Þegar breytingar eru gerðar á skattkerfinu verða stjórnvöld að hækka bætur almannatrygginga töluvert umfram laun, segir Edda Rós Karlsdóttir, ef kaupmáttur lífeyrisþega á ekki að dragast aftur úr.

Hver segir satt?

Bætur Þegar breytingar eru gerðar á skattkerfinu verða stjórnvöld að hækka bætur almannatrygginga töluvert umfram laun, segir Edda Rós Karlsdóttir , ef kaupmáttur lífeyrisþega á ekki að dragast aftur úr.

KJÖR öryrkja og ellilífeyrisþega hafa verið mikið í umræðunni að undanförnu. Það er staðreynd að lífeyrisþegar leita í auknum mæli eftir aðstoð hjá Hjálparstofnun kirkjunnar. Talsmenn þeirra hafa sýnt fram á að kjör hópsins hafi dregist verulega aftur úr kjörum almenns launafólks. Talsmenn stjórnarflokkanna hafa sýnt fram á að bætur almannatrygginga hafa hækkað verulega á kjörtímabilinu og talsvert umfram það sem þær hækkuðu á kjörtímabilinu á undan. Endalaust birtast tölur, en þær eru eins ólíkar og þær eru margar. Er kaupmáttarþróun lífeyrisþega hagstæð eða óhagstæð? Í meðfylgjandi töflu er yfirlit yfir þær tölur sem liggja til grundvallar í umræðunni.Hér komi taflaUmræðan um kjör lífeyrisþega er skólabókardæmi um það hvernig hægt er að fá næstum hvað sem er út úr "góðu" reikningsdæmi. Hér fyrir neðan eru dæmi um sex "réttar" niðurstöður úr töflunni fyrir ofan.hér komi taflaSamtök lífeyrisþega hafa helst viljað ræða um hækkanir grunnlífeyris og tekjutryggingar því að flestir lífeyrisþegar eiga einungis rétt á þessum tveimur bótaflokkum. Samtökin ræða ætíð um bótaflokkana með eingreiðslum, enda fylgja eingreiðslur sjálfkrafa með ef lífeyrisþegi á annað borð á rétt á viðkomandi bótaflokkum. Eingreiðslur eru mikilvægur hluti af tekjum lífeyrisþega, en þær lækkuðu árið 1997 þegar hætt var að greiða lífeyrisþegum láglaunauppbætur. Á fundi Sjálfsbjargar í febrúar síðastliðnum notaði fjármálaráðherra einnig þessa viðmiðun. Samkvæmt henni hefur kaupmáttur bóta hækkað um 12% á tímabilinu. Á sama tíma hefur kaupmáttur meðallauna hækkað um tæp 22% skv. launavísitölu Hagstofu Íslands.

Rangar ályktanir

Enn hef ég ekki heyrt neinn fara með rangar tölur í umræðunni. Menn eru hins vegar að tala þvers og kruss og falla stundum í þá gryfju að draga rangar ályktanir. Rangar ályktanir eru t.d. dregnar þegar menn setja samasemmerki á milli hækkana bótaflokka og þeirra hækkana sem lífeyrisþegar fá í raun og veru. Tökum heimilisuppbótina sem dæmi. Hún hefur hækkað um 5.755 krónur á 4 árum, eða um 71%. Þetta er mikil hækkun. Þegar við rifjum upp ástæður þessarar miklu hækkunar kemur í ljós að árið 1997 ákvað ríkisstjórnin að hætta niðurfellingu á afnotagjaldi Ríkisútvarps og sjónvarps til lífeyrisþega á hámarksbótum og greiða í staðinn hærri heimilisuppbót. Tilgangur aðgerðarinnar var að lækka jaðaráhrif og það tókst. Sérstök hækkun bótaflokksins skilar sér hins vegar ekki í auknum kaupmætti til lífeyrisþega og var aldrei ætlað að gera það.

Heilbrigðisráðherra ræðir alltaf um hækkun hámarksbóta án eingreiðslna. Samkvæmt þessari viðmiðun hefur kaupmáttur bóta hækkað um 22% eða sem samsvarar hækkun á kaupmætti launa. Þessa viðmiðun hefur forsætisráðherra einnig notað og sömuleiðis aðstoðarmaður hans. Enginn lífeyrisþegi á hámarksbótum hefur þó fengið slíka kaupmáttarhækkun. Allir eiga þeir rétt á eingreiðslum og þær hafa lækkað. Allir áttu þeir rétt á niðurfellingu afnotagjalds Ríkisútvarpsins, en sá styrkur var færður yfir í bæturnar. Ef tekið er tillit til þessa þá hefur kaupmáttur hámarksbóta almannatrygginga hækkað um 15%.

En er kaupmáttur lífeyrisþega þá að hækka um 15%? Nei, því miður? Þeir eru nefnilega skattskyldir, eins og aðrir.

Breytingar í skattkerfinu

Á síðustu fjórum árum hefur orðið mikil breyting á tekjuskattskerfinu. Skattleysismörk hafa sigið mjög gagnvart tekjum, en skattprósentan hefur lækkað. Þessi breyting kemur mjög misjafnlega niður á fólki og lífeyrisþegar greiða nú tekjuskatt af bótum sínum. Svo var ekki fyrir fjórum árum. Kaupmáttur lífeyrisþega á hámarksbótum hefur því hækkað um 10%.

Þegar svona breytingar eru gerðar á skattkerfinu verða stjórnvöld að hækka bætur almannatrygginga töluvert umfram laun, ef kaupmáttur lífeyrisþega á ekki að dragast aftur úr. Það er m.a. þess vegna sem Alþýðusamband Íslands hefur lagt áherslu á að hækkun lífeyrisbóta taki mið af hækkunum lágmarkslauna en ekki meðallauna. Það er lítið gagn að því að hækka bætur samkvæmt meðaltali, ef skattar á bætur hækka langt umfram meðaltal.

Aðstöðumunur og áróðursstríð

Forsvarsmenn lífeyrisþega hafa bent á að kaupmáttur lífeyrisþega hefur dregist töluvert aftur úr almennri launaþróun. Lækkun eingreiðslna og skattahækkanir eiga stærsta sök á því.

Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar og starfsmenn þeirra benda stöðugt á miklar prósentuhækkanir bóta og virðast margir þeirra ekki gera sér grein fyrir samhengi hækkana og skerðinga. Í hita leiksins hafa embættismenn jafnvel sakað forystumenn öryrkja um að þjóna ekki hagsmunum umbjóðenda sinna og gefið í skyn að flokkspólitískar hvatir liggi að baki málflutningi þeirra. Er hugsanlegt að formaður LÍÚ fái slíkar kveðjur þegar hann deilir við stjórnvöld?

Ræðum saman

Allar þær prósentur sem ég hef heyrt í umræðunni um kjör öryrkja eru réttar. Forsendur útreikninganna eru hins vegar ólíkar og eiga margar þeirra ekkert skylt við raunveruleika lífeyrisþega. Alþýðusamband Íslands hvetur til málefnalegrar umræðu og vill að í öllum útreikningum sé fólk haft í fyrirrúmi. Við höfum öll að markmiði að vinna að bættum kjörum lífeyrisþega. Það væri mjög til bóta ef við settum okkur þá reglu að nota einungis útreikninga um kaupmáttarauka sem einhver núlifandi Íslendingur hefur fengið, þó ekki væri nema að meðaltali.

Höfundur er hagfræðingur ASÍ.

Edda Rós Karlsdóttir