KLÍNÍSKAR leiðbeiningar og kjörmeðferð, þ.e. rammi eða viðmiðun sem nota má við meðferð og rannsóknir einstakra sjúkdóma, geta hugsanlega lækkað rekstrarkostnað í heilbrigðiskerfinu að því er fram kemur í skýrslu faghóps heilbrigðisráðuneytisins um málefni sjúkrahúsa. Hefur hann lagt til að heilbrigðisráðherra skipi hópa til að undirbúa að slíkar leiðbeiningar verði teknar upp hérlendis.
Teknar verði upp klínískar leiðbeiningar

KLÍNÍSKAR leiðbeiningar og kjörmeðferð, þ.e. rammi eða viðmiðun sem nota má við meðferð og rannsóknir einstakra sjúkdóma, geta hugsanlega lækkað rekstrarkostnað í heilbrigðiskerfinu að því er fram kemur í skýrslu faghóps heilbrigðisráðuneytisins um málefni sjúkrahúsa. Hefur hann lagt til að heilbrigðisráðherra skipi hópa til að undirbúa að slíkar leiðbeiningar verði teknar upp hérlendis.

"Klínískar leiðbeiningar og kjörmeðferð hafa ekki komist til framkvæmda nema í litlum mæli hér á landi, en víðast erlendis hafa slíkar leiðbeiningar leitt til umtalsverðrar lækkunar á rekstrarkostnaði," segir m.a. í skýrslunni. Einnig segir að það sé haft að leiðarljósi að tryggja öruyggi og gæði þjónustu án þess að tvöfalda þjónustu eða ofnota hana.

Gestur Þorgeirsson, formaður læknaráðs Sjúkrahúss Reykjavíkur, segir að slíkar leiðbeiningar hafi verið við lýði alllengi hjá SHR við endurlífgun. Hafi þær verið notaðar í neyðarbílnum vegna hjartastopps og taki m.a. til atriða varðandi lyfjagjöf og hjartahnoðs. Hann segir að skynsamlegt geti verið að menn kæmu sér niður á ákveðnar reglur við meðhöndlun ákveðinna sjúkdóma og telur ekki ólíklegt að þær verði teknar upp hérlendis, sú hafi verið þróunin víða erlendis.

Fulltrúar faghóps heilbrigðisráðuneytisins hafa rætt við fulltrúa Læknafélags Íslands og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og segir í skýrslunni að hér sé um þróunarvinnu að ræða sem krefjist bæði klínískrar þekkingar og góðrar innsýnar í starfsemi og rekstur sjúkrahúsa. Lagt er til að heilbrigðisráðherra skipi hópa til að vinna frekar í málinu sem hafi samráð við framangreind félög og fagfólk á sjúkrahúsum.