Djúpavogi-Ólafur Ragnarsson sveitarstjóri hefur í samvinnu við stærstu fyrirtækin í Djúpavogshreppi, Búlandstind hf. og Gautavík, ásamt Hótel Framtíð, boðað til blaðamannafundar hér á Djúpavogi í dag föstudag.
Íbúar Djúpavogs kynna blómlegan atvinnurekstur og mannlíf

Margir þættir hafa breyst til hins betra

Djúpavogi - Ólafur Ragnarsson sveitarstjóri hefur í samvinnu við stærstu fyrirtækin í Djúpavogshreppi, Búlandstind hf. og Gautavík, ásamt Hótel Framtíð, boðað til blaðamannafundar hér á Djúpavogi í dag föstudag. Meginástæðu fundarins segir Ólafur vera að gefa skýrari mynd af mannlífinu auk þess sem nýjar áherslur og breytingar við rekstur Búlandstinds og Fiskimjölsverskmiðjunnar verði kynntar.

"Ég tel að öll skilyrði séu hér til að mannlíf geti dafnað. Við höfum þjónustustig í góðu meðallagi. Má þar nefna vel búinn og góðan skóla, leikskóla, íþróttahús, tónskóla og dvalarheimili, svo eitthvað sé nefnt," segir Ólafur.

Ólafur segir atvinnuástand gott eftir þær breytingar sem urðu á rekstri stærstu atvinnufyrirtækjanna á staðnum sl. vetur. Við þær breytingar hafi skapast reglubundnari vinnutími, sem gerir það að verkum að sveitarfélagið hafi getað lagað opnunartíma leikskóla og skóla að þeim breytingum. Geri þær því samfélagið í leiðinni fjölskylduvænna.

Ýmislegt hefur verið talið mæla gegn búsetu á landsbyggðinni svo sem hár húshitunarkostnaður, kostnaður við menntun ungmenna á framhaldsskólastigi og hátt vöruverð. Segir Ólafur þessa þætti vera að breytast til hins betra, þrátt fyrir að húshitunarkostnaður sé að vísu enn of hár. "Það urðu breytingar eftir að Alþingi samþykkti niðurgreiðslur til húshitunar á hinum svokölluðu köldu svæðum. Sem dæmi má nefna að eftir þær breytingar kostar um 5.500 kr á mánuði að kynda 140 fm hús hér. Þarna erum við að tala um einbýlishús þar sem einstaklingurinn ræður ríkjum," segir Ólafur.

Hagstæð gjöld

"Einnig má minnast á hve hagstæð gjöld kringum ýmsa aðra þætti geta verið, má þar nefna að fyrir 4 tíma vistun í leikskóla eru greiddar 6.400 kr. á mánuði. Tónskólagjald er 1.600 kr. á mánuði. Tími í íþróttahúsi fyrir ungling þrisvar í viku kostar 1.000 krónur á mánuði. "Það hefur verið gert verulegt átak fyrir foreldra sem senda börn sín langt frá heimilum til náms. Ég tel að um 40% hækkun hafi orðið frá árinu 1996. Jafnframt er stefnt að því skv. byggðatillögunni að stuðningur fyrir þessa nemendur nemi allt að 90% af útreiknuðum framfærslukostnaði. Allt er þetta jákvætt og ætti að gera það að verkum að landsbyggðin eigi eftir að eflast og dafna."

Fiskmarkaður rekur höfnina

Þær breytingar sem eru að verða á rekstri fiskmarkaðar og hafnarinnar eru þær fyrstu sinnar tegundar á landinu. Fiskmarkaður Djúpavogs er að taka við rekstri hafnarinnar og mun sjá þar um alla daglega þjónustu aðra en vigtun. En samkvæmt lögum er starfsmönnum hafnarinnar einungis leyfilegt að annast þann þátt.

Eru þessar breytingar gerðar með það í huga að bæta rekstrarumhverfi fiskmarkaðar og jafnframt fær höfnin þjónustu fyrir minni kostnað en hún hefur þurft að greiða hingað til.

Fyrirtækin á staðnum þ.e. Búlandstindur og Fiskimjölsverksmiðjan Gautavík, hafa ákveðið að standa straum af kostnaði við námsefni í tölvukennslu við grunnskólann. Er þar um að ræða stuðning til næstu þriggja ára.

Hafist verður handa við gerð nýrrar hafnar í Gleðivík til móts við fiskimjölsverksmiðju Gautavíkur. Um er að ræða framkvæmdir sem kosta 130 milljónir króna. Þessar framkvæmdir voru orðnar afar brýnar vegna erfiðra hafnarskilyrða á Djúpavogi og hefur mikilvægi þeirra aukist. Þessar framkvæmdir styrkja atvinnulífið og styrkja byggð á staðnum.

Ólafur telur að það að fjallað sé um málefni landsbyggðarinnar á jákvæðan hátt verði til að sýna þeim sem búa í þessum smærri byggðum kosti þess sem það hefur í för með sér.

"Vegna barlómsins, sem kemur ekki síst frá okkur, gleymast oft kostir hinna smærri samfélaga," segir Ólafur Ragnarsson, sveitarstjóri í Djúpavogshreppi.Morgunblaðið/Hafdís ÓLAFUR Ragnarsson sveitarstjóri.