NÚ VERÐUR tekist á um þessa tvo kosti við næstu kosningar. Helsi lénsveldisins eða frelsi lýðræðisins sem byggist á framtaki einstaklingsins, þar sem vaxtarbroddur til handa hverjum og einum er frjáls. Þannig komast mannlegir hæfileikar til skila þjóðinni allri til gagns.
Helsið eða frelsið fyrir þjóðina Frá Einari Erlingssyni: NÚ VERÐUR tekist á um þessa tvo kosti við næstu kosningar. Helsi lénsveldisins eða frelsi lýðræðisins sem byggist á framtaki einstaklingsins, þar sem vaxtarbroddur til handa hverjum og einum er frjáls. Þannig komast mannlegir hæfileikar til skila þjóðinni allri til gagns. Eins og nú er stjórnað, með miðstýringu, er verið að reisa járntjald milli þeirra sem stjórnvöld hafa ákveðið að skuli vera lénsherrar og hinna sem skulu þjóna þeim. Núverandi sægreifar eru að sjálfsögðu skýrasta dæmið. Eins sýnist manni að greifapúkinn sitji líka á fjósbita bænda. Já, hann tyllir sér víða, sá vágestur. Svo maður telji nú fleira til, eins og síldarverksmiðjur og núna síðast Áburðarverksmiðjuna og væri fróðlegt fyrir þjóðina að fá að vita hennar raunverulega verð og þá á ég við eftir að búið er að gera vörutalningu á lagernum og þá einnig hvort hann fylgdi með í kaupunum eða með öðrum orðum; fylgdu með peningarnir sem fást fyrir hann til greiðslu á stórum hluta verksmiðjunnar? Ég held að það væri gott, svona rétt fyrir kosningar, að fá þessu svarað. Við í F-flokknum höfnum alfarið að eignum þjóðarinnar sé ráðstafað á þann átt sem núverandi stjórnvöld hafa gert. Við F-listamenn viljum að öll íslenska þjóðin fái notið fullra þegnréttinda, en ekki bara einstaklingarnir, eins og þeir 24 sem raka til sín megninu af auði hafsins, og ekki má gleyma hinum gæðingunum er sópa til sín eignum þjóðarinnar á þurru landi. Já, þeir eru margir garðarnir sem stjórnvöld gefa á um þessar mundir. Frjálslyndi flokkurinn fær enga fyrirgreiðslu fjárhagslega, eins og hinir flokkarnir sem fá milljónir fyrir hvern þingmann sem situr á Alþingi. Auk þess úthlutuðu þeir sjálfum sér tugum, milljóna þar fyrir utan nú á dögunum. Svo má ekki gleyma að sjálfsagt mun eitthvað hrjóta af borðum sægreifanna til kvótaflokkanna, því víst er það í þágu þeirra að "apparatið" gangi snurðulanst fram yfir kosningar. Það er mikið í húfi. Ég var á fundi hinn 24. apríl í Borgartúni 6. Heimspekingar ræddu þar um siðferðið og kvótann, enda fundurinn kynntur undir því nafni. Þetta var málefnalegur fundur og hefðu fleiri mátt sækja hann. Á frjálsri mælendaskrá stóð upp maður af landsbyggðinni og skýrði frá því að búið væri að gera allar hans eigur verðlausar með kvótalögunum. Allur kvóti hafi verið seldur úr plássinu. Eigendur hans sem voru fimm aðilar höfðu fjóra milljarða upp úr sölunni, segi og skrifa fjögur þúsund milljónir. Ekki veit ég hvort þessir aðilar hafi fært höfundum kvótans þakkir, það er þeirra mál. Aftur á móti voru mér engar þakkir færðar sem einum þegn þjóðfélagsins og okkur er sagt að lögum samkvæmt eigum við sameiginlega auðlindir hafsins. Ég minnist þess líka að þjóðin kostaði þorskastríðið og varði ómældum fjármunum til. Við skulum staldra við: Þegar fyrstu landnámsmennirnir komu hér að óbyggðu landi helguðu þeir sér landið allt, en hinir er á eftir komu urðu að semja við þá um landsetu. Núverandi kvótaeigendur eru ekki landnámsmenn í þeim skilningi, þótt þeir hafi verið gerðir það af stjórnvöldum í trássi við lög. Mér er spurn, ætlar þjóðin að láta það yfir sig ganga að núverandi stjórnvöld komi svona fram við hana? Þegar ég les útkomuna í skoðanakönnunum trúi ég vart mínum eigin augum, og því síður eyrum, er forsætisráðherra kemur fram í fjölmiðlum og telur vandkvæði á að skattleggja kvótapeningana. Hver ósköpin eru hér að gerast? Ég segi bara, veslings unga fólkið sem á að taka við þessu landi og kaupa af lénsherrunum réttinn til landsetu. Að síðustu ætti þjóðin að hafa í huga, þegar landsfeðurnir koma á skjáinn og kynna verk sín og föðurlega forsjá, að það erum við sem borgum brúsann. Sá brúsi virðist ætla að verða dýr. EINAR ERLINGSSON,

vélstjóri, Heiðarbrún 74, Hveragerði.