AÐALFUNDURr Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands var haldinn 19. apríl s.l. Lögð var fram skýrsla um starfsemi deildarinnar síðastliðið starfsár. Starfsemin hefur farið vaxandi á undanförnum árum og hafa ný verkefni bæst við á hverju ári. Stærsta verkefni starfsársins var opnun Sjálfboðamiðstöðvar á Hverfisgötu 105, en tilgangur hennar er að efla og auka sjálfboðið starf innan deildarinnar.
Aðalfundur Reykjavíkurdeildar Rauða krossins

Starfsemin fer ört vaxandi

AÐALFUNDURr Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands var haldinn 19. apríl s.l. Lögð var fram skýrsla um starfsemi deildarinnar síðastliðið starfsár. Starfsemin hefur farið vaxandi á undanförnum árum og hafa ný verkefni bæst við á hverju ári.

Stærsta verkefni starfsársins var opnun Sjálfboðamiðstöðvar á Hverfisgötu 105, en tilgangur hennar er að efla og auka sjálfboðið starf innan deildarinnar. Þar eru til húsa starfsemi Ungmennahreyfingarinnar URKÍ-R, skrifstofa Vinalínunnar og sjálfboðamiðlun deildarinnar. Nú eru starfandi um 500 sjálfboðaliðar á vegum deildarinnar, flestir í Kvennadeild, Ungmennadeild og Vinalínu.

Kvennadeild Reykjavíkurdeildar rekur bókasöfn og hljóðbókaþjónustu fyrir sjúklinga á sjúkrahúsum borgarinnar, svo og á sjúkrahóteli Rauða kross Íslands. Sölubúðir eru starfræktar á 5 stöðum og er ágóðanum varið til kaupa á lækninga- og rannsóknatækjum. Deildin skipuleggur einnig heimsóknarþjónustu til aldraðra og sjúkra í heimahúsum og á stofnunum. Þá starfar föndurdeild innan kvennadeildarinnar þar sem útbúnir eru ýmsir munir sem síðan eru seldir á árlegum basar deildarinnar.

Á vegum Ungmennadeildar Reykjavíkurdeildarinnar er unnið fjölbreytt sjálfboðastarf. Börn sem dvelja í Kvennaathvarfinu eru heimsótt og sjálfboðaliðar starfa í Vin, athvarfi RKÍ fyrir geðfatlaða.

Skyndihjálparhópur hefur tekið þátt í sjúkragæslu á tónleikum og framhaldsskólaböllum. Unglingastarfið er öflugt, en markmið þess er að fræða ungt fólk á aldrinum 13-16 ára um Rauða krossinn og gefa þeim tækifæri á að starfa innan stærstu mannúðarsamtaka heims. Deildin stendur fyrir námskeiðum fyrir 9-11 ára börn á sumrin undir yfirskriftinni mannúð og menning. Í undirbúningi er átak gegn ofbeldi, sem er samnorrænt Rauðakross verkefni.

Vinalínan er símaþjónusta sem ætluð er þeim sem eru einmana, eiga í vanda og þarfnast einhvers til að tala við. Sjálfboðaliðar Vinalínunnar svara í síma kl. 20-23 öll kvöld vikunnar.

Auk sjálfboðastarfsins sér Reykjavíkurdeildin um rekstur sjúkrabifreiða í Reykjavík, tekur þátt í rekstri og stjórnun öldrunarstofnananna Múlabæjar, Hlíðabæjar, Foldabæjar og Skógarbæjar og rekur forvarnarverkefnið Fjölskyldumiðstöð - vímulaus grunnskóli á Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg í samvinnu við Félagsþjónustuna í Reykjavík og ráðuneyti Heilbrigðis- og félagsmála.

Námskeiðahald er stór þáttur í starfsemi deildarinnar. Haldin eru námskeið í almennri skyndihjálp, sálrænni skyndihjálp, viðbrögðum við barnaslysum og námskeið fyrir verðandi barnfóstrur.

Þór Halldórsson var endurkjörinn formaður deildarinnar. Sigurveig H. Sigurðardóttir er framkvæmdastjóri Reykjavíkurdeildar.