MIKIL mannvirki Alþýðuskólans á Eiðum, kennslustofur, samkomusalur, sundlaug, mötuneyti, heimavist og kennaraíbúðir, hafa staðið auð undanfarin misseri, fyrir utan hótelrekstur á sumrin, en rætt hefur verið um að hópur flóttamanna, sem hingað er væntanlegur á næstu vikum, gæti fengið þar inni tímabundið.
Austur-Hérað hefur áhuga á að leigja Eiðar af ríkinu

Mannvirkin bjóða upp

á margs konar notkun Eiðar hafa í áratugi verið skólamiðstöð fyrir Austurland. Eftir að skólahald Alþýðuskólans og síðar Menntaskólans á Egilsstöðum lagðist þar niður er nú leitað leiða til að nýta mannvirkin sem eru í eigu ríkisins. Jóhannes Tómasson kom við á Eiðum nýlega og velti fyrir sér framtíð staðarins. MIKIL mannvirki Alþýðuskólans á Eiðum, kennslustofur, samkomusalur, sundlaug, mötuneyti, heimavist og kennaraíbúðir, hafa staðið auð undanfarin misseri, fyrir utan hótelrekstur á sumrin, en rætt hefur verið um að hópur flóttamanna, sem hingað er væntanlegur á næstu vikum, gæti fengið þar inni tímabundið. Þá hefur sveitarfélagið Austur-Hérað áhuga á að leigja þessi mannvirki af ríkinu til að koma þeim í gagnið en viðræður um það standa nú yfir. Eftir að hefðbundnu starfi alþýðuskóla í áratugi lauk á Eiðum fyrir nokkrum árum nýtti Menntaskólinn á Egilsstöðum aðstöðuna um tíma en síðan var horfið frá þeim ráðahag enda þótti ekki þénugt að reka skólann á tveimur stöðum. Rifja má upp að þegar stofnun menntaskóla á Austurlandi var undirbúin á sínum tíma var bent á þann möguleika setja hann niður á Eiðum þar sem ekki hefði þurft mikla uppbyggingu til viðbótar. Sú hugmynd náði ekki fram að ganga og smám saman dró úr aðsókn og með breyttu skipulagi liðu alþýðuskólar undir lok. Eins og fyrr segir er húsakostur mikill á Eiðum og þar eru kennslustofur, salur, sundlaug, mötuneyti, heimavistir og í heimavistarhúsunum eru kennaraíbúðir af ýmsum stærðum. Þá eru tvær kennaraíbúðir í sérhúsi. Af öðrum húsakosti á Eiðum má nefna prestssetur, kirkju og Eiðabúið, þ.e. íbúðarhús og útihús en íbúðarhúsið var nýlega selt og er kaupandi bóndi í Eiðaþinghá. Skólahúsnæðið er í eigu ríkisins, þ.e. menntamálaráðuneytisins, og spurning er hvaða nýtingu menn sjá til framtíðar. Rætt hefur verið um að selja eignirnar en ljóst að ekki er auðvelt að koma skólahúsnæði með tilheyrandi í verð. Hægt væri ef til vill að selja íbúðir og hugsanlega heimavistir sem gistiaðstöðu en hver á að kaupa skólastofur? Margs konar viðhald er orðið aðkallandi og liggur elsta byggingin, sem hýsir mötuneytið og hluta heimavistar nánast undir skemmdum vegna leka verði ekkert að gert fljótlega. Annað viðhald má telja eðlilegt, þ.e. málningu, gluggaviðgerðir og fleira. Telja má galla við heimavistir að aðeins sum herbergin eru með handlaug og ef mæta á kröfum nútímans varðandi aðbúnað í gistingu væri nauðsynlegt að fækka herbergjunum til að fá pláss til að útbúa í þeim fullkomna snyrtiaðstöðu. Það kallar á umtalsverða fjármuni og yrði að minnsta kosti varla gert fyrr en framtíðin er mörkuð. Vilja sjá staðinn í drift á ný Héraðsbúar una því illa að horfa upp á staðinn koðna niður og vilja sjá hann í drift á ný ekki síður en menntamálaráðuneytið. Sveitarfélagið hefur því hafið athugun á því að leigja staðinn til tveggja ára og standa þar fyrir einhverri starfsemi, að minnsta kosti á meðan ráðuneytið þreifar fyrir sér um frambúðarlausn. Fulltrúar ríkisins og Austur-Héraðs hafa ræðst við um hugsanlega leigu en engar ákvarðanir hafa enn verið teknar.

Hafþór Guðmundsson, bæjarstjóri Austur-Héraðs, sagði í samtali við Morgunblaðið að nýta mætti mannvirkin á Eiðum á marga vegu. Þar væri fyrst og fremst um að ræða gistiaðstöðu og mætti m.a. reyna að lengja nýtinguna á ári hverju. Síðan mætti bjóða ýmsum aðilum aðstöðu fyrir námskeiðahald, ráðstefnur og svipaða starfsemi. Var þeirri hugmynd m.a. kastað fram að þarna mætti hugsanlega reka alþjóðlegan flugskóla að Eiðum. Hafþór segir það aðalatriðið að koma staðnum í gagnið, ómögulegt sé að horfa upp á mannvirkin ónotuð og benda megi á að rekstur þeirra kosti fimm til sjö milljónir á ári, þ.e. aðeins kynding og húsvarsla. Hann er bjartsýnn á að samningar takist við menntamálaráðuneytið enda séu menn sammála um að nýta megi staðinn. Hann segir áhuga sveitarfélagsins byggjast meðal annars á því að það reki grunnskóla og leikskóla á staðnum og megi ef til vill fremur samnýta eignir sveitarfélagsins og ríkisins ef forráðin verða á einni hendi.

Í menntamálaráðuneytinu fengust þær upplýsingar að málið væri til athugunar og vonandi kæmist fljótlega botn í það. Ráðuneytið hefur samþykkt að flóttamenn geti fengið inni á Eiðum tímabundið ef henta þykir og er nú útlit fyrir að svo verði á næstu vikum.

LEITAÐ er nú leiða til að nota mannvirkin á Eiðum til margs konar reksturs úr því að skólahaldi þar virðist lokið að sinni.