BLAÐAMENN og ritstjórar hins virta tónlistarblaðs "Rolling Stone" hafa valið 150 breiðskífur sem þeir telja lýsandi fyrir tíunda áratuginn. Plöturnar eru valdar með tilliti til tegundar tónlistar og þess tíma sem þær voru gefnar út og eiga að sýna hvernig tónlist síðustu tíu ára hefur þróast og breyst, fengið líf og látið.
Framúrskarandi tónlistarmenn

tíunda áratugarins Björk meðal þeirra bestu að mati Rolling Stone

BLAÐAMENN og ritstjórar hins virta tónlistarblaðs "Rolling Stone" hafa valið 150 breiðskífur sem þeir telja lýsandi fyrir tíunda áratuginn. Plöturnar eru valdar með tilliti til tegundar tónlistar og þess tíma sem þær voru gefnar út og eiga að sýna hvernig tónlist síðustu tíu ára hefur þróast og breyst, fengið líf og látið. Reynt var að velja þær plötur listamanna sem gerðar voru á hápunkti sköpunargleði þeirra. Diskur Bjarkar Guðmundsdóttur, "Post", sem gefinn var út árið 1995, er meðal þeirra diska sem þykja einkenna áratuginn að mati blaðsins. Í umsögn um diskinn stendur að "hann gefi bjartan framtíðartón, fjölbreytni sé mikil og sum laganna flétti saman takt frum-"drum & bass" tónlistar og íslensks alþýðusöngs og síðan er blandan krydduð kímni". Björk er sögð hafa skapað sína eigin tegund tónlistar og er nafn lagsins "An Army of Me" talið eiga vel við söngkonuna og "þær stríðandi raddir sem berjast inni í hennar ofvirka höfði".

Meðal annarra listamanna sem blaðið tiltekur eru hljómsveitirnar Garbage, Smashing Pumpkins, Radiohead, Cranberries, Nirvana og Pavement en sú sveit er væntanleg til Íslands í lok júní og mun spila á Lágmenningarhátíð Hljómalindar í bílageymslu Útvarpshússins.

BJÖRK er í hópi þekktra listamanna sem Rolling Stone telur hafa litað tónlist áratugarins.