TYRKNESK stjórnvöld lýstu því yfir í gær að alþjóðlegum eftirlitsmönnum yrði ekki hleypt að Abdullah Öcalan skæruliðaleiðtoga Kúrda sem situr nú í varðhaldi á Imrali- fangelsiseyjunni í Marmarahafi. Fulltrúar mannréttindasamtakanna Amnesty International höfðu farið þess á leit að fá að vera viðstaddir réttarhöldin yfir Öcalan sem ráðgert er að hefjist í Ankara dag.

Bón

Amnesty synjað

TYRKNESK stjórnvöld lýstu því yfir í gær að alþjóðlegum eftirlitsmönnum yrði ekki hleypt að Abdullah Öcalan skæruliðaleiðtoga Kúrda sem situr nú í varðhaldi á Imrali- fangelsiseyjunni í Marmarahafi. Fulltrúar mannréttindasamtakanna Amnesty International höfðu farið þess á leit að fá að vera viðstaddir réttarhöldin yfir Öcalan sem ráðgert er að hefjist í Ankara dag. Talsmaður tyrkneska utanríkisráðuneytisins sagði að einstaklingum yrði leyft að vera viðstaddir réttarhöldin en tyrknesk stjórnvöld myndu ekki viðurkenna opinbert eftirlitshlutverk þeirra.

Nígería tekin í sátt

UTANRÍKISRÁÐHERRAR Samveldisríkjanna sem funduðu í Lundúnum í gær lögðu til að þriggja ára tímabundinn brottrekstur Nígeríu úr ríkjasamstarfinu yrði ógiltur. Ef tillagan nær fram að ganga munu nígerísk stjórnvöld geta tekið sæti sitt meðal annarra Samveldisríkja í lok maí hið fyrsta. Ríkinu var vikið úr Samveldinu eftir að níu nígerískir mannréttindafrömuðir voru líflátnir árið 1995.

Deilt um embætti í Nígeríu

BRESTIR eru taldir vera að myndast innan lýðræðislega þjóðarflokksins (PDP) í Nígeríu vegna deilna leiðtoga flokksins um það hverjum beri mikilvægustu embættin í ríkisstjórn landsins. Harðast er deilt um embætti forseta öldungadeildar og neðri deildar þingsins. Er misjafnt vægi tiltekinna ættbálka innan stjórnarinnar talið vera helsti ásteytingarsteinninn.

Flugskeytum skotið á Írak

BANDARÍSKAR herþotur gerðu í gær loftárás á skotmörk í flugbannssvæðinu yfir norðurhluta Íraks eftir að flugskeytum íraska hersins hafði verið beint að þeim. Í yfirlýsingu bandaríska hersins sagði að flugmenn F-15 og F-16 orrustuþotna hefðu skotið flugskeytunum í sjálfsvörn. Meðan á árásinni stóð funduðu þeir Saddam Hussein og Vladimír Zírínovskí, leiðtogi rússneskra þjóðernissinna, í Bagdad. Þar áréttaði Zírínovskí stuðning sinn við Írak í "baráttu ríkisins við bresku og bandarísku árásaraðilana."