FRAM til ársins 2004 verða grundvallaratriðin í hagstjórn sem fyrr þau að halda efnahagslegum skilyrðum stöðugum og athafnalífinu fjörlegu. "Það verður í fyrsta lagi gert með aukinni og hraðri niðurgreiðslu skulda ríkisins.
Davíð Oddsson forsætisráðherra á afmælisráðstefnu Viðskiptablaðsins Sóknarfæri

í sölu ríkisbanka og ríkissíma

FRAM til ársins 2004 verða grundvallaratriðin í hagstjórn sem fyrr þau að halda efnahagslegum skilyrðum stöðugum og athafnalífinu fjörlegu. "Það verður í fyrsta lagi gert með aukinni og hraðri niðurgreiðslu skulda ríkisins. Stjórnvöld verða að sýna mikið aðhald í fjármálum, en láta ekki sífellt undan þeirri kröfugerð sem hæst rís, sem er þó auðveldast og þægilegast í amstri dagsins," að því er fram kom í ávarpi Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra, á ráðstefnu er Viðskiptablaðið stóð fyrir í tilefni af fimm ára afmæli blaðsins í gær.

Í ávarpinu kom Davíð inn á að umhverfi fyrirtækja og einstaklinga þyrfti að vera frjálslegt. "Áfram þarf að lagfæra skattakerfið, lækka skatta þar sem þess er kostur og gæta þess að íþyngja efnahagslífinu ekki um of með reglufargani og ofstýringu. Þannig aukum við framleiðni okkar, samkeppni inn á við og samkeppnishæfni út á við. Áframhaldandi sala ríkisfyrirtækja þjónar einmitt þessum stefnumiðum."

Að sögn Davíðs þarf að auka almennan sparnað. "Frá því að kreppunni lauk höfum við verið að fjárfesta og byggja upp og halda við og eyða dálitlu í okkur sjálf. Það er eðlilegt og jákvætt. Hins vegar þurfa núna fleiri en ríkið að leggja til hliðar svo þrýstingur aukist ekki á verðlagið. Almennt mun framboð sparnaðarforma aukast á næstu árum. Þannig munu vaxandi fjármálamarkaður og hlutabréfamarkaður, auk lífeyrissjóðanna, sækjast í auknum mæli eftir að ávaxta fyrir okkur spariféð. Við eigum síðan mikil sóknarfæri í sölu ríkisbanka og ríkissíma til að stórauka sparnaðinn. Og reyndar held ég að aldamótin sem nú eru framundan séu kjörinn tími fyrir okkur Íslendinga til þess að leyfa fólki að leysa til sín þá starfsemi sem byggst hefur upp alla öldina," segir Davíð Oddsson.

Heimatilbúinn lóðaskortur þrýstir fasteignaverði upp

Hann segist hins vegar ekki geta leynt því að þegar rætt er um framfarir og sparnað valdi sveitarfélögin áhyggjum, ekki síst hið stærsta. "Reykjavíkurborg, sem er sífellt stækkandi hluti hagkerfisins, er ekki að leggja fyrir í miðri efnahagsuppsveiflunni, heldur þvert á móti að auka skuldir. Um leið stórhækkar borgin skatta og leysir þannig til sín hluta af skattalækkunum ríkisins. Og sparnaðarmöguleikar hins almenna borgarbúa eru ekki bara rýrðir með skattahækkunum, heldur hefur heimatilbúinn lóðaskortur borgarinnar þrýst fasteignaverði svo hátt upp hér á höfuðborgarsvæðinu að bæði húskaupendur og húseigendur taka mun hærri lán en ella. Þarna eru því blikur á lofti," sagði forsætisráðherra.

Morgunblaðið/Ásdís DAVÍÐ Oddsson: Áfram þarf að lagfæra skattakerfið, lækka skatta þar sem þess er kostur og gæta þess að íþyngja efnahagslífinu ekki um of með reglufargani og ofstýringu.