AÐALFUNDUR SR-mjöls var haldinn í gær. Benedikt Sveinsson stjórnarformaður félagsins sagði í ræðu sinni á fundinum að þótt rekstur félagsins hefði gengið mjög vel á síðasta ári væru ýmsir erfiðleikar sem steðjuðu að rekstrinum um þessar mundir vegna verðhruns á mörkuðum fyrir mjöl og lýsi.
Rekstur SR-mjöls gékk mjög vel á síðasta ári Blikur á lofti vegna

verðhruns á mörkuðum

Gagnrýnt á fundinum að útboð skuli ekki viðhöfð

AÐALFUNDUR SR-mjöls var haldinn í gær. Benedikt Sveinsson stjórnarformaður félagsins sagði í ræðu sinni á fundinum að þótt rekstur félagsins hefði gengið mjög vel á síðasta ári væru ýmsir erfiðleikar sem steðjuðu að rekstrinum um þessar mundir vegna verðhruns á mörkuðum fyrir mjöl og lýsi.

"Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að nægur fiskur virðist vera í sjónum, síldin er vonandi komin til að vera og útlit bjart fyrir auknar kolmunnaveiðar," sagði hann.

Benedikt gat þess einnig að þeir sem keyptu fyrirtækið á sínum tíma af ríkinu hefðu vissulega verið heppnir því á þeim fimm árum sem liðin eru síðan kaupin fóru fram hafi ríkt mikið góðæri í rekstrinum. "Hins vegar er það staðreynd að ef góðærið hefði ekki komið til væri fyrirtækið í verulegri úlfakreppu með úreltan og gamlan búnað. Fáir hefðu þá viljað eiga aðild að félaginu."

Ekki vildi Benedikt spá fyrir um hve kreppan sem nú ríkir á mörkuðum héldist lengi en gat þess að sveiflur í rekstrinum væru auðvitað ekki nýjar af nálinni og ekki mætti gera of mikið úr vandanum nú.

"SR mjöl er betur í stakk búið í dag að fást við sveiflur af þessu tagi en oftast áður og því tel ég að horfa megi með bjartsýni fram á veginn þrátt fyrir tímabundna erfiðleika," sagði Benedikt að lokum.

Á aðalfundinum kom fram nokkur gagnrýni á stjórn félagsins, meðal annars fyrir að bjóða ekki út flutninga og tryggingar fyrir félagið og fyrir að greiða ekki hluthöfum út meiri arð en gert hefur verið. Einn fundarmanna, Haraldur Haraldsson í Andra, lýsti þeirri skoðun sinni að óeðlilegt væri miðað við umfang starfsemi SR-mjöls að flutningar fyrir félagið væru ekki boðnir út. Hann benti á að nýlega hefðu tvö skipafélag hérlendis keypt tankskip í kjölfar samninga við SR-mjöl um flutninga.

"Það væri kannski ekkert út af fyrir sig athugavert við þetta ef stjórnarformaður SR-mjöls væri ekki stærsti eigandinn í báðum þessum flutningafélögum sem þetta skip eiga og einnig í þeim flutningafélögum sem fyrirtækið notar til allra sinna flutninga. Ég er samt ekki að brigsla því að það séu einhver óheiðarleg viðskipti en það er óeðlilegt annað en að öll svona viðskipti séu boðin út," sagði Haraldur og bætti við að þetta ætti einnig við um tryggingar félagsins.

Annar fundarmaður, Gunnar Gíslason, vildi að sú fjármunamyndun sem orðið hefur í rekstri félagsins undanfarin ár yrði í auknum mæli látin renna til félagsmanna, annaðhvort í formi arðs eða með því móti að fyrirtækið keypti aukinn hlut í sjálfu sér. Lagði Gunnar fram tillögu þess efnis að stjórninni yrði veitt heimild til að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu og hlaut hún samþykki aðalfundarins. Hann spurði einnig út í hvað vakað hefði fyrir stjórninni með kaupum á fyrirtækjunum Kítin og Útsjávarfangi og hvaða fjárfestingar væru fyrirhugaðar á þessu ári.

Áratuga viðskipti við Eimskip og Sjóvá-Almennar

í svörum Benedikts Sveinssonar, stjórnarformanns SR-mjöls, kom fram að skýringin á því af hverju SR-mjöl ætti einkum viðskipti við Eimskip og Sjóvá-Almennar væri sú að þau hefðu verið stunduð um áratuga skeið og gefist vel, auk þess sem önnur tryggingafélög væru tengd samkeppnisaðilum. Við spurningunni um af hverju hluthafar fengju ekki aukna hlutdeild í hagnaði fyrirtækisins svaraði Benedikt því til að sveiflur í rekstrinum væru þess valdandi að óvarlegt væri að greiða of mikinn hluta hagnaðar út.

Hann upplýsti að á þessu ári hefði fyrirtækið ráðgert að kaupa veiðiskip og yrði það væntanlega stærsta fjárfestingin á árinu en ástæðu þess að fyrirtækin Kítin og Útsjávarfang hefðu verið keypt sagði hann einkum hafa verið það mat stjórnar að þessi fyrirtæki væru arðvænlegar fjárfestingar.