Það er ljóst, segir Helgi Grímsson, að ábyrgð þeirra sem starfa með börnum í tómstundastarfi er mikil.
Að loknu Menntaþingi

Tómstundastarf Það er ljóst, segir Helgi Grímsson , að ábyrgð þeirra sem starfa með börnum í tómstundastarfi er mikil.

Mikill fjöldi barna og ungs fólks á Íslandi tekur þátt í skipulögðu íþrótta- og félagsstarfi. Rannsóknir benda hins vegar til þess að þátttaka barna fari minnkandi. Aðspurð segjast færri 10­15 ára börn vera virkir þátttakendur í skipulögðu tómstundastarfi (íþróttir, félags- og tómstundastarf í skóla og félagsmiðstöðvum, skátastarf, KFUM og K, kirkjustarf, ungtemplarastarf o.fl.) árið 1997 en 1968. Hlutfall óvirkra hækkar úr rúmum 20% í tæp 40%. Þetta er vissulega áhyggjuefni þar sem æ fleiri börn virðast fara á mis við þá menntun sem felst í starfi af þessum toga. Þetta er mjög mikið áhyggjuefni ef litið er til þess að tómstundir barna taka til allt að 80% af árlegum vökutíma þeirra. Má það vera að börn og unglingar verji mestum tíma sínum fyrir framan tölvuskjáinn, sjónvarpið eða í götulíf með jafnöldrum sínum? Ríkisstjórn, sveitarstjórnir og samfélagið í heild sinni þurfa að leita svara við stórum spurningum. Hvert viljum við beina börnum í frítíma sínum? Hvað þarf að gera til þess að beina þeim í þann farveg? Hver á að vera atbeini hins opinbera?

Samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga er ljóst að sveitarfélög bera ábyrð á að tryggja þroskavænleg uppeldisskilyrði fyrir börn og ungmenni þar sem faðmi fjölskyldunnar sleppir. Svo ég taki mið af skátastarfi þá er skátahreyfingin með starfi sínu að hjálpa sveitarfélögum að axla skyldur sínar og því er eðlilegt að líta svo á að sveitarfélögum beri að styrkja skátastarf eins og störf annarra þjónustustofnana sveitarfélaga innan ramma þjónustusamnings.

Skólinn skiptir máli

Ljóst er að uppeldi æskulýðsleiðtoga fer ekki einungis fram í félagsstarfi, heldur skiptir skólakerfið þar miklu máli ­ þangað koma allir. Í grunnskólalögum er kveðið á um að öllum nemendum skuli gefinn kostur á að taka þátt í tómstunda- og félagsstarfi sem meðal annars stefni að því að nemendur verði færir um að taka að sér félagsleg störf í þjóðfélaginu. Þetta er best gert með fræðslu um félagsmál og beinni þátttöku í skipulagningu og framkvæmd félagsstarfs. Þetta tel ég að eigi að vera sjálfsagður hluti lífsleiknináms samkvæmt nýrri aðalnámskrá.

Ég tel að það sé verðugt samstarfsverkefni sveitarstjórna, skóla, heimila og æskulýðssamtaka að búa þannig um hnútana að börnum standi til boða fjölþætt tómstundastarf í hverju sveitarfélagi. Mjög mikilvægt er að koma í veg fyrir stéttskipt tómstundastarf og því verður að skapa þær aðstæður að öll börn geti tekið þátt í þroskavænlegu skipulögðu tómstundastarfi óháð efnahag foreldra. Eins vara ég við þeirri einfeldni að halda að öllum börnum og unglingum henti starf sem byggist á sömu eða svipuðum leiðum.

Ábyrgð leiðbeinenda í tómstundastarfi

Það er ljóst að ábyrgð þeirra sem starfa með börnum í tómstundastarfi er mikil. Með breyttum þjóðfélagsaðstæðum og aukinni atvinnuþátttöku foreldra aukast kröfur til þeirra sem sinna tómstundastarfi með börnum og unglingum. Stefna skátahreyfingarinnar er sú að þeir sem bera ábyrgð á starfi skátanna (sveitarforingjar) séu sjálfráða, hafi öðlast reynslu og menntun í stjórnun og leiðsögn barna og unglinga, skyndihjálp, slysavörnum og útilífi.

Til þess að koma til móts við auknar kröfur til þeirra sem starfa með börnum í tómstundum er mikilvægt að ríkisvaldið stuðli að því að í boði sé menntun á framhaldsskóla- og háskólastigi fyrir þá sem hafa atvinnu af því að vinna með börnum í tómstundastarfi. Menntunin verður að fara að allnokkru leyti fram á vettvangi þar sem nemendur fá reynslu í að takast á við verkefni í ólíkum geirum tómstundastarfs.

Mörg félagasamtök hafa umfangsmikið fræðslukerfi fyrir félagsmenn sína. Ég tel eðlilegt að ríkisvaldið stuðli að því að starfræktar séu menntastofnanir á háskólastigi sem veita þeim ráðgjöf og fræðslu sem standa fyrir skipulögðu tómstundastarfi og stuðli að samstarfi félagasamtaka á sviði leiðbeinendamenntunar. Þannig er hægt að styrkja þetta fræðslukerfi enn frekar með því að samtökin geti leitað eftir faglegri ráðgjöf um menntun og þjálfun félagsmanna sinna og notið góðs af reynslu annarra félagasamtaka.

Niðurstöður Menntaþings

Á Menntaþingi komu saman fjölmargir aðilar sem starfa með börnum og fólki í tómstundum. Niðurstöður Menntaþings voru þær að virk þátttaka í skipulögðu tómstundastarfi skiptir börn og ungt fólk verulegu máli. Samhliða auknum kröfum til leiðbeinenda verður að efla menntun þeirra og skapa aðstæður til þess að skipulagt tómstundastarf fái dafnað. Vonandi mun Menntaþing styrkja stöðu þeirra félagasamtaka og opinberu aðila sem bjóða upp á skipulagt tómstundastarf fyrir börn og ungt fólk og um leið leggja grunn að öflugu samstarfi þeirra á sviði fræðslu- og menntamála.

Höfundur er fræðslustjóri Bandalags íslenskra skáta.

Helgi Grímsson