Opið fimmtudaga til sunnudags frá kl. 14­17. Aðgangur ókeypis. Til 2. maí. LISTASAFN Árnesinga hefur staðið fyrir sýningum á verkum íslenskra listamanna sem eiga ættir að rekja til Árnessýslu.
Nærsýni Birgis Andréssonar

MYNDLIST

Listasafn Árnesinga, Selfossi

MÁLVERK OG TEIKNINGAR

BIRGIR ANDRÉSSON

Opið fimmtudaga til sunnudags frá kl. 14­17. Aðgangur ókeypis. Til 2. maí.

LISTASAFN Árnesinga hefur staðið fyrir sýningum á verkum íslenskra listamanna sem eiga ættir að rekja til Árnessýslu. Að þessu sinni eru það tveir listamenn af sömu kynslóð sem sýna saman, þeir Birgir Andrésson, sem er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum, en á ættir að rekja til Stokkseyrar, og Ólafur Lárusson sem fæddur er og uppalinn í Austur-Meðalholtum. En þeir eiga fleira sameiginlegt en að vera úr Flóanum. Báðir gengu þeir í Myndlista- og handíðaskóla Íslands á fyrri hluta áttunda áratugarins, um sama leyti og Hildur Hákonardóttir, núverandi forstöðumaður Listasafns Árnesinga, var skólastjóri MHÍ. Síðan lögðu báðir leið sína til Hollands, í fótspor fyrstu SÚM-félaganna, eins og svo margir íslenskir listamenn gerðu þá og hafa gert síðan. Báðir hafa haldið fjölda sýninga og tekið þátt í ótal samsýningum og öðrum listviðburðum. Á síðustu árum hefur Birgir notið sívaxandi álits og velgengni á erlendri grund, einkum í Sviss og Þýskalandi, og hefur verið fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum. Verkin sem Birgir sýnir eru af tvennu tagi. Annars vegar röð átján blýantsteikninga og hins vegar þrjú málverk. Blýantsteikningarnar eru allar af sömu stærð og eru eins og nákæm "umritun" á ljósmyndum af hraunbreiðum og mosaþembum. Teikningarnar eru gerðar á sama hátt og teikningar sem hann var með á Feneyjatvíæringnum, en þá var myndefnið tóftir og fornleifauppgröftur. Í málverkunum þremur er hann enn að rýna í frímerkjaseríu, sem gefin var út í tilefni af Alþingishátíð 1930. Um þessa seríu segir Birgir, að hún hafi verið, "Ein merkasta tilraun Íslendinga til að lýsa ímynd þjóðarinnar. Ísland allt, kalt, öllum falt." Málverkin eru máluð á mjög sérstakan hátt, með fjölda, örsmárra díla. Maður þarf að standa í hæfilegri fjarlægð til að punktarnir renni saman og heildarmyndin komi í ljós, ekki ólíkt því sem er að finna í síðimpressjónískum pointillisma að hætti Seurats. En ástæðan fyrir punktunum er sú, að Birgir málar ekki eftir frímerkjunum beint, heldur eftir prentuðum eftirmyndum af frímerkjunum. Málverkin stækka eftirprentunina það mikið upp að hver einasti punktur í prentrastanum sést greinilega. Þannig að ef ímynd þjóðarinnar er að finna í þessum málverkum er henni speglað í gegnum marga milliliði: málverk af eftirprentun af frímerki af ímynd þjóðarinnar. Á veggspjaldi stendur skrifað um teikningarnar að þær séu "landslag séð í nærmynd, nálægð þess er sér landið í því heilahvelinu er kallast "nærsýni"." "Nálægð" er hugtak sem kemur víða fyrir í útskýringum eða sem titill í list Birgis. Nálægðin sem hann talar um, er, í almennum skilningi, það sem stendur manni nærri og gerir mann að því sem maður er, hvort sem um er að ræða það sem hefur áhrif á mann í umhverfinu, t.d. þjóðleg menning, eða eitthvað sem er að finna í "heilahvelinu". Það er þó einkum nálægð hins þjóðlega og séríslenska sem er áberandi viðfangsefni hjá Birgi. En ef fólk býst við að finna þjóðlega list, í venjulegum skilningi þess orðs, í myndlist Birgis, þá verður það fyrir vonbrigðum. Birgir passar sig að halda hæfilegri fjarlægð á nálægðina, til að hann geti skoðað það sem tilheyrir henni, greint það og lýst. En það er einmitt þessi tvíræða afstaða hans til "nálægðarinnar" sem gerir list hans spennandi og margbrotna. Flækt í gaddavírinn

ÓLAFUR LÁRUSSON

Ólafur hefur ekki verið eins áberandi og Birgir í sýningarhaldi undanfarin ár. Það er því óneitanlega forvitnilegt að sjá hvað hann hefur verið að fást við og hvar hann er staddur í sinni myndlistariðkun. Á sýningu Ólafs eru nítján myndir, allar unnar á pappír, þær elstu frá 95. Ólafur og Birgir eru gjörólíkir listamenn. Ólafur lítur á myndlist sem gjörning sem verður til í hita augnabliksins, frekar en niðurstöðu af yfirvegaðri pælingu. Það mætti kalla þetta síð-expressjónískan stíl, og sem slíkur þá kallar hann á samanburð úr ýmsum áttum. Í sumum myndanna bregður fyrir svipuðum tilþrifum og hjá Kristjáni Davíðssyni, nokkrar ílangar myndir vekja upp minningar um abstrakt expressjonisma Jacksons Pollocks, og í enn öðrum kemur Dieter Roth upp í hugann. