STARFSFÓLK Póstsins á Húsavík fagnaði sumri síðasta vetrardag með því að veita viðskiptamönnum kaffi og meðlæti en það var fullkomin ástæða til að fagna sumrinu eftir mjög harðan og snjóþungan vetur í von um betri og bjartari tíð á komandi sumri.
Góð þjónusta í 60 ár

Húsavík. Morgunblaðið.

STARFSFÓLK Póstsins á Húsavík fagnaði sumri síðasta vetrardag með því að veita viðskiptamönnum kaffi og meðlæti en það var fullkomin ástæða til að fagna sumrinu eftir mjög harðan og snjóþungan vetur í von um betri og bjartari tíð á komandi sumri.

Þrátt fyrir leiðinlegt tíðarfar hefur landpóstur BSH sem er í ferðum alla virka daga, aðeins orðið að fella niður eina ferð frá Akureyri til Húsavíkur og tvær til Þórshafnar vegna veðurs.

Fréttaritara Mbl. fannst sjálfsagt að heilsa upp á póstfreyjurnar og þakka þeim og símafreyjunum fyrir lipra og góða þjónustu sem hann hefir af þeim notið í 60 ár án þess að ástæða væri að kvarta.

En mikil er breytingin frá því að fréttaskeytin voru þannig send að fyrst lásu stúlkurnar á Húsavík skeytin en þær á Akureyri skrifuðu þau niður og síðan tók ritsíminn við og þurfti að prenta allt upp aftur og senda til Reykjavíkur. Nú er allt faxað beint á skrifstofu blaðsins.

Morgunblaðið/Silli PÓST- og símafreyjur Póstsins á Húsavík.