FÓLK Á FÖSTUDEGI Trémyndir úr goðafræði og Biblíunni Sigurður Sigurðarson, Eyjamaður á 71. aldursári, hefur nóg fyrir stafni þó að hann hafi hætt að vinna, eins og hann kallar það, fyrir tveimur árum. Sigurður, sem í Eyjum þekkist vart undir öðru nafni en Siggi svunta, er víðlesinn og mikill hagleiksmaður.
FÓLK Á FÖSTUDEGI

Trémyndir

úr goðafræði og Biblíunni

Sigurður Sigurðarson, Eyjamaður á 71. aldursári, hefur nóg fyrir stafni þó að hann hafi hætt að vinna, eins og hann kallar það, fyrir tveimur árum. Sigurður, sem í Eyjum þekkist vart undir öðru nafni en Siggi svunta, er víðlesinn og mikill hagleiksmaður. Hann leggur nú stund á tréskurð og hugmyndir sínar að skurðinum sækir hann mest í goðafræði. Grímur Gíslason, fréttaritari Morgunblaðsins í Vestmannaeyjum, og Sigurgeir Jónasson ljósmyndari heimsóttu Sigga á heimili hans á Fjólugötunni í Eyjum til að skoða vinnu hans og fræðast um manninn. SIGURÐUR er fæddur í Vatnsdal í Vestmannaeyjum en flutti til Reykjavíkur með foreldrum sínum þegar hann var aðeins tveggja mánaða og bjó þar næstu áratugina en flutti svo til Eyja á ný ásamt fjölskyldu sinni. "Ég hafði alltaf sterkar taugar til Eyja. Þegar ég var ungur drengur kom ég alltaf á sumrin til Eyja að heimsækja afa minn. Í minningunni voru þessar ferðir afskaplega skemmtilegar og mér fannst alltaf vera sól í Eyjum. Svo heillaði kyrrðin, fuglasöngurinn og fegurðin í Eyjum mig alltaf," segir Siggi. Sigurður lærði húsasmíði og síðar skipasmíði og vann við þau fög lengst af. Hann átti og rak, ásamt Sigurði Sveinbjörnssyni og Sverri Gunnarssyni skipasmíðameistara, skipasmíðastöðina Nökkva í Garðabæ þar sem smíðaðir voru margir súðbyrðingar. Hann seldi síðar hlut sinn í fyrirtækinu en hélt áfram að smíða, bæði hús og skip. Árið 1970 ákváðu Siggi og fjölskylda að flytja til Eyja og hafa búið þar síðan. Í Eyjum hélt Siggi áfram að smíða bæði hús og báta og í eldgosinu vann hann í Eyjum nær allan gostímann við smíðar og björgunarstörf. Hann lærði síðan plastbátasmíði og starfaði við það ásamt smíðunum í nokkurn tíma. Síðustu fimm árin á vinnumarkaðnum starfaði Siggi sem afgreiðslumaður í byggingavöruverslun og miðlaði viðskiptavinum þar af reynslu sinni. Úr vinnunni í hugðarefnin Siggi segir að það hafi verið skrýtið að hætta að vinna einn daginn en sú ákvörðun hafi verið hans. Hann hefði getað haldið áfram að vinna lengur, en hann vildi hverfa af vinnumarkaðnum og njóta efri áranna. "Þegar ég hætti sneri ég mér að hugðarefnum mínum, bóklestri og útskurði, og mér hefur ekki leiðst. Ég hef ekki haft tíma til að láta mér leiðast því það er svo mikið að gera í huga mér. Þar er allt á fullu. Svo hef ég líka gefið mér tíma til að gera eitt og annað sem ég gerði ekki meðan ég var að vinna. Ég hafði til dæmis oft farið hringveginn en var auðvitað alltaf að flýta mér. Í fyrra fór ég svo í ferðalag upp á land og þá skoðaði ég ýmislegt sem ég hafði aldrei séð áður. Ég hafði ekki haft tíma til þess því vinnan beið heima og ekki mátti stoppa of lengi." Byrjaði að móta leir sjö ára Siggi segist hafa haft áhuga á ýmiskonar listum allt frá barnæsku. "Ég sýndi víst snemma tilhneigingu til lista. Þegar ég var sjö ára byrjaði ég að móta í leir. Ég fékk jarðleir frá þeim mæta listamanni Guðmundi frá Miðdal og áhuginn var svo mikill að ég gat ekki hætt að móta þó komin væri nótt. Ég hafði leirinn með mér upp í rúm og var að heila nótt og móteleraði úr sögu biblíunnar fæðingu frelsarans, helli sem í voru María, Jósef, jesúbarnið og húsdýrin. Þegar komið var til að ræsa mig um morguninn var verkið tilbúið en rúmfötin öll útötuð í leir og ónýt eftir pjakkinn," segir Siggi og hlær. "Þarna hafði ég trú sem ég reyndar tapaði um tíma en sneri svo aftur að henni," bætir hann síðan við. Siggi segist hafa verið 12 ára þegar hann byrjaði að skera út í tré. "Þetta var í stríðinu og þá skar ég út hluti sem ég gaf amerísku hermönnunum og fékk sælgæti í staðinn þannig að einhverjir hlutir frá mér hafa trúlega farið vestur um haf. Þegar ég komst á ballaldurinn minnkaði áhuginn á útskurðinum og önnur áhugamál tóku við. Síðan hófst brauðstritið með fjölskyldunni með húsbyggingum og öðru sem því fylgir þannig að enginn tími var fyrir einhvern leikaraskap eins og útskurð. Ég skar því ekkert út í áratugi en þetta blundaði þó alltaf í mér. Þegar kom að því að hætta að vinna fór ég að ígrunda hvað ég gæti farið að gera. Ellin væri að færast yfir og ég þyrfti að hafa eitthvað fyrir stafni. Les goðafræði og sker út í tré Ég hef alltaf verið mikill bókabéus