FORELDRAVERÐLAUN Heimilis og skóla, landssamtaka foreldra, voru afhent í fjórða sinn á miðvikudag við athöfn í Ráðhúsi Reykjavíkur. Verðlaunin hlaut í þetta skipti Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri fyrir "nemendasamninga" sem undirritaðir eru af nemanda, foreldrum hans og fulltrúa skólans.
Foreldraverðlaun Heimilis og skóla veitt í 4. sinn

Nemendasamningar um samábyrgð

FORELDRAVERÐLAUN Heimilis og skóla, landssamtaka foreldra, voru afhent í fjórða sinn á miðvikudag við athöfn í Ráðhúsi Reykjavíkur. Verðlaunin hlaut í þetta skipti Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri fyrir "nemendasamninga" sem undirritaðir eru af nemanda, foreldrum hans og fulltrúa skólans.

Í máli framkvæmdastjóra Heimilis og skóla, Eddu Sóleyjar Óskarsdóttur, kom fram að markmið Foreldraverðlaunanna, sem úthlutað er árlega, er að vekja jákvæða eftirtekt á grunnskólum í landinu og því starfi sem þar er unnið í samvinnu nemenda, foreldra og kennara. Við mat á verkefnum er ekki síst litið til nýjunga og verkefna sem efla tengsl heimilis og skóla og hafa gott fordæmisgildi.

Að loknum hörpuleik Kolbrúnar Arnardóttur kynnti Jónína Bjartmarz, formaður Heimilis og skóla, tilnefnda aðila til verðlaunanna, sautján að tölu, víðs vegar af landinu, í þremur flokkum einstaklinga, skóla og foreldrafélaga/foreldraráða.

Áður en úrslitin voru gerð kunn flutti Björn Bjarnason menntamálaráðherra tölu. Hann óskaði tilnefndum aðilum til hamingju og lagði áherslu á mikilvægi þess að vekja athygli á jákvæðum þáttum í grunnskólastarfi. Jákvæðni stuðlaði að betra samstarfi og betri árangri.

Nemendasamningur Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri nær bæði til námslegra og félagslegra þátta og "inniheldur skammtíma- og langtímamarkmið einstaklings í leik og námi," eins og segir í lýsingu. Markmið samninganna er að leggja góðan grunn að framtíð nemandans með því að auka samábyrgð heimilis og skóla.

Arndís Harpa Einarsdóttir, skólastjóri Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri, segir verðlaunin mikla hvatningu fyrir skólann. "Þessi viðurkenning veitir okkur byr undir báða vængi. Við munum halda áfram með nemendasamningana og þeir verða vonandi fastur þáttur í okkar starfi."

Morgunblaðið/Halldór FULLTRÚAR Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri taka við Foreldraverðlaunum 1999. Á myndinni eru (f.v.) Bjartur Logi Guðnason kennari, Katrín Andrésdóttir kennari, Sigurður Jóhannesson aðstoðarskólastjóri, Svanborg Oddsdóttir kennari og Arndís Harpa Einarsdóttir skólastjóri.