Lög og útsetningar eftir m.a. Inga T. Lárusson, Atla Heimi Sveinsson, Mozart og Jóhann Strauss yngri. Einsöngur: Sigrún Hjálmtýsdóttir S, Birgir Hólm T, Ólafur J. Bjarnason T og Stefán Jónsson, B-bar. Píanóleikur: Sigurður Marteinsson. Karlakórinn Stefnir u. stj. Lárusar Sveinssonar. Þriðjudaginn 27. apríl kl. 20.30.
Fyrir troðfullum Sal TÓNLIST Salurinn KÓRTÓNLEIKAR Lög og útsetningar eftir m.a. Inga T. Lárusson, Atla Heimi Sveinsson, Mozart og Jóhann Strauss yngri. Einsöngur: Sigrún Hjálmtýsdóttir S, Birgir Hólm T, Ólafur J. Bjarnason T og Stefán Jónsson, B-bar. Píanóleikur: Sigurður Marteinsson. Karlakórinn Stefnir u. stj. Lárusar Sveinssonar. Þriðjudaginn 27. apríl kl. 20.30. GRÍPA þurfti til aukasæta svo áheyrandamergðin kæmist fyrir á vortónleikum karlakórsins Stefnis úr Mosfellssveit í Salnum á þriðjudagskvöldið var. Vinsældir karlakóra láta greinlega ekki að sér hæða frekar en fyrri daginn ­ en e.t.v. hefur þjóðkunn innansveitarstjarna þeirra Mosfellinga, Sigrún Hjálmtýsdóttir, einnig haft sitt að segja um hina myndarlegu aðsókn. Verkefnavalið var að þessu sinni bæði virðulegra og fjölbreyttara en á vortónleikum kórsins í fyrra og hitteðfyrra. Ofsungnustu karlakórslögin voru blessunarlega fá, og dægurlög aðeins tvö, bæði af betra taginu (Yesterday Lennons/McCartneys og Sailing e. Sutherland) og hvort tveggja í ágætum útsetningum, þótt því miður væri hvergi útsetjara getið í tónleikaskrá. Vínarklassík og vínaróperettur fengu sinn skammt með tveim atriðum úr Töfraflautu Mozarts ­ prestasöngnum O Schutzgeist alles Schönen og Sarastro-aríunni Þér Ísis og Ósíris og Syrpu úr Leðurblöku Jóhanns Strauss yngri og Liebe alte schöne Donaustadt e. Ziehrer. Auk þess sýndi Atli Heimir Sveinsson enn eina af bráðum óteljandi hliðum sínum með þremur nýjum a cappella karlakórsútsetningum á eigin sönglögum við ljóð Jónasar Hallsgrímssonar, Íslands minni, Ásta og Fjallið Skjaldbreiður. Ókynntur kórfélagi stjórnaði í tveim fyrstu atriðunum, Söngurinn (F. Zeller) og hinu fyrsta af alls sex lögum Inga T. Lárussonar, Það vorar, það vorar, þar sem Stefnismenn kváðu hressilega við raust í hefðbundnum rammíslenzkum karlakórsanda. Lárus Sveinsson tók síðan við stjórn með Litla skáld (eins. Ólafur J. Bjarnason), Vor, Heyr mig, lát mig finna (flutt af glæsilegum krafti) og Í svanalíki eftir Inga, en í síðastnefndu lagi söng Birgir Hólm Ólafsson einsöng. Báðir einsöngstenórarnir sungu af þokka, þótt mest væri birta yfir Birgi, er státað getur af óvenju góðu hljóðfæri eins og sagt er, þrátt fyrir smá óstyrk í upphafi. Útgáfa Gunnars Thoroddsens á Litfríð og ljóshærð Jóns Thoroddsens heyrist ekki oft, en hljómaði fagurlega í undirrauli kórs við svífandi einsöng Sigrúnar Hjálmtýsdóttur, og hár og þéttur sópran hennar féll sömuleiðis fallega að hæglátum bakgrunnssöng kórsins í Ó, blessuð sértu sumarsól Inga T. Lárussonar. Eftir hlé var frískandi að heyra Hallarfrúna, hið prýðisgóða en sjaldviðraða lag Jóns Björnssonar; enn við glampandi einsöng Sigrúnar. Atli Heimir Sveinsson hefur hingað til ekki verið áberandi á hérlendum dagskrám fyrir karlakór án undirleiks, en eflaust munu ofangetin lög hans þrjú, sem Stefnir frumflutti hér í þeirri mynd, sjást á komandi verkefnalistum karlakóranna, enda látlaus og aðgengileg, en þó ekki án stakra hljómasambanda, sem í samanburði við hefðbundnasta viðfangsefni miðilsins verkuðu hressandi og jafnvel nýstárleg í einbeittum flutningi kórsins. Prestasöngurinn O Schutzgeist úr Töfraflautunni hljómaði mjúklega, þótt yrði jafnframt til að vekja athygli á einum helzta veikleika kórsins, ákveðnum óstöðugleika á hæsta sviði í veikum söng. Það, ásamt almennri tilhneigingu til að glissa milli tóna, benti til að huga mætti senn að einhverri endurnýjun, a.m.k. í efri röddum. Stefán Jónsson, einn fremsti bassabarýton kórsins, söng kunna aríu Sarastros, O Isis und Osiris, á íslenzku með hljómmikilli rödd, þótt dýnamíkin væri svolítið óróleg og andað væri stundum á óheppilegum stöðum. Dægurlögin Yesterday og Sailing voru vel mótuð af kórnum, og píanóundirleikur Sigurðar Marteinssonar hér sem endranær skýrt og lipurlega útfærður. Ekki var hann síðri í völsum, polkum og galoppum Leðurblökusyrpunnar næst á eftir, sem skartaði Diddú í einsöngshlutverki, glóðvolgri úr aðalhlutverki sínu í uppfærslu Íslenzku óperunnar, við mikla hrifningu tónleikagesta. Prentaðri dagskrá lauk með Liebe alte schöne Donaustadt, enn með Sigrúnu í glæstum fókus og við dynjandi undirtektir. Ríkarður Ö. Pálsson