PERMANENT Midnight er gerð eftir sjálfsævisögu Jerrys Stahls sem var mikilsvirtur handritshöfundur í Hollywood, en hann skrifaði meðal annars fyrir sjónvarpsþættina Moonlighting, Alf, Thirtysomething og Twin Peaks. Á daginn vann hann af mikilli elju við skriftirnar en nóttinni eyddi hann í að svala eiturfíkn sinni sem sífellt ágerðist og kom honum á endanum í koll.
KVIKMYNDIR /Bíóhöllin, Kringlubíó og Nýjabíó á Akureyri sýna myndina Permanent Midnight sem byggð er á sjálfsævisögu handritshöfundarins Jerrys Stahls.

Stanslaus víma

FRUMSÝNING PERMANENT Midnight er gerð eftir sjálfsævisögu Jerrys Stahls sem var mikilsvirtur handritshöfundur í Hollywood, en hann skrifaði meðal annars fyrir sjónvarpsþættina Moonlighting, Alf, Thirtysomething og Twin Peaks. Á daginn vann hann af mikilli elju við skriftirnar en nóttinni eyddi hann í að svala eiturfíkn sinni sem sífellt ágerðist og kom honum á endanum í koll. Myndin hefst á því að Jerry (Ben Stiller) hittir Kitty (Maria Bello) á meðferðarstofnun í Phoenix og segir hann henni sögu sína sem einkennist af andlegum og líkamlegum þjáningum sem hann hefur sjálfur orðið valdur að með lifnaðarháttum sínum. Hann segir henni frá barnæsku sinni, vinum og hagsmunahjónabandi hans og hinnar bresku Söndru (Elizabeth Hurley) sem sífellt fyrirgefur honum víxlsporin. Hann rekur fyrir Kitty hvernig ferill hans sem handritshöfundur þróaðist, fæðingu dóttur hans og hvernig sívaxandi eiturfíknin hafði drepandi áhrif á alla þessa þætti í lífi hans.

Handritshöfundur myndarinnar og leikstjóri er David Veloz og er þetta frumraun hans sem leikstjóra. "Jerry er ofsóttur af eigin smán, en það sem er altækt í sögu hans er að við þurfum öll að kljást við einhverja drauga úr fortíðinni. Jerry tekst ekki sem best upp í þeirri baráttu sem hann þarf að heyja og leiðin liggur beint niður á við þar til hann loks getur tekið í taumana og snúið á rétta braut," segir Veloz. "Myndin er ekki aðeins saga um eiturlyfjaneytanda, heldur er þetta saga manns sem vill eyðileggja sjálfan sig og ég túlka fíkn hans sem persónuleikaeinkenni án þess þó að ég reyni að varpa einhverjum ljóma á það."

Benn Stiller þurfti að léttast um 15 kíló til að túlka líkamlegt ástand Jerrys. Stiller segir að hægt hafi verið að takast á við hlutverk Jerrys á ýmsan hátt sem óháður hefði verið eiturfíkn hans. "Þetta snerist frekar um einmanaleikann og einangrunina sem verður þess valdandi að persónan vill ekki takast á við raunveruleikann og notar allar mögulegar flóttaleiðir sem finnast." Stiller sökkti sér allt hvað hann gat í heim Jerrys, en hann segir það mjög mikla lífsreynslu að leika raunverulega perónu. Það sem hafi þó skilað honum mestu hafi verið að þeir Jerry urðu góðir vinir. Sjálfur segir Jerry að þegar hann fylgdist með Stiller í hlutverkinu hafi það opnað augu hans fyrir því að ýmislegt sem hann gerði á sínum tíma hafi verið vægast sagt hrikalegt. "Það var vissulega ógnvekjandi og skyndilega fann ég til mikillar samúðar með öllum þeim sem þurftu að kljást við mig þegar ástand mitt var sem verst."

Ben Stiller hafði slegið í gegn í sjónvarpi og ýmsum kvikmyndahlutverkum áður en hann leikstýrði og lék í kvikmyndinni Reality Bites með þeim Winona Ryder og Ethan Hawke. Aftur settist hann í leikstjórastólinn þegar hann gerði The Cable Guy með þeim Jim Carrey og Matthew Broderick, en síðast lék hann myndunum There's Something About Mary á móti þeim Cameron Diaz og Matt Dillon, og Your Friends & Neighbors þar sem hann lék á móti Jason Patric og Nastassja Kinski.

JERRY Stahl (Ben Stiller) sat við skriftir á daginn en svalaði eiturfíkn sinni á nóttinni.

LIFNAÐARHÆTTIR Jerrys komu hart niður á fjölskyldu hans og öðrum aðstandendum.

BEN Stiller þurfti að léttast um 15 kíló til að túlka ástand Jerrys Stahls.