BJARKI Sigurðsson, fyrirliði Íslandsmeistara Aftureldingar, var í gær valinn leikmaður Íslandsmótsins í handknattleik af íþróttafréttamönnum Morgunblaðsins. Þetta er í annað sinn sem Bjarki verður fyrir valinu, en hann hreppti hnossið einnig fyrir tveimur árum.


HANDKNATTLEIKUR

Bjarki

leikmaður

ársins BJARKI Sigurðsson, fyrirliði Íslandsmeistara Aftureldingar, var í gær valinn leikmaður Íslandsmótsins í handknattleik af íþróttafréttamönnum Morgunblaðsins. Þetta er í annað sinn sem Bjarki verður fyrir valinu, en hann hreppti hnossið einnig fyrir tveimur árum. Að mati íþróttafréttamanna Morgunblaðsins lék Bjarki allra manna best á nýliðinni leiktíð og er auk þess sönn fyrirmynd handknattleiksmanna utan vallar sem innan þar sem hann geislar af leikgleði sem hefur jákvæð áhrif á samherja, andstæðinga jafnt sem áhorfendur.

Auk þess varð Bjarki markahæsti leikmaður 1. deildarkeppninnar, skoraði 170 mörk í 22 leikjum. Þá er hann markahæsti leikmaður úrslitakeppninnar frá því að hún hófst 1992, hefur skorað 251 mark fyrir Víking og Aftureldingu, en Bjarki bætti met Valdimars Grímssonar, 217 mörk, í miðri úrslitakeppninni á þessu vori.

"Ég reyni að leggja mig fullkomlega fram í í hvern leik sem ég tek þátt í og því þykir mér vænt um útnefningar sem þessa og er þakklátur fyrir hana," sagði Bjarki í gær er hann tók við eignabikar til staðfestingar kjörinu. "Annars tileinka ég þessa nafnbót öllum félögum mínum í Aftureldingarliðinu, en þar á bæ hafa menn staðið þétt saman í vetur og svo sannarlega uppskorið eins og til var sáð."

Bjarki segist hafa náð sér sérlega vel á strik á nýliðinni leiktíð sem væri beint framhald af því hvernig hann lék veturinn áður er hann var í herbúðum Drammen í Noregi. "Síðan er reynslan eflaust einnig farin að vega þungt."

Leikgleði sagði Bjarki að væri mikilvægur þáttur í fari hvers leikmanns og hann hefði lagt sig fram um að vera öðrum fyrirmynd í því. "Leikgleðin skiptir miklu máli, en með henni nærðu að smita félaga þína með og hafa jákvæð áhrif á áhorfendur."

Morgunblaðið/RAX BJARKI Sigurðsson, handknattleiksmaður ársins 1999, að mati íþróttafréttamanna Morgunblaðsins.