Í DAGBÓK sinni frá Damaskus, 25. apríl, kemst Jóhanna Kristjónsdóttir svo að orði: "Á næstunni er von á 20 manna hópi Íslendinga hingað, sem ætla að flandra um Sýrland, Líbanon og Jórdaníu og ég hygg að þetta sé fyrsta ferðin - ef ekki fyrsta hópferðin þá hin fjölmennasta - sem kemur á þessar slóðir." J.K.

Athugasemd

Í DAGBÓK sinni frá Damaskus, 25. apríl, kemst Jóhanna Kristjónsdóttir svo að orði:

"Á næstunni er von á 20 manna hópi Íslendinga hingað, sem ætla að flandra um Sýrland, Líbanon og Jórdaníu og ég hygg að þetta sé fyrsta ferðin - ef ekki fyrsta hópferðin þá hin fjölmennasta - sem kemur á þessar slóðir."

J.K. þarf hvorki að hyggja eitt eða annað, um það hvort ofangreind ferð sé sú fyrsta sem farin verður um þessar slóðir, því hún veit að ég fór með hóp Íslendinga í þriggja vikna för um Jórdaníu og Sýrland í október sl.

J.K. kom á fund hjá mér sl. sumar þar sem ég kynnti þessa för, sem ég skipulagði sjálf út í ystu æsar. Eins og aðrir fundargestir fékk hún heim með sér ferðaáætlunina, dag fyrir dag.

Kannski var það einmitt fyrsta ferð Kínaklúbbsins til Jórdaníu og Sýrlands sem fékk Jóhönnu Kristjónsdóttur til að standa fyrir, eins og hún hyggur, fyrstu ferð Íslendinga á þessar slóðir.

Unnur Guðjónsdóttir,

Kínaklúbbi Unnar.

Hvar er löggan nú?

EINS og flestir bílstjórar vita hafa skilti með upplýsingum um hámarkshraða ekki víða verið sjáanleg innan marka Reykjavíkur og hefur svo verið í áratugi. Bílstjórar áttu bara að vita hver hámarkshraði var á hverjum stað og fylgjast sjálfir með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á hámarkshraða á undanförnum áratugum. Svo bar hins vegar við síðla sumars 1998 að nokkrum skiltum var laumað upp og löggan lá svo í leyni næsta dag og nappaði nokkra ökumenn sem ekki höfðu haft tíma til að tileinka sér nýjar upplýsingar og uggðu ekki að sér. Vitað er að margir sómakærir bílstjórar urðu fyrir ómaklegum fjársektum. Að sjálfsögðu ber öllum að virða umferðarreglur, en þegar löggan hafði sáralítið skipt sér af ökuhraða almennings í áratugi og erfitt fyrir hinn almenna borgara að fylgjast með breyttum reglum, þrátt fyrir góðan vilja, var allt í einu farið að beita fjársektum án þess að gefa fólki hæfilegan aðlögunartíma til að kynna sér hvaða reglur giltu. Þetta eru óskynsamlegar aðferðir sem aðeins kalla á gremju í garð lögreglunnar og þeirra sem þar ráða ferð.

Í fyrradag átti ég leið um Stekkjarbakka og ók í átt að Reykjanesbraut. Ég ók á 50 km hraða sem er hámarkshraði þar. Langt fyrir aftan mig var bíll sem virtist aka á 60­70 km hraða og var fljótlega kominn fast í bakið á mér. Var bílstjórinn svo óþreyjufullur að hann færði sig yfir á vinstri akrein og á leið upp Reykjanesbraut ók hann framfyrir mig á 80 km hraða þar sem hámarkshraði er 60 km. Á Hafnarfjarðarvegi er hámarkshraði ekki alls staðar sá sami og oft erfitt að fylgjast með hvað hann er á hverjum stað. Þar sá ég skilti sem á stóð 70 km, en fyrir aftan mig ók annar óþreyjufullur bílstjóri sem notaði bílflautuna óspart og gaf mér heldur óhýrt augnaráð. Aðrar akreinar voru tepptar, en þegar þær opnuðust ók sá óþreyjufulli framúr mér á 80 km hraða og hvessti á mig augun um leið. Aðrir bílar virtust aka þarna á svona 80­90 km hraða. Hvar er löggan nú?

Löghlýðinn ökumaður.

Tökum ekki þátt í stríði

Mér datt í hug hvort ekki væri hægt að "svelta" eða veita ekki fjármagn í öll þessi stríð, hvaða nafni sem þau heita. Frá minni hugsun séð er þetta yfirmáta heimskt fólk sem getur ekki komið sér saman um frið. Sé ekki annað en það sé yfirmáta sturlað fólk sem elur ungt fólk í stríð og rægir aðra niður. Er ekki hægt að hvetja ungt fólk til að taka ekki þátt í stríði. Ég tala nú ekki um að reka fólk úr húsum og skilja foreldra, unglinga og börn að. Ræna síðan fötum af flóttafólki. Síðan er það barið og pínt og ungmennin látin í stríð. Sigurvegarar valsa um með sigurbros á vör. Það er sorg sem fylgir stríði. Það eru stríðshausar á Íslandi og yfirmenn og fylgjendur standa uppi kátir og reifir.

Erla Hauksdóttir.

Dýrahald

Vegalaus kisa í Vesturbæ

GULBRÖNDÓTTUR fressköttur hefur villst frá heimili sínu og heldur til á Grenimel, austan við Hofsvallagötu. Hann hefur verið upp á náð og miskunn kattavina í hverfinu og virðist mjög einmana. Þeir sem sakna þessa vinalega kattar geta haft samband í síma 696 7530.

Kettlinga vantar heimili

VIÐ erum tveir steingráir og loðnir 10 vikna kettlingar og okkur vantar góð heimili. Upplýsingar í síma 588 7436.