og lesið mikið svo ég sá að þar gæti ég gert betur og bætt við mig fróðleik. Ég hellti mér því í lestur bæði norrænnar og grískrar goðafræði og þegar ég fór að lesa þessar frásagnir fór að myndast í huga mér löngun til að skera sögurnar út í tré. Ég lét þetta síðan verða að veruleika og hef skorið mikið út af þessum sögum. Þegar ég les sögurnar sé ég fyrir mér myndirnar og síðan rissa ég þær niður á blað. Að því loknu teikna ég á viðinn og svo tekur útskurðurinn við. Með útskurði á sögum úr goðafræðinni er ég því að vinna í forníslenskum menningararfi." Siggi segist nú vera að færa sig í Nýja- og Gamla testamentið í lestri sínum og leitar um leið fanga fyrir sköpunarþrá sína í útskurðinum. "Ég er að nema land í kristsmyndum en þar er nægur efniviður. Ég er til dæmis núna að skera út mynd þar sem Samson sterki er að rífa ljónið í sundur og hver veit nema ég eigi eftir að skera út fæðingu frelsarans sem varð mér að sköpunarefni í leirinn í æsku," segir Siggi. Siggi svunta Eins og sagði í upphafi gengur Siggi undir viðurnefninu Siggi svunta í Eyjum. Ef talað er um Sigurð Sigurðarson kannast fáir við manninn en allir þekkja Sigga svuntu. Siggi segir að oft þurfi ekki mikið til svo fólk fái viðurnefni og Eyjamenn séu drjúgir við slíkar nafngiftir. "Þegar ég flutti til Eyja og byrjaði að smíða hér árið 1970 var ég með flotta ameríska smíðasvuntu með mér sem ég gekk með alla daga í vinnunni. Á þessari svuntu voru hankar og vasar fyrir öll smíðatól sem og hólf fyrir skrúfur og nagla. Þessar svuntur þekktust þá ekki hjá smiðum í Eyjum. Þeir voru ekki komnir með þessa nýju byltingu eins og smiðir í Reykjavík og voru bara með naglana í vösunum á samfestingum og hengdu tólin ekki svona á sig. Þessi svunta vakti svo mikla athygli að farið var að kalla mig Sigga svuntu og síðan hefur það haldist við mig og ég kann bara ágætlega við þetta nafn," segir Siggi hlæjandi. Á söguslóð víkinga Í bæjarblöðunum í Eyjum hafa stundum birst greinar eftir Sigga þar sem hann viðrar skoðanir sínar um ýmis mál. "Ég hef nú ekki gert mikið af því að skrifa en hef hrækt einni og einni grein í bæjarblöðin ef mér hefur legið eitthvað á hjarta. Það eru einu skriftir mínar. Ég er meira fyrir lestur en skriftir," segir hann. Siggi segist hafa ferðast mikið bæði innan lands og erlendis og ein minnisstæðasta ferð hans erlendis var ferð sem hann fór á víkingaslóðir í Englandi. "Ég pæli mikið í sögu og þessi ferð á víkingaslóðirnar var alveg mögnuð og ég lifði mig inn í söguna með því að fara þarna um. Í Njálu er sagt frá orustu milli Íra og víkinga sem fram fór á þessum slóðum árið 1014. Í frásögninni er sagt frá því að maður einn hafi verið tekinn, rist hafi verið í kvið hans og garnaendi dreginn út og festur við tré. Síðan var viðkomandi leiddur kringum tréð og garnirnar raktar úr honum meðan hann stóð. Þaðan er orðtakið að rekja garnir úr mönnum komið og nú er búið að rekja svo garnirnar úr mér í þessu spjalli að ég er kominn á tamp. Ætli það sé því ekki nóg komið að sinni," segir Sigurður Sigurðarson, Siggi svunta, að lokum. EITT af útskurðarverkum Sigurðar er Pegasus, sem sóttur er í gríska goðafræði, innrammaður í Miðgarðsorm, úr norrænni goðafræði. SAGA þessa verks er sótt í norræna goðafræði. Segir hún frá er Loki Laufeyjarson þurfti að skemmta skessu og fá hana til að hlæja því hún var afar döpur, þar sem goðin höfðu drepið föður hennar. Loki tók það til bragðs að binda spotta um hreðjar sér og hinn enda hans í skegg á geit. Síðan toguðust Loki og geitin á með tilheyrandi ópum af sársauka sem varð til þess að skessan fór að hlæja. SIGURÐUR skar út þennan hlut og gaf konunni sinni í afmælisgjöf. Hægt er að láta hlutinn standa á tvo vegu og getur hann í annarri stöðunni gegnt hlutverki blómavasa. Sigurður segir að saga þess að hann skar út þennan grip sé sérstök. Hann hafi verið á leirnámskeiði hjá þeim góða listamanni Sigurfinni Sigurfinnssyni og hafi verið búinn að útbúa vasa sem hann ætlaði að gefa frúnni. Þegar vasinn var fullmótaður var hann settur í ofninn en þá sprakk hann. Þess vegna tók hann sig til og skar eins vasa út í tré. SAGA þessa grips er sótt í norræna goðafræði þar sem sagt er frá þegar Ásaþór hinn sterki var í veislu hjá Útgarðaloka þar sem honum var gert að tæma drykkjarhorn eitt svakalegt. Svolgraði Ásaþór í sig úr horninu en náði aldrei að klára úr því enda ekki að undra þar sem endi hornsins lá út í sjó. Ásaþór saup þó það mikið úr horninu að sagt er að fjörur hafi myndast. SIGURÐUR við útskurð í vinnuherbergi sínu.