Innflutningshöft og skortur á efni til raflagna, segir Ásbjörn R. Jóhannesson, var einn helsti hvatinn að stofnun sambandsins.
Landssamband íslenskra rafverktaka 50 ára Tímamót Innflutningshöft og skortur á efni til raflagna, segir Ásbjörn R. Jóhannesson , var einn helsti hvatinn að stofnun sambandsins.

FYRIR rúmum fimmtíu árum, eða nánar tiltekið 31. mars árið 1949, komu nokkrir rafvirkjameistarar saman í húsi Verslunarmannafélags Reykjavíkur við Vonarstræti í þeim tilgangi að stofna Landssamband rafvirkjameistara. Eftir að lög höfðu verið samþykkt var ákveðið að nafnið skyldi skammstafað L.Í.R. og hefur svo verið síðan þrátt fyrir að árið 1967 væri nafninu breytt í Landssamband íslenskra rafverktaka. Næsta dag var fundi fram haldið og þar var fyrsta stjórnin kjörin og var hún þannig skipuð: Jón Sveinsson formaður, Gissur Pálsson gjaldkeri og Vilberg Guðmundsson ritari, allir úr Reykjavík, Eyjólfur Þórarinsson frá Akureyri varaformaður og Jóhann K. Jóhannesson frá Siglufirði meðstjórnandi. Endurskoðendur voru kjörnir þeir Hjálmar Halldórsson, Hólmavík, og Örnólfur Örnólfsson, Reykjavík. Félögin Í upphafi má segja að LÍR hafi verið einskonar félag rafverktaka utan Reykjavíkur en Félag löggiltra rafvirkjameistara í Reykjavík hafði verið starfandi frá árinu 1927, en árið 1955 gekk Félag rafvirkjameistara á Akureyri í sambandið og var þá ákveðið að opna skrifstofu í Reykjavík. Um 1970 hófst undirbúningur að stofnun rafverktakafélaga í öllum landshlutum og fljótlega gerðust þau öll aðilar að LÍR. Að Landssambandi íslenskra rafverktaka standa eftirtalin félög: Félag löggiltra rafverktaka, Félag rafverktaka á Vesturlandi, Félag löggiltra rafverktaka á Vestfjörðum, Félag löggiltra rafverktaka á Norðurlandi, Félag rafverktaka á Austurlandi, Félag rafverktaka á Suðurlandi, Rafverktakafélag Suðurnesja og Meistarafélag rafeindavirkja. Húsnæðismál Árið 1963 eignuðust samtökin ásamt Vinnuveitendasambandi Íslands, húseignina að Hólatorgi 2. Tengslin við VSÍ voru því náin á þeim tímum og stóð sambúðin allt fram til ársins 1975 er LÍR keypti þeirra hlut. Nýttu samtökin allt húsið fram til ársins 1986 en þá var Hólatorgið selt og flutt í núverandi húsnæði að Skipholti 29a. Árið 1987 var orlofshúsið Ásgarður í Grímsnesi tekið í notkun. Blaðaútgáfa Í mars árið 1960 hóf LÍR útgáfu á litlu tímariti sem nefnt var Rafvirkjameistarinn og var það í upphafi fjórar síður. Stærst varð blaðið rúmlega þrjátíu síður en útgáfu þess var hætt undir lok áratugarins. Árið 1970 hófst síðan útgáfa fjölritaðs fréttabréfs, sem stóð allt fram til ársins 1993 en þá hófst útgáfa LÍR-frétta sem staðið hefur óslitið síðan. Helstu verkefni Innflutningshöft og skortur á efni til raflagna var einn helsti hvatinn að stofnun sambandsins. Sem dæmi um ástand og höft þeirra tíma má nefna að samþykkt var á aðalfundi 1961 að viðsjárvert væri að innflutningsyfirvöld neyddu menn til þess að flytja inn ljósaperur sem sundruðust framan í notendur. Í janúar 1962 var því ákveðið að sambandið leysti til sín heildsöluleyfi. Hafinn var innflutningur á ljósaperum og þar með hófst starfsemi Söluumboðs L.Í.R. sem stóð allt fram á tíunda áratuginn en þá var starfsemin lögð niður. Löggildingin, Reglugerð um raforkuvirki, starfsleyfi rafverktaka og öryggismál hafa þó alla tíð verið málefni sem mest hafa verið rædd á fundum rafverktaka. LÍR hefur alla tíð átt fulltrúa í ráðum og nefndum sem um þessi mál hafa fjallað auk fjölda annara málaflokka. LÍR hefur frá árinu 1979 farið með umboð aðildarfélaganna í kjarasamningum bæði gagnvart Rafiðnaðarsambandi Íslands og innan Vinnuveitendasambands Íslands. LÍR á fulltrúa í stjórn lífeyrissjóðsins Lífiðn. Menntamál Samtökin hafa alla tíð látið menntamálin til sín taka. Sem dæmi um breytingar á því sviði má nefna, að í stað þess að menn öðluðust löggildingu eingöngu á grundvelli vinnureynslu kom krafan um að því námi lyki með prófi og í dag er meistaraskóli fyrir rafiðnaðinn rekinn í Rafiðnaðarskólanum. Sveinsprófsnefndir í rafiðnaði eru skipaðar fulltrúum frá LÍR og RSÍ. Á þann hátt getur atvinnulífið lagt mat á kennslu í skólunum, veitt aðhald og stuðlað að því að markaðurinn fái alltaf sem hæfasta starfskrafta. Árið 1974 átti LÍR aðild að stofnun NEUK, samstarfsnefndar norrænna rafvirkja og rafverktaka um eftirmenntun og sama ár var gert samkomulag við RSÍ um stofnun eftirmenntunar og er samstarfið til fyrirmyndar. Í dag eiga samböndin Rafiðnaðarskólann og Viðskipta- og tölvuskólann sem báðir eru í fremstu röð á sínu sviði. Tölvuiðnaðurinn tilheyrir rafiðnaðinum og því til staðfestingar voru í fyrsta sinn þann 27. febrúar 1999 veitt tölvuverðlaun ársins sem mun verða árviss viðburður framvegis. Erlend samskipti LÍR hefur átt farsæl samskipti við önnur samtök rafverktaka á Norðurlöndum. NEM-mót er norrænt rafverktakamót sem haldið er á þriggja ára fresti og er opið öllum norrænum rafverktökum. Árið 1975 var slíkt mót haldið að Laugarvatni og reyndist það fjölmennasta mót sem haldið hafði verið til þess tíma. Einnig var NEM-mót haldið á Íslandi árið 1990. NEPU- fundir eru fundir framkvæmdastjóra og formanna norrænu samtakanna og hafa þeir verið haldnir á Íslandi árin 1964, 1985 og 1992. Næsti NEPU-fundur verður á Íslandi árið 2000. Rafverktakar á Norðurlöndum eiga samnorrænt merki sem eftir er tekið og skipar það veglegan sess í hugum almennings sem lítur á það sem tryggingu fyrir fagmennsku, öryggi og trausta viðskiptahætti. Árið 1972 var Árni Brynjólfsson ráðinn framkvæmdastjóri samtakanna og gegndi hann því starfi óslitið til ársins 1993 er Gísli Þór Gíslason tók við starfinu sem hann gegndi til ársins 1997. Núverandi framkvæmdastjóri LÍR er Ásbjörn R. Jóhannesson. Núverandi framkvæmdastjórn LÍR skipa eftirtaldir menn: Formaður Ómar Hannesson, Reykjavík, Jens Pétur Jóhannsson, Laugarási, Biskupstungum, Arnbjörn Óskarsson, Keflavík, og Ólafur Sigurðsson, Reykjavík. Landssamband íslenskra rafverktaka heldur aðalfund sinn á Hótel Sögu í dag, föstudaginn 30. apríl, og á morgun, laugardaginn 1. maí. Hátíðarfundur í tilefni afmælisins verður laugardaginn 1. maí í Sunnusal, Hótel Sögu, og hefst hann kl. 14. Höfundur er framkvæmdastjóri LÍR. Ásbjörn R. Jóhannesson