"UM hvað verður að þínu mati kosið 8. maí?" Þessa spurningu hafa fréttamenn borið upp í ótal kosningaþáttum á undanförnum vikum. Um spurninguna gildir að hún er að öllu leyti meira upplýsandi um íslenska stjórnmálahefð en svörin, sem veitt hafa verið.
Viðhorf eftir Ásgeir Sverrisson

"Óbundnir til kosninga" Þannig eru flest þau mál, sem kjósa ætti um, ekki til umræðu á Íslandi en þau mál, sem ekki þarf að kjósa um hins vegar efst á baugi. "UM hvað verður að þínu mati kosið 8. maí?" Þessa spurningu hafa fréttamenn borið upp í ótal kosningaþáttum á undanförnum vikum. Um spurninguna gildir að hún er að öllu leyti meira upplýsandi um íslenska stjórnmálahefð en svörin, sem veitt hafa verið. Leitun er að vestrænu lýðræðisríki þar sem eitt helsta verkefni fréttamanna og fræðinga er að freista þess að grafa upp um hvað kosningar til þings snúast. Og trúlega er það lýðræðisríki vandfundið þar sem svör liggja enn ekki fyrir aðeins rúmri viku fyrir kosningar. Einhverjum kann að virðast að þessi lýsing sé ekki fyllilega réttmæt. Sá hinn sami kann t.a.m. að vitna til orða Davíðs Oddssonar þess efnis að kosningarnar snúist um verk ríkisstjórnarinnar. Hér hefði Davíð Oddsson lög að mæla væri hann við völd í öðru landi. Í flestum þróuðum ríkjum snúast kosningar að öllu jöfnu um verk sitjandi ríkisstjórnar og kjósendum gefst því tækifæri til að lýsa sig andvíga eða samþykka þeim aðgerðum, sem ráðamenn hafa gripið til á kjörtímabilinu. Þannig er því hins vegar ekki farið á Íslandi og kemur þar einkum tvennt til að þessu sinni. Í fyrsta lagi hafa verk ríkisstjórnarinnar ekki verið nema að litlu leyti til umræðu í þessari kosningabaráttu. Í annan stað liggur ekkert fyrir um það hvort ríkisstjórnarflokkarnir eru í þessum kosningum að leita eftir umboði frá kjósendum um að halda áfram á sömu braut. Með hvaða hætti er unnt að halda því fram að kosið verði um verk ríkisstjórnarinnar þegar flokkarnir tveir, sem hana mynda, neita að upplýsa kjósendur um hvort þeir hyggjast starfa saman eftir kosningar, fái þeir til þess umboð? Hvernig er hægt að fullyrða að kjósendum gefist tækifæri til að kveða upp sinn dóm yfir ríkisstjórninni þegar foringjar hennar tala í slíkum véfréttarstíl til almennings og komast upp með það? "Við göngum óbundnir til þessara kosninga." Þessi klisja hlýtur nú þegar að kalla fram sterk ofnæmisviðbrögð hjá stórum hluta þjóðarinnar svo oft hefur hún heyrst á undanförnum vikum. Þessi ummæli eiga kjósendur hins vegar ekki að leiða hjá sér. Þau eru enn eitt birtingarform afstöðu stjórnmálastéttarinnar í landinu gagnvart almenningi. Stjórnmálamenn forðast skuldbindingar fyrir kjördag og neita þannig að taka á sig ábyrgð. Hugsun stjórnmálastéttarinnar er ekki sú að gefa kjósendum skýra valkosti heldur að tryggja sér svigrúm til samninga og hagsmunavörslu eftir að lúðrarnir hafa þagnað. Hver eru þau verk þessarar ríkisstjórnar, sem kosið verður um 8. maí? Hefur farið fram hávær umræða um réttmæti þess að úthluta tilteknu fyrirtæki einkaleyfi til að reka svonefndan miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði? Nei. Hefur gagnagrunnurinn verið ræddur á þeim forsendum að slíkt stórmál hefði með réttu átt að bera undir þjóðaratkvæði? Nei. Hafa málefni hálendisins, sem nú hefur verið úthlutað eins og öðru í þessu þjóðfélagi, verið rædd ítarlega? Nei. Hafa viðbrögð við spillingarmálum í Landsbanka og Kögunar- hneykslinu verið tekin til umfjöllunar m.a. á þeim forsendum að fyrrnefnda málið hefði kostað afsagnir ráðamanna í öllum siðmenntuðum ríkjum en það síðarnefnda lögreglurannsókn? Nei. Hafa boðin og bönnin, vaxandi umsvif íslenskra reglugerðafíkla og réttur manna til að lifa lífi sínu í friði verið til umræðu? Nei. Hafa pólitískar ráðningar stjórnarflokkanna tveggja í hálaunastöður verið taldar eiga eitthvert erindi við almenning í þessu landi? Nei. Hefur sú krafa hljómað að verðleikar eigi að vega þyngra en pólitísk tengsl? Nei, enda eru sameinandi hagsmunir stjórnmálastéttarinnar þeir að grundvallaratriði eins og þetta séu ekki rædd. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa sannarlega unnið afrek fyrir þessar kosningar. Þeim hefur tekist að móta umræðuna og beina henni einvörðungu að stöðu efnahagsmála. Á því sviði er staða þeirra mjög sterk enda frammistaðan um margt til fyrirmyndar en á óvart hlýtur að koma að stjórnarandstaðan, einkum Samfylkingin, skuli hafa reynst svo leiðitöm sem raun ber vitni. Samhliða þessu hefur stjórnarflokkunum tveimur tekist að sáldra einhvers konar huliðsdufti yfir "gjafakvótann" svonefnda, sem halda má fram að sé djúpstæðasta ágreiningsefnið í samfélaginu. Um "góðærið" fær enginn efast en um framhald þeirrar efnahagsstefnu, sem fylgt hefur verið, gefst almenningi ekki tækifæri til að kjósa vegna þess að stjórnarflokkarnir "ganga óbundnir til kosninga". Þannig eru flest þau mál, sem kjósa ætti um, ekki til umræðu á Íslandi en þau mál, sem ekki þarf að kjósa um hins vegar efst á baugi. Þess vegna snýst stjórnmálaumræðan um það hverjir hafi verið verri við gamla fólkið og öryrkjana og hverjir séu minnst fjandsamlegir íslenskum fjölskyldum. Grundvallaratriði, sem lúta að framþróun þjóðfélagsins og leikreglum þess, víkja fyrir staglkenndri umræðu og deilum um leiðir að markmiðum, sem flestir eru í raun sammála um. Þetta getur af sér stjórnmálahefð þar sem öllu er í raun snúið á hvolf. Flokkar ganga "óbundnir til kosninga" til að tryggja samningsstöðu sína og hagsmunavörslu en valkostir almennings eru bundnir við flokka, sem ekki vilja láta uppi áform sín. Þannig vega hagsmunir íslenskra stjórnmálaflokka þyngra en sá lýðræðislegi réttur kjósenda að geta tekið afstöðu til skýrra valkosta. Og þess vegna veit enginn um hvað er kosið 8. maí.