RÁÐSTEFNA um barnavernd og félagsráðgjöf verður haldin í dag á Grand Hóteli frá klukkan 9 til klukkan 16. Það er Fræðslunefnd stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa sem býður til þessarar ráðstefnu. Hún er ætluð félagsráðgjöfum, félagsmálastjórum og starfsmönnum barnaverndarnefnda.
Ráðstefna um barnavernd

Barnaverndarstarf mikilvægt

RÁÐSTEFNA um barnavernd og félagsráðgjöf verður haldin í dag á Grand Hóteli frá klukkan 9 til klukkan 16. Það er Fræðslunefnd stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa sem býður til þessarar ráðstefnu. Hún er ætluð félagsráðgjöfum, félagsmálastjórum og starfsmönnum barnaverndarnefnda. Tilefni ráðstefnunnar er sú, að sögn Steinunnar Hrafnsdóttur, formanns umræddrar fræðslunefndar, að ýmsar breytingar hafa orðið á barnaverndarstarfi á undanförnum árum og verið er að vinna að endurskoðun laga um vernd barna og ungmenna. "Því er mikilvægt að félagsráðgjafar og aðrir sem vinna að barnavernd komi saman og fjalli um hugmyndafræði og framtíðarstefnu í þessum málaflokki," sagði Steinunn ennfremur. En hvað skyldi henni finnast brýnast að gera í þessum efnum?

"Markmið barnaverndar er samkvæmt lögum að tryggja börnum viðunandi uppeldisskilyrði. Brýnast er að tryggja þetta eftir föngum. Lögð er áhersla á, í störfum þeirra sem koma að barnavernd, að hagur barnsins sé alltaf hafður í fyrirrúmi. Það á samkvæmt lögum að hafa það að leiðarljósi sem barninu er fyrir bestu. Oftast er tilkynnt til barnaverndarnefnda vegna gruns um fjölþætta vanrækslu, um misnotkun barns eða forráðamanna þess á vímuefnum, ef barn virðist stefna eigin heilsu og þroska í hættu, ef grunur er um líkamlegt ofbeldi, afbrot og skemmdarverk barns, og ekki síst vegna gruns um kynferðislegt ofbeldi og erfiðleika barns í skóla."

­ Er fólk almennt nægilega vakandi fyrir því að tilkynna ef það verður vart við að uppeldi barns sé á einhvern hátt vanrækt?

"Fólk er í auknum mæli að gera sér grein fyrir að það hefur skyldu samkvæmt lögum til þess að tilkynna til barnaverndarnefnda ef það grunar að uppeldi eða aðbúnaði barns sé ábótavant. En samt er fólk ekki nægilega vakandi í þessum efnum enn."

­ Hvað er hægt að gera ef tilkynning um vanrækslu tiltekins barns berst barnaverndaryfirvöldum?

"Fyrst og fremst er málið kannað af starfsmönnum barnaverndarnefnda. Lögð er áhersla á að vinna málin í samvinnu við foreldra og börn. Stuðningsúrræði sem eru fyrir hendi eru leiðbeiningar og ráðgjöf um uppeldi og aðbúnað barna, að útvega barni eða fjölskyldu tilsjónarmann, persónulegan ráðgjafa og stuðningsfjölskyldu, aðstoða foreldra og/eða börn að leita sér meðferðar vegna veikinda, persónulegra vandamála og áfengis- og vímuefnaneyslu, og stuðningur eins og fjárhagsaðstoð og félagsleg ráðgjöf, tímabundið fóstur, varanlegt fóstur og vistun á meðferðarheimili ríkisins. Fyrst er reynd minni íhlutun og stuðningur, dugi það ekki er gripið til alvarlegra úrræða."

­ Hvaða aðilar koma að þessum málum?

"Félagsmálaráðuneyti fer með yfirstjórn barnaverndarmála og markar stefnu í málaflokknum. Barnaverndarstofa hefur með höndum daglega stjórn barnaverndarmála og annast samhæfingu og eflingu barnaverndarstarfs. Sveitarfélög skipa barnaverndarnefndir, en þær ráða til sín sérhæft starfslið sem annast framkvæmd barnaverndarstarfs. Í dag eru 82 barnaverndarnefndir starfandi á landinu. Þessar nefndir bera mikla ábyrgð, þær hafa með höndum forvarnir, eftirlit og leitarstörf og eiga að beita ákveðnum úrræðum til að tryggja sem best hagsmuni barna. Barnavernd á að vera samþætt annarri félagslegri þjónustu og í raun getur barnaverndarstarf ekki staðið undir nafni þar sem félagsþjónusta er ekki öflug. Mikilvægt er að barnaverndarnefndir hafi á að skipa sérhæfðu starfsfólki svo sem félagsráðgjöfum til að unnt sé að byggja upp heildstæða þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Um þetta er t.d. fjallað á ráðstefnunni í dag. Þar tala m.a. dr. Guðrún Kristinsdóttir um helstu áherslur í barnavernd, Hrefna Friðriksdóttir lögfræðingur gerir grein fyrir endurskoðun barnaverndarlaga og Þuríður Sigurðardóttir félagsráðgjafi fjallar um barnavernd í Þingeyjarsýslum. Barnaverndarstarf er mjög mikilvægt í nútímaþjóðfélagi, ekki bara börnum og fjölskyldum til velfarnaðar heldur einnig til hagsbóta fyrir þjóðfélagið allt."

Steinunn Hrafnsdóttir er fædd á Akureyri árið 1964. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1984 og BA-prófi í uppeldisfræði og félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands 1987. Starfsréttindum í félagsráðgjöf lauk Steinunn ári síðar. Meistaranámi í stjórnun lauk hún frá háskólanum í Kent í Bretlandi 1991. Steinunn starfaði sem félagsráðgjafi við geðdeild Landspítalans 1987 til 1989, kenndi stundakennslu og var deildarstjóri í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands frá 1991 til 1999. Hún stundar nú doktorsnám við háskólann í Kent, kennir stundakennslu við HÍ og starfar sem fræðimaður innan vébanda Reykjavíkurakademíunnar. Steinunn er gift Haraldi A. Haraldssyni vinnuvistfræðingi og eiga þau einn son.Hafa á það að leiðarljósi sem barninu er fyrir bestuSteinunn Hrafnsdóttir