SKÁLDSKAPURINN og ástin á máli, þjóð og náttúru eru meðal meginefna Þórs Stefánssonar í ljóðabókinni Ljóð út í veður og vind. Meginhluti ljóðanna er ortur úti í Kaupmannahöfn þar sem margt minnir á þau ágætu skáld Jónas Hallgrímsson og Jón Helgason og ekki laust við að á þá sé minnst og til ljóðheima þeirra leitað: Fífilbrekka þín er fóta minna fastaland og ævi minnar saga.
Fífilbrekka fastaland BÆKUR Ljóð LJÓÐ ÚT Í VEÐUR OG VIND

eftir Þór Stefánsson. Valdimar Tómasson. 1998 ­ 87 bls. SKÁLDSKAPURINN og ástin á máli, þjóð og náttúru eru meðal meginefna Þórs Stefánssonar í ljóðabókinni Ljóð út í veður og vind. Meginhluti ljóðanna er ortur úti í Kaupmannahöfn þar sem margt minnir á þau ágætu skáld Jónas Hallgrímsson og Jón Helgason og ekki laust við að á þá sé minnst og til ljóðheima þeirra leitað: Fífilbrekka þín er fóta minna fastaland og ævi minnar saga. Í þinni lind ég næri munn og maga. Mátt ég fæ úr blómum þinna jurta. Kveðskapur Þórs er svo allur tilbrigði við háttinn dýra sem listaskáldið kynnti okkur, ítölsku sonnettuna. Höfundur dagsetur kvæðin svo að nokkur dagbókarbragur verður á þeim. Þar veltir hann vöngum yfir aðskiljanlegustu málefnum, allt frá vináttu yfir í fuglafræði eða tísku. En umfram allt þó um lífið og tilveruna, skáldskapinn og nútímann. Í bland er hæfileg sjálfshæðni og stundum græskulaus kímni líkt og í þessari götumynd frá Kaupmannahöfn 24. október 1995: Helgason á hjóli um götu brunar, heyrir ekki í nokkrum bílaglanna. Engin flauta í eyrum skáldsins dunar. Ekkert truflar hljóma málsins sanna. Hann beitir sér að rímsins rétta hljómi, raskar ekki stuðlanna þrískiptu grein. Skemmtun bragsins skynjar sérhver dóni. Skýr og máttug ómar tungan hrein. Nún er öldin önnur, hvergi friður. Óhljóð, vein og læti gatan flytur. Ekkert tóm er nú til neins því miður. Skáldið finnur seint hinn sanna tón þótt sitji í lest sem brunar einn og bitur. En hver er ég að líkja mér við Jón? Víðast er vandað til ljóðanna þrátt fyrir hálfkæring sem einnkennir þau mörg. Þetta er skáldskapur manns sem segir í einu kvæði að öll hugsun hans sé líkt og trésins rót: "En öll mín hugsun trúi ég að standi / í ljóði bundnu í stuðla og höfuðstafi". Á hinn bóginn leitar hugsunin upp í rómantískum anda. Hann líkir sér við blóm og segir: Þó er blóm mitt búið auga er lítur burt og hærra og þykir ekki beysið sitt jurtalíf en þráir rótarleysið. Ljóð Þórs eru haganlega gerð þótt orðalagið beri keim af þröngum stakki formsins. Hann hefur gott vald á málinu og ljóðforminu og yrkir í senn af alvöru og úr írónískri fjarlægð. Skafti Þ. Halldórsson Þór Stefánsson