðskiptavinum. Mörg mála sem höfðuð hafa verið vegna 2000-vandans á síðustu árum hafa einmitt byggst á yfirlýsingum fyrirtækja um hversu vel þau séu undir áramótið 1999/2000 búin og því hafi verið mikil þörf á að auðvelda fyrirtækjum að skiptast á upplýsingum um þau efni. Þrjú frumvörp Lög um 2000-vandann voru sett vestan hafs í október 1998. Eftir því sem nær hefur dregið áramótunum örlagaríku hefur ótti manna við málssóknaflóð aukist og leiddi á endanum til þess að fyrir bandaríska þinginu eru nú þrjú frumvörp sem ætlað er að bregðast við þessu. Að sögn Amundsons er höfuðáhersla lögð á að fyrirtæki leysi hugsanlegan ágreining sinn án aðstoðar dómstóla, enda sé það vænlegasta leiðin til að ná sáttum sem báðir geti vel við unað, aukinheldur sem málaferli séu dýr og óhagvirk leið til að fá bættan hugsanlegan skaða. Hún segir fyrirtæki vestan hafs óttast að kostnaður vegna málaferla verði yfir billjón dala, 72 þúsund milljarðar króna. Mark A. Behrens segir að þrýstingur frá fyrirtækjum hafi leitt til lagafrumvarpa sem nú liggja fyrir bandaríska þinginu en einnig sé mikill þrýstingur á stjórnvöld um að breyta ekki kerfinu, þ.e. að bregðast ekki við. Í máli Behrens og Amundsens kom einmitt fram ótti um að svonefndur "þriðji flokkurinn" í bandarískum stjórnmálum, samtök skaðabótalögmanna, sem er geysiöflugur og stöndugur þrýstihópur, eigi eftir að hindra umbætur til að tryggja uppgrip þeirra í málaferlum vegna 2000-vandans á næstu árum. Liður í lagafrumvörpunum vestan hafs er 90 daga umþóttunartími, þ.e. ekki sé heimilt að hefja málsókn fyrr en 90 dögum eftir 1. janúar næstkomandi, og Guðjón Rúnarsson lýsti ánægju sinni með þá hugmynd. Behrens segir að hún sé ekki síst til þess ætluð að fá fyrirtæki til að leysa málin án þess að dómstólar komi að og til að draga úr óþarfa almennum málsóknum, því að hans mati séu Bandaríkjamenn "haldnir lögsóknaræði" og áberandi að fólk vilji skjóta sér undan ábyrgð á eigin ákvörðunum. Það veki ekki síst óhug manna í viðskipatalífi að hægt sé að kaupa leiðbeiningar um hvernig eigi að höfða mál vegna 2000-vandans, einungis þurfi að fylla út í reiti. Málaferli af þessu tagi sé dýr og því kjósi fyrirtæki oft að semja frekar en að verja hendur sínar fyrir rétti og fjölmargir lögmenn geri út á slíkt, enda taki þeir almennt að sér slík mál upp á prósentu. Áhyggjur af birgjum og viðskiptavinum Amundsen sagði að tölvu- og stórfyrirtæki vestan hafs hafi flest brugðist við hugsanlegum vanda, en hafi nú meiri áhyggjur af birgjum og viðskiptavinum sínum, enda getur það sett fyrirtæki í mikinn vanda ef helsti birgi þess eða viðskiptavinur dettur út í lengri eða skemmri tíma. Verulegu máli skipti og við samruna fyrirtækja að bæði séu vel undir vandann búin og þannig sé stærra fyrirtæki ekki að kaupa minna fyrirtæki með 2000-vanda í kaupauka. Einnig segir hún mjög misskipt hversu lönd eru undirbúin fyrir áramótin, og þannig hafa mörg Evrópulönd ekki búið sig undir vandann sem skyldi vegna anna við umskipti í evruna, en austur í Japan hafa fyrirtæki og stjórnvöld almennt lítið hafst að svo dæmi séu tekin. Ágætt dæmi um hvaða vanda fyrirtæki gætu staðið frammi fyrir væri að bandarískir ávaxtaframleiðendur vestan hafs séu í þeirri erfiðu stöðu að innri gerð upplýsingakerfa þeirra landa þar sem höfuðframleiðsla þeirra er ræktuð sé mjög bágborin og lítið sem ekkert hafi verið brugðist við aðsteðjandi vanda. Behrens tekur í sama streng og segir að ævinlega blasi við það vandamál að þó fyrirtæki fái bættan vélbúnað sem bregðist vegna 2000- vandans fáist ekki bættur skaði sem hann veldur. Tryggingarfyrirtæki vestan hafs neita yfirleitt að tryggja fyrirtæki vegna 2000-vandans, enda þeirra mat að ekki sé um að ræða ófyrirsjáanlegan atburð og varla komi það fram í gildandi skilmálum rekstrartrygginga að fyrirtæki séu tryggð vegna hremminga af völdum 2000-vandans. Of lítið eða of mikið Eins og getið er óttast margir stjórnendur fyrirtækja vestan hafs að þeir verði sóttir til saka fyrir að gera of lítið eða of mikið. Almenn skylda stjórnenda er að tryggja að rekstur fyrirtækisins gangi áfallalaust fyrir sig og ef reksturinn fer úr skorðum vegna 2000-vandans, sem telst varla ófyrirsjáanlegur atburður, megi stjórnendur fyrirtækisins búast við málssókn frá hluthöfum fyrir vanrækslu. Ef aftur á móti ekkert kemur uppá í rekstrinum, en dregur úr hagnaði vegna útgjalda til að bregðast við vandanum, er hugsanlegt að hluthafar hefji málsókn á þeim forsendum að stjórnendur hafi eytt of miklu. Í spurningu frá Viðari Viðarssyni kom fram að Landssíminn hefði eytt verulegu fé í að tryggja að allt væri í lagi þar innan húss en menn aftur á móti ekki velt eins fyrir sér lagalegri hlið málanna og Frosti Sigurjónsson sagði athyglisvert hve stjórnvöld hér hefðu lagt mikla áherslu á að orkuveitur væru í lagi en ekki beitt sér í lagasetningu vegna hugsanlegs vanda. Víst væri rétt að búa sig undir hugsanlegan skaða, en ekki skipti minna máli að bregðast við því sem fylgt gæti í kjölfarið. Hörður Arnarsson sagði að Marel hafi lagt mikla vinnu í að búa hugbúnað sinn undir áramótin næstu og láti þess getið á umbúðum og í skjölum sem fylgi framleiðsluvöru fyrirtækisins. Amundson sagði að álíka væri málum háttað hjá fyrirtækjum vestan hafs; þau setji inn fyrirvara, en gæti þess jafnan að ganga ekki of langt í loforðum um 2000-samhæfni, óttist að vera of opinská, enda geti það kallað á málsóknir. Almennt talað borgi sig ekki fyrir fyrirtæki að segja að ekkert muni koma uppá og benti Amundsen á að Microsoft væri hætt að merkja hugbúnað sinn með þeim orðum að hann væri Y2K samhæfður, en segi hann búinn undir Y2K. Behrens leggur áherslu á að ábyrgð stjórnenda sé mikil og þeir verði að bregðast við til að verja fyrirtækið og sjálfa sig. Almennt verði þó ekki hægt að draga menn til ábyrgðar ef þeir hafi gert það sem hægt sé að gera eins og málum er háttað. Frekari upplýsingar um ofangreint og aðgerðir til að tryggja hag fyrirtækja vestan hafs má nálgast á slóð upplýsingatæknisamtaka Bandaríkjanna, www.itaa.org/.

Óttast að verða sóttir til saka

Rétt að búa sig undir hugsanlegan skaða

Morgunblaðið/Golli FRÁ fjarfundi frammámanna í íslensku viðskiptalífi og bandarískra sérfræðingum um 2000-vandann.