HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur sýknaði Eimskipafélag Íslands hf. og Atalanta Schiffartgesellschaft mbH & Co, eigenda Víkartinds, af 2,3 milljóna króna skaðabótakröfu Style R. Magnússon, eins eiganda varnings um borð í Víkartindi. Skipið strandaði hinn 5. mars 1997 við Háfsfjöru rétt austan ósa Þjórsár og gjöreyðilagðist farmur skipsins að miklum hluta.
Eimskip og eigendur Víkartinds sýknuð af bótakröfu Vanræksla skipstjóra

talin orsök strandsins

HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur sýknaði Eimskipafélag Íslands hf. og Atalanta Schiffartgesellschaft mbH & Co, eigenda Víkartinds, af 2,3 milljóna króna skaðabótakröfu Style R. Magnússon, eins eiganda varnings um borð í Víkartindi. Skipið strandaði hinn 5. mars 1997 við Háfsfjöru rétt austan ósa Þjórsár og gjöreyðilagðist farmur skipsins að miklum hluta.

Samhliða málinu hafa 19 önnur mál af sömu rót runnin verið höfðuð vegna vörutjóns og nema kröfur eigenda varanna rúmlega 200 milljónum króna. Hefur eitt þeirra verið fellt niður en frekari meðferð hinna beið endanlegrar niðurstöðu þessa máls.

Stefnandi byggði bótakröfu sína m.a. á því að tjónið yrði rakið til óhaffærni skipsins. Væri ljóst að margvíslegar bilanir í skipinu, svo og getuleysi yfirmanna til að fást við þær aðstæður sem komu upp, hefðu beinlínis leitt til þess tjóns sem krafist væri bóta fyrir.

Í dómi héraðsdóms kom fram að skipstjóri Víkartinds varð ber að margháttuðum yfirsjónum og sýndi grófa vanrækslu við stjórntök og meðferð Víkartinds er skipið strandaði, þannig að engan veginn samræmdist góðum venjum og kunnáttu í siglingum og sjómennsku, enda hafi skipið verið haffært við upphaf ferðar. Með vísun til a-liðar 2. mgr. 68. gr. siglingalaga nr. 34/1985 þar sem segir að farmflytjandi beri ekki ábyrgð á tjóni sem stafar af þeim sökum, voru stefndu sýknaðir af bótakröfu stefnanda.

Að sögn Þórðar Sverrissonar framkvæmdastjóra flutningasviðs Eimskips var niðurstaða héraðsdóms í samræmi við það sem Eimskipsmenn töldu eðlilegan gang málsins.

"Í stóru máli sem þessu þar sem margir aðilar hafa orðið fyrir tjóni er mjög mikilvægt að fyrir liggi hrein dómsniðurstaða um það hver ábyrgð hvers og eins er, svo menn efist ekki um ábyrgð sína."

Dómnum verður áfrýjað

Af hálfu stefnanda hefur verið tekin sú ákvörðun að áfrýja dómi héraðsdóms og sagði Ragnar M. Magnússon, sem höfðaði skaðabótamálið á hendur Eimskipi, að ef héraðsdómur hefði samþykkt skaðabótakröfuna hefði helmingur bótafjárins runnið í sjóð ekkjunnar sem missti mann sinn á strandstað Víkartinds þegar björgunaraðgerðir voru reyndar. "Það er einmitt vegna þessa áheits að ég mun leggja til við minn lögfræðing að þetta mál fari fyrir Hæstarétt Íslands með von um að rétturinn skoði og taki tillit til þeirra mörgu atriða málsins sem undirrétti sást yfir," sagði Ragnar.