MERKILEG er sú þróun hvað stór- og millitölvur hafa sótt gríðarlega í sig veðrið undanfarin misseri. Ekki er langt síðan allir sáu fyrir sér einkatölvunet sem öll keyrðu NT og sú trú var býsna almenn að Windows NT myndi útrýma Unix.
N-tromp HP Samkeppni harðnar á mið- og stórtölvumarkaði og verulegar breytingar í aðsigi. Árni Matthíasson var viðstaddur kynningu á nýjum HP-miðlara í kauphöllinni í New York. MERKILEG er sú þróun hvað stór- og millitölvur hafa sótt gríðarlega í sig veðrið undanfarin misseri. Ekki er langt síðan allir sáu fyrir sér einkatölvunet sem öll keyrðu NT og sú trú var býsna almenn að Windows NT myndi útrýma Unix. Annað hefur komið á daginn enda rann upp fyrir mönnum að Windows NT var einfaldlega ekki nógu traust stýrikerfi og öflugt fyrir viðskiptaumhverfi framtíðarinnar, ekki síst eftir að fyrirtæki tóku að koma sér fyrir á Netinu. Nú styrkjast mið- og stórtölvusalar og græða á tá og fingri, það er að segja þeir þeirra sem hafa áttað sig á hvert stefnir. Þar í flokki harðnar slagurinn óðum og fyrir stuttu kynnti HP tromp sitt, N-miðlarann. Á síðasta ári náði HP fyrsta sætinu í sölu á Unix-miðlurum í Evrópu, velti Sun í annað sætið, en IBM er í því þriðja. Í NT-miðlurum er HP svo í þriðja sæti og frammámenn þar á bæ segja að fyrirtækið verði komið í fyrsta sætið innan þriggja ára. Helsta tromp fyrirtækisins á þessu sviði var kynnt með viðhöfn í New York fyrir skemmstu, og verður reyndar kynnt hér á landi í kvöld, áðurnefndur N-miðlari eða HP 9000 N4000. HP bauð evrópskum blaðamönnum til New York á dögunum og kynnti fyrir þeim N-miðlarann nýja. Segja má að kynningin hafi hafist með hanstéli í kauphöllinni í New York sem verður að teljast viðeigandi í ljósi þess að tölvukerfi kauphallarinnar er frá HP og kostaði um 140 milljarða króna. Framkvæmdastjóri kauphallarinnar sté á stokk með frammámönnum HP, þakkaði fyrir samstarfið og lýsti ánægju sinni með nýju vélina sem hann sagði einsýnt að yrði upp sett hjá kauphöllinni til að gera henni kleift að mæta gríðarlega auknum áhuga á viðskiptum. Í máli hans kom fram að þess séu dæmi að 1,2 milljarða hlutar skipti um hendur á einum degi í kauphöllinni, en þess sé vænst að sú tala verði komin í átta milljarða hluta í lok næsta árs, um 2.000 boð á sekúndu þegar mest lætur. Daginn eftir var síðan slegið upp mikilli sýningu í glæsilegum sal skammt frá kauphöllinni þar sem frammámenn HP, þar á meðal stjórnarformaðurinn Lew Platt, tóku þátt í vélasýningu upp á ameríska vísu með flugeldum og tónlist og vitnisburðum. Tæknilega mjög fullkominn N-miðlarinn er mjög fullkominn tæknilega. Í máli HP-liða kom fram að hann er ein stæða með fjórum slíkum, tveir metrar að hæð og tekur 60x116 sm af gólfplássi, slær við fjórum tveggja metra stæðum af Sun E3500, eða sex rekkum af Compaq GS140, eða 12 rekkum af IBM RS6000 í afli. HP-menn lögðu áherslu á að vélin nýja væri svo verðlögð að aðrir gætu tæpast við keppt að svo stöddu. N-miðlarinn er þannig saman settur að í hann má setja upp undir átta PA8500 örgjörva, fjóra á hverja gagnabraut, sem skilar 3,8 GB á s. Hægt er að setja í hverja vél allt að 16 GB minni, en minnisbrautin er 7,6 GB á s. Inntaks/úttaksbrautin er 5,8 GB á s., sem skiptir verulegu máli í ljósi aukinnar áherslu á nettengingar, vinnslu við sístækkandi gagnagrunna og viðskipta yfir Netið. Sérstakur örgjörvi er í vélinni sem hefur eftirlit með rekstrinum, fylgist meðal annars með viftum og vinnsluhita og lætur vita ef eitthvað fer úrskeiðis. Mikil áhersla er einnig lögð á minnisleiðréttingu og þannig brugðist við hættu af því að geimgeislar eða alfaagnir víxli minnisbitum, sem sett getur tölvu á hliðina. Hönnuð fyrir IA64 HP-menn leggja mikið upp úr því að vélin er sú fyrsta sem hönnuð er fyrir nýja gerð örgjörva, IA64 frá Intel, sem þeir teja víst að eigi eftir að leggja undir sig tölvuheiminn, verði kominn með algera yfirburði í mið- og stórtölvum árið 2003 og nálægt því að skáka Sun í smærri miðlurum; komin með 70% markaðshlutdeild alls 2004. Fyrsti IA643 örgjörvinn á aftur á móti enn eftir að líta dagsins ljós og örgjörvinn í N-miðlurum dagsins í dag er PA-8500, sem er á 0,25 míkrona flögu, samanborið við 0,5 míkrona flögu á næsta örgjörva á undan, PA 8200. Fyrir vikið er hægt að hækka tiftíðni örgjörvans umtalsvert, en nýju örgjörvarnir verða 360-440 MHz, og koma á hann fleiri smárum. Á flögunni er 1 MB biðminni og því hægt að sleppa öðru biðminni sem lækkar kerfisverð, eykur öryggi og afl. Fjórar IA64 kerfisbrautir eru í tölvunni og vinna sjálfstætt sem eykur afkastagetu kerfisbrauta. Minnis í örgjörva biðtími er 130 nanósek. sem er innan við helmingur af biðtíma í K-miðlurum HP. Minnisstjórn N-miðlarans er ný hönnun sem byggist á þremur VLSI flögum sem stýra gagnasamskiptum aðalminnis og IA64 gagnabrautanna. Yfirgeta er í minnisstýringunni, þ.e. hún er undir það búin að í vélina verði sett hraðvirkari gerð IA64 gagnabrautar og hraðvirkara minni. Ýmsar spurningar Helstu spurningar sem kvikna í kjölfar kynningar HP á N-miðlaranum varða IA64 örgjörvana, sem eru ekki til eins og getið er. Upphaflega átti framleiðsla á þeim að vera að komast á skrið um þetta leyti, en af ýmsum orsökum hefur hún tafist. Búist við að fyrstu eintök af 64 bita Merced-örgjörvum komi á markað á næsta ári og magnframleiðsla hefjist árið 2001. Þótt þessi seinkun hljóti að setja strik í reikninginn hjá HP-mönnum bera þeir sig vel og benda á "áætlun B", þ.e. að fyrirtækið hafi hvort eð er gert ráð fyrir því að notendur myndu ekki allir vilja skipta strax í IA64 umhverfi og uppfærsluleið tilbúin fyrir PA-RISC í nokkur ár enn. Reyndar er málum svo háttað að fyrsti IA64-örgjörvinn, Merced, verður líkast til aflminni en PA- 8500 og næsta gerð PA-örgjörvanna, 8600-línan, sem er reyndar á dagskrá á undan Merced, það verði ekki fyrr en með næstu gerð IA64-örgjörva, McKinley, sem verulega fýsilegt sé að skipta. Þá verður kominn á markað PA-8700, um líkt leyti og McKinley kemur PA-8800 og síðar PA-8900, en á verða komnir á markað Madison og Deerfield í IA64-línunni, sá fyrrnefndi með höfuðáherslu á vinnslugetu en sá síðarnefndi með áherslu á verð. Ef þessar áætlanir ganga eftir má segja að HP sé vel undir framtíðina búið, að minnsta kosti næstu árin, en verulegu hlýtur að skipta fyrir hag fyrirtækisins að IA64-hönnunin nái þeirri yfirburðastöðu sem þeir spá og vonast eftir, enda kostar sem stendur um 300 milljarða króna að reisa örgjörvaverksmiðju og því er spáð að árið 2002 verði kostnaðurinn kominn upp í rúma 500 milljarða króna. Ósvarað er einnig spurningum um vistþýðendur og stýrikerfi. Þar sem enginn er örgjörvinn er ekki heldur til vistþýðandi sem skiptir eðlilega mjög miklu hvað varðar raunverulega afkastagetu tölvunnar. Einnig má gera ráð fyrir því að einhvern tíma taki að fínstilla vistþýðendur til að þeir nái hámarks afköstum. HP-UX 11 er 64 bita UNIX, sem fylgir hverri vél með ótakmörkuðu notendaleyfi, og þarf lítilvæga uppfærslu til að gera hana IA64 hæfa. IA64 getur keyrt 32 bita NT, en krafa hlýtur að vera um 64 bita stýrikerfi til að nýta örgjörvann til fullnustu, en enginn veit hvenær 64 bita NT verður til. Einnig hlýtur Linux að koma til álita, þ.e. í ljósi yfirlýsts stuðnings helstu hugbúnaðarhúsa, að Microsoft frátöldu, og ef þróunin verður sem horfir að innan skamms verði til 64 bita skalanleg útgáfa af Linux. Stæða af N-miðlurum eða HP 9000 N4000.