25 FÆREYSK fyrirtæki munu taka þátt í færeyskri kaupstefnu sem haldin verður í Perlunni í Reykjavík 6.-8. maí. Kaupstefnan er jafnt ætluð fulltrúum fyrirtækja sem almenningi en markmið hennar er að efla viðskiptatengsl landanna. Tækifærið verður einnig notað til að kynna færeyska menningu því færeysk popphljómsveit verður með í för.
ÐFæreysk kaupstefna á Íslandi

25 fyrirtæki hafa tilkynnt þátttöku

25 FÆREYSK fyrirtæki munu taka þátt í færeyskri kaupstefnu sem haldin verður í Perlunni í Reykjavík 6.-8. maí. Kaupstefnan er jafnt ætluð fulltrúum fyrirtækja sem almenningi en markmið hennar er að efla viðskiptatengsl landanna. Tækifærið verður einnig notað til að kynna færeyska menningu því færeysk popphljómsveit verður með í för. Mun hún spila við opnun kaupstefnunnar og á reykvískum kaffihúsum meðan á henni stendur.

Kaupstefnan er samvinnuverkefni færeysku landstjórnarinnar, Menningarstovunnar í Færeyjum, Eimskips í Færeyjum, Útflutningsráðs Íslands og Eimskips hf. Þessir aðilar stóðu fyrir sambærilegri kaupstefnu íslenskra fyrirtækja í Þórshöfn í Færeyjum í mars á síðastliðnu ári sem 25 íslensk fyrirtæki tóku þátt í.

Fjölmörg íslensk og færeysk fyrirtæki eiga nú þegar í samstarfi á ýmsum sviðum atvinnulífsins. Þar má m.a. nefna flugmál, sjávarútveg, skipaflutninga, tækni-, tölvu- og ferðamál. Aðstandendur kaupstefnunnar telja að enn séu fjölmörg ónýtt tækifæri til samstarfs við færeysk fyrirtæki og vonast til að hún verði til að efla enn frekar viðskiptatengsl þjóðanna.

Fjölbreytilegur hópur þátttakenda

Fyrirtæki tengd sjávarútvegi eru mest áberandi í hópi þeirra sem taka þátt í kaupstefnunni og má þar m.a. nefna fiskseljendur, skipasmíðastöðvar og framleiðendur veiðarfæra. Meðal þátttakenda verða einnig matvælafyrirtæki, hljómplötuútgáfa, efnafyrirtæki, fyrirtæki í ferðaþjónustu, flutningafyrirtæki, listasmiðja, verkfræðistofur, hugbúnaðarfyrirtæki og bjórgerð svo eitthvað sé nefnt.