EFSTU menn á listum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á Austurlandi telja niðurstöðu skoðanakönnunar Gallups, sem mælir m.a. 17,6 prósentustiga fylgistap Framsóknarflokksins í kjördæminu frá síðustu alþingiskosningum, mikil tíðindi.
Efstu menn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á Austurlandi um skoðanakönnun Gallups

Niðurstaðan er

mikil tíðindi

EFSTU menn á listum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á Austurlandi telja niðurstöðu skoðanakönnunar Gallups, sem mælir m.a. 17,6 prósentustiga fylgistap Framsóknarflokksins í kjördæminu frá síðustu alþingiskosningum, mikil tíðindi.

Arnbjörg Sveinsdóttir, efsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins, segir að Framsóknarflokkurinn hafi reyndar aldrei fengið betri kosningu í kjördæminu en í síðustu alþingiskosningum og eðlilegt megi því teljast að eitthvað af því fylgi gangi til baka. Flokkurinn hafi þó aldrei farið svona langt niður. Hún segir að þrátt fyrir þetta sé ómögulegt að segja til um hverjar niðurstöðurnar verða í kosningunum.

"Með þá sögulegu staðreynd í huga að yfirleitt höfum við komið betur út úr skoðanakönnunum heldur en kosningum, en Framsókn á hinn bóginn yfirleitt komið betur út úr kosningum en skoðanakönnunum, er óvarlegt að byggja of mikið á þessum niðurstöðum. Við erum því ekki með óraunhæfar vonir," sagði Arnbjörg.

Hún segir niðurstöðuna engu að síður mikil tíðindi. "Við höfum fundið það að þeir hafa ekki verið í alltof góðum málum. Við höfum hins vegar unnið vel á þessu kjörtímabili og verið dugleg og það skilar sér alltaf með einhverjum hætti," sagði Arnbjörg.

Engin einhlít skýring

Hún segir að menn hafi engar einhlítar skýringar á fylgistapi framsóknarmanna. "Þeir hafa auðvitað legið undir ámæli fyrir það að lítið hafi þokast í stóriðjumálum. Þeir hafa haft skýra afstöðu í þeim málum en það hefur þokast óskaplega hægt áfram. Þeir hafa líka gefið í skyn að til greina komi að skoða aðild að Evrópusambandinu en það gengur ekki vel í fólk hér. Einnig má benda á það að Halldór Ásgrímsson hefur ekki getað sinnt kjördæminu vel. Hann er í þeirri erfiðu stöðu að vera mikið í burtu," sagði Arnbjörg.

Hún segir að hugsanlega megi einnig rekja slæma útkomu framsóknarmanna til þess að þeir hafi ekki treyst sér til að taka skýra afstöðu til jarðgangamála. "Það virðist vera ósamstaða innan þeirra raða um það mál. Afstaða okkar er alveg skýr og við höfum flutt tillögu þar um. Aðalumræðuefnið hér í þessari kosningabaráttu er jarðgangamálið og þessi skýra afstaða okkar felst í því að það eigi að vera fyrsti kostur að gera jarðgöng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar," segir Arnbjörg.

Spennandi endasprettur

Einar Már Sigurðarson, efsti maður á lista Samfylkingarinnar, fagnar niðurstöðum skoðanakönnunarinnar. "Þetta leggst ágætlega í mig og sýnir að þessir þrír stóru flokkar í kjördæminu eru nokkurn veginn svipaðir að stærð. Endaspretturinn verður greinilega spennandi og við hljótum ótrauðir að stefna að því að Samfylkingin verði stærsti flokkurinn í kjördæminu," sagði Einar Már.

Samfylkingin mældist með 24,8% fylgi en í síðustu kosningum voru Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag, Samtök um kvennalista og Þjóðvaki með samtals 30,6% fylgi. Vinstrihreyfingin - grænt framboð mældist með 12% fylgi nú.

"Það er ljóst að vinstri-grænir eru að höggva í okkar fylgi en ef fylgi þeirra er lagt við okkar erum við langtum stærri en aðrir flokkar. Það sem er sorglegt í þessu er að félagshyggjufólk gæti haft að baki stærsta flokkinn hérna. Að því stefnum við vegna þess að það er augljóst að það er grunnur fyrir því hér," sagði Einar Már.

Hann segir að fylgishrun Framsóknarflokksins sé mikil tíðindi. "Mér skilst að þetta sé minnsta fylgi Framsóknarflokksins frá því þessi kjördæmaskipan komst á. Þeir hafa áður fengið aðvörun. Það var árið 1978. Mér sýnist jarðvegurinn nú ekki vera ólíkur því sem þá var. Ég geri ráð fyrir því að Austfirðingar séu fyrst og fremst að horfa til byggðarþróunarinnar, aðgerðarleysis stjórnvalda í þeim efnum, m.a. í stóriðjumálum og almennt í byggðarmálum. Það hefur ekkert verið gert og menn hafa verið að vakna upp með einstakar aðgerðir rétt áður en kjörtímabilinu lýkur og það er ekki trúverðugt. Ég lít svo á að fólk sé að horfa til þess að það vilji fá breytingar," sagði Einar Már.