Bann við framsali aflaheimilda, segir Árni Ragnar Árnason, mun því orsaka óhagkvæmni í útgerðarháttum.
Þjóðin og þjóðarauðlindir Sjávarútvegur Bann við framsali aflaheimilda, segir Árni Ragnar Árnason , mun því orsaka óhagkvæmni í útgerðarháttum. AFAR mikilvægt er að sátt takist í þjóðfélaginu um stjórnkerfi fiskveiða. Þann skamma tíma sem ég hef starfað í stjórnmálum hafa staðið um það sífelldar deilur. Til allrar hamingju virðist þó að mestu orðin sátt um það að stjórna þurfi veiðunum, því afkastageta fiskveiðiflotans er meiri en viðkoma fiskistofnanna. Einn stjórnmálaflokkur telur það þó ófyrirsynju, hann boðar afnám fiskveiðistjórnar og ætlar svo bara að sjá til. Aflaheimildir Ýmsir telja úthlutun aflaheimilda gjöf til fámenns hóps, og því þjóðfélagslegt ranglæti. Ég tel þetta sjónarmið ekki á rökum reist. Fiskistofnarnir innan lögsögunnar voru ofveiddir, einkum þorskstofninn sem var og er enn þeirra mikilvægastur. Sóknarstýring hafði verið reynd um árabil en gefist afar illa. Veiðarnar voru enn nánast stjórnlausar, afkoma þeirra fór síversnandi og efnahagur þjóðarinnar hnignandi. Aflamarkskerfið var niðurstaða mikillar umræðu um land allt með þátttöku sjómanna, útvegsmanna, fulltrúa byggðarlaga og annarra. Með því var veiðisókn hvers fiskiskips takmörkuð við aflaheimildir þess og þeim skipt hlutfallslega eftir veiðireynslu. Hámarkslutdeild hvers útgerðarfyrirtækis og fyrirtækjasamsteypu er takmörkuð. Aflaheimild má framselja varanlega (selja), eða tímabundið (leigja) háð sérstökum takmörkunum. Skipting aflaheimilda var ákveðin í ljósi stjórnarskrárákvæðis um vernd atvinnuréttinda. Þau byggjast á því hverjir áttu fjárfestingar og áhættu undir í atvinnurekstri við hagnýtingu auðlindarinnar. Úthlutun fór eftir því hvaða skip stunduðu fiskveiðar í lögsögunni þegar lögin voru sett. Veiðiréttur skipanna var stórlega skertur með lögunum, enn meira síðar og mest í upphafi þessa áratugar. Skerðingarnar bitnuðu harðast á útgerðarfyrirtækjum og útvegsmönnum en voru ákveðnar í því skyni að byggja upp þorskstofninn. Þorskveiðiheimildir eru nú nær tvöfaldar frá því er verst lét. Þjóðareign og framsal Framsal aflaheimilda er gagnrýnt, jafnvel staðhæft að útvegsmenn selji eignir annarra. Þjóðin hefur ekki einkaeignarrétt, til þess er hún ekki bær því hún er ekki lögpersóna heldur samfélag, þjóðfélagið. Allar þjóðareignir, hvort sem þær eru það samkvæmt lögum eða ekki eru undir stjórn ríkisvaldsins, löggjafarvalds og framkvæmdavalds, þ.e. viðkomandi ráðherra í ríkisstjórn. Fleiri auðlindir en fiskimiðin eru þjóðareign, t.d. landið sjálft, og þær eru hagnýttar í starfsemi einstaklinga og fyrirtækja. Nýtingu sumra þjóðarauðlinda hefur verið stjórnað með sambærilegum aðferðum án þess að valda deilum. Nefna má ítölu sem er kvótasetning beitarréttar á afréttum og almenningum, bundin bújörðum og má framselja. Afrakstur af hagnýtingu fiskveiðiauðlindarinnar gengur í þjóðarbúið. Lang stærstur hluti fer um hendur þeirra einstaklinga og fyrirtækja sem selja sjávarútvegsfyrirtækjum vinnu sína, þjónustu, efni, vörur og hvers kyns aðföng. Afrakstur fyrirtækjanna, þ. e. hagnaður þeirra er skattlagður, þar á meðal söluhagnaður af framsali aflaheimilda. Löggjafarvaldið hefur óskoraðan rétt til að breyta lögum um stjórn fiskveiða, þ. á m. ákvæðum um handhöfn aflaheimilda, svo sem að takmarka eða banna framsal. Svo væri ekki ef aflaheimildir væru seldar, t.d. á uppboði því réttur kaupanda af ríkissjóði væri þá annar en réttur handhafa úthlutaðra heimilda er nú. Gagnvart rétti kaupanda til að ráðstafa því sem hann kaupir er fráleitt að standist sú hugmynd Fylkingarinnar að selja aflaheimildir á uppboði en banna jafnframt framsal. Í allri starfsemi koma upp ófyrirséðar aðstæður. Það þekkja Íslendingar vegna reynslu sinnar af sjávarútvegi því sjaldfundnar eru meiri sveiflur. Útgerðarfyrirtæki geta ekki við allar aðstæður nýtt sér sjálf aflaheimildir skipa sinna á besta veg. Því valda bilanir, sveiflur í fiskigengd og aflabrögðum, veðri og gæftum eða á afurðamörkuðum. Bann við framsali aflaheimilda mun því orsaka óhagkvæmni í útgerðarháttum. Fyrirtækin auka fjárfestingu í fiskiskipum til að geta ávallt veitt sjálf allar aflaheimildir sínar. Kostnaður hækkar eins og við sóknarstýringu sem við þekkjum frá fyrri árum. Afleiðingin verður óhagkvæmni sjávarútvegsins, hnignandi efnahagur og versnandi lífskjör þjóðarinnar. Smá útgerðarfyrirtæki fara verst út úr framsalsbanni, þau lenda í miklum erfiðleikum og hverfa fljótt úr rekstri, fyrst þau sem starfa í smáum byggðarlögum. Hugmyndir um að banna framsal eru því ekki byggðar á haldbærum rökum. Betri rök standa á hinn bóginn til þess að færa framsalsheimildir til fyrra horfs með því að afnema verstu höftin sem sett hafa verið, þ. e. lögin um kvótaþing og framsalstakmarkanirnar sem þeim fylgdu. Höfundur er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins fyrir Reykjaneskjördæmi. Árni Ragnar Árnason