Stykkishólmi-Undirbúningur er í fullum gangi fyrir atvinnuvegasýningu á Vesturlandi sem haldin verður 18. til 20. júní n.k. í íþróttamiðstöðinni í Stykkishólmi. Það er félagið Efling Stykkishólms ásamt atvinnumálanefnd Stykkishólmsbæjar sem standa að framkvæmd sýningarinnar.
Atvinnuvegasýning undirbúin

Stykkishólmi - Undirbúningur er í fullum gangi fyrir atvinnuvegasýningu á Vesturlandi sem haldin verður 18. til 20. júní n.k. í íþróttamiðstöðinni í Stykkishólmi. Það er félagið Efling Stykkishólms ásamt atvinnumálanefnd Stykkishólmsbæjar sem standa að framkvæmd sýningarinnar. Skipaður hefur verið vinnuhópur til sjá um undirbúning og framkvæmd sýningarinnar og ráðinn verkefnisstjóri sem er Valgerður Laufey Guðmundsdóttir.

Að sögn Valgerðar hefur kynning á sýningunni farið vel af stað. Sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki og fólk í hverskonar atvinnurekstri á Vesturlandi hafa sýnt mikinn áhuga. Valgerður segir að þau séu langt komin með að fylla sýningarsvæðið og þegar hafa 60 aðilar, stórir og smáir, skráð sig til þátttöku. Þá kemur fram hjá Valgerði að nú er í gangi samkeppni um nafn og tákn fyrir sýninguna og eru verðlaun í boði sem gefin eru af fyrirtækjum í Stykkishólmi. Nafnið og merkið skulu tengjast Vesturlandi.

Stefnt er að því að sýningin verði fjölbreytt og lifandi og á henni megi sjá dæmi um fjölbreytt atvinnu- og mannlíf á Vesturlandu. Á sýningunni verður bryddað upp á ýmsu til skemmtunar, t.d. tískusýningu og tónlistaratriðum. Þá verður sýning á myndum eftir leikskóla- og grunnskólanemendur á Vesturlandi. "Þetta er í fyrsta skipti sem svona sýning er haldin á Snæfellsnesi og því leggjum við metnað okkar í að hún takist sem best og að hún skili þeim árangri sem til er ætlast og að framhaldi verði á að nokkrum árum liðnum", segir Valgerður Guðmundsdóttir að lokum.

Morgunblaðið/Gunnlaugur Árnason FRAMKVÆMDANEFND atvinnuvegasýningarinnar í Stykkishólmi sem haldin verður í Stykkishólmi 18. til 20. júní nk. Á myndinni eru Sigurður Ágústsson, Siggeir Pétursson, Jóhanna Guðmundsdóttir og Valgerður Laufey Guðmundsdóttir.