MIKIL harka hefur færst í kosningabaráttuna í Ísrael og Aryeh Deri, einn af áhrifamestu stjórnmálamönnum landsins, hefur valdið miklu uppnámi með því að birta myndband, sem þykir líklegt til að magna spennuna milli Askenasa og Sefarda, helstu hópa gyðinga.
Harka færist í kosningabaráttuna í Ísrael

Kynt undir deilum

Askenasa og Sefarda

Jerúsalem. Reuters.

MIKIL harka hefur færst í kosningabaráttuna í Ísrael og Aryeh Deri, einn af áhrifamestu stjórnmálamönnum landsins, hefur valdið miklu uppnámi með því að birta myndband, sem þykir líklegt til að magna spennuna milli Askenasa og Sefarda, helstu hópa gyðinga. Á myndbandinu ræðst Deri harkalega á Askenasa og líkir málaferlunum gegn sér vegna meintrar mútuþægni við stríðsglæparéttarhöldin yfir nasistanum Adolf Eichmann á sjöunda áratugnum.

Á kosningamyndbandinu sakar Deri Askenasa um að hafa knúið Sefarda til eiturlyfjaneyslu og glæpa. Lögfræðingar og stjórnmálamenn úr flestum stjórnmálaflokkanna fordæmdu þessi ummæli og sökuðu Deri um að kynda undir deilum Askenasa og Sefarda.

Askenasar eru afkomendur gyðinga sem bjuggu lengi á þýskum landsvæðum en dreifðust um Evrópu og Ameríku. Sefardar eru hins vegar afkomendur gyðinga sem voru hraktir frá Pýreneaskaga í lok miðalda og dreifðust einkum um Norður-Afríku og Tyrkjaveldi.

Sefardar tilheyra yfirleitt lágstéttinni í Ísrael og hópur fátækra ungmenna úr þeirra röðum kemur fram á kosningamyndbandinu. "Hér í Ísrael er fámennur hópur manna sem heldur sig eiga landið," segir Deri á myndbandinu. "Þeir tóku hundruð þúsunda ungmenna okkar, slitu þau frá rabbínum sínum og fjölskyldum. Fram kom heil kynslóð án nokkurra tengsla við gyðingdóminn. Þetta fólk úrkynjaðist og ánetjaðist eiturlyfjum."

Deri er leiðtogi Shas-flokksins, eins af flokkum heittrúaðra gyðinga, og mikilvægur bandamaður Benjamins Netanyahus forsætisráðherra. Shas er þriðji stærsti flokkurinn á þinginu.

Á stall með Eichmann

Deri var dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrr í mánuðinum fyrir meinta mútuþægni og fjársvik en hefur áfrýjað dómnum.

Dómararnir heimiluðu að dómsuppkvaðningunni yrði útvarpað beint, en mjög sjaldgæft er að ísraelskir dómstólar veiti slíka heimild. Deri sagði að með þessari ákvörðun hefði hann verið settur á stall með stríðsglæpamanninum Adolf Eichmann og John Demjanjuk, bandarískum ríkisborgara sem var dæmdur fyrir dráp á gyðingum í útrýmingarbúðum nasista en seinna sýknaður af hæstarétti Ísraels. "Dómararnir úthelltu blóði mínu í tvo tíma í beinni útsendingu," sagði Deri. "Það hefur aðeins verið leyft í málum Demjanjuks og Eichmanns."

Hvöss orðaskipti um trúmál

Kosningabaráttan hefur einnig einkennst af deilum milli trúaðra gyðinga og þeirra sem aðhyllast ekki gyðingatrú. Eli Suissa innanríkisráðherra, sem er einnig rabbíni, veittist til að mynda harkalega að frambjóðandanum Tommy Lapid, sem var í útrýmingarbúðum nasista og hefur ekki tekið gyðingatrú.

"Mesta skömmin er sú að þeir skuli leyfa manni eins og þér, æsingamanni og niðurrifssegg, að bjóða sig fram í kosningunum," sagði Suissa í umræðum sem sýndar voru í sjónvarpi.

"Vissulega," svaraði Lapid kaldhæðnislega. "Þeir ættu að setja mig í útrýmingarbúðir, er það ekki?"

"Þú varst þar," sagði þá Suissa. "Það er augljóst að þú lærðir ekkert af því."

Suissa hélt orðaskakinu áfram og fór með særingarþulu, að því er virtist til að losa Lapid við andúðina á trúarbrögðum.

"Þú ert sem sagt að segja: "Við gerum það sama við þig og nasistarnir gerðu, þeir sem héldu þér í útrýmingarbúðunum," er það ekki?" spurði þá Lapid.

Reuters GYÐINGAR í Jerúsalem ganga framhjá kosningaspjöldum með myndum af Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, og Aryeh Deri, leiðtoga Shas-flokksins, sem hefur verið dæmdur í fangelsi fyrir mútuþægni og fjársvik. Stuðningsmenn flokksins hengdu upp myndir af Deri með áletruninni "ekki sekur" en andstæðingar hans skemmdu margar þeirra og bættu við orðinu "þjófur".