Í GÆR fór fram síðasta útför fórnarlamba blóðbaðsins í Littleton, en þá var átján ára gamall drengur borinn til grafar. Lögregla segir sífellt fleiri vísbendingar finnast við rannsóknina, en á miðvikudag voru drengirnir þrír, sem grunaðir höfðu verið um aðild að morðunum, hreinsaðir af sakargiftum.
Morðin í framhaldsskólanum í Littleton

Drengirnir þrír hreinsaðir af sakargiftum

Fregnir um fleiri ódæðis- verk berast

Littleton, Lundúnum, New York. Reuters.

Í GÆR fór fram síðasta útför fórnarlamba blóðbaðsins í Littleton, en þá var átján ára gamall drengur borinn til grafar. Lögregla segir sífellt fleiri vísbendingar finnast við rannsóknina, en á miðvikudag voru drengirnir þrír, sem grunaðir höfðu verið um aðild að morðunum, hreinsaðir af sakargiftum. Yfirheyrslur yfir hinni átján ára gömlu Robyn Anderson, sem keypti þrjú vopnanna sem notuð voru í árásinni, standa enn yfir.

Að sögn lögreglu er Anderson ekki grunuð um aðild að morðunum, en samstarfsvilja hennar er þörf við rannsóknina og hefur hún ráðið sér lögfræðing. Að sögn sérfræðinga reynir lögregla nú að komast að því hvort hún hafi vitað um áform ódæðismannanna tveggja, Erics Harris og Dylans Klebolds, eða á einhvern hátt aðstoðað þá við að skipuleggja morðin.

Hefur lögreglan ekki gefið upplýsingar um það hvar hún keypti vopnin, en haft var eftir bandarískum fjölmiðlum að þau hafi verið keypt á vopnasýningu í Bandaríkjunum.

Árásir unglinga í Englandi og Bandaríkjunum

Fregnir hafa borist af skotárásum eða fyrirætlunum unglinga um árásir víðsvegar um Bandaríkin og í Englandi sl. daga sem kynt hafa undir ótta margra um að ódæðisverk eins og það sem framið var í Littleton muni endurtaka sig.

Í Taber, litlum bæ í vesturhluta Kanada, lét unglingur lífið og einn særðist í framhaldsskóla er fjórtán ára samnemandi þeirra hóf þar skothríð á miðvikudag. Hefur tilræðismaðurinn verið handtekinn og kærður fyrir morð og tilraun til morðs.

Í Gloucester í vesturhluta Englands handtók lögregla tvo drengi sem grunaðir voru um að hafa skotið inn um glugga á skólastofu í framhaldsskóla, með loftbyssu. Engan af þeim átján nemendum sem þar voru inni sakaði.

Í Kaliforníu í Bandaríkjunum voru þrír unglingar handteknir í vikunni eftir að lögregla fékk vísbendingu frá kennurum og fann í kjölfarið sprengiefni, handsprengju og teikningu af skólanum, sem drengirnir ganga í, á heimili þeirra.

Í New York var svipað upp á teningnum á miðvikudag, en þá voru fimm þrettán ára drengir kærðir fyrir samsæri. Höfðu þeir gert lista yfir þá sem þeir vildu feiga og höfðu í hyggju að koma sprengju fyrir í skóla þeirra í Brooklyn.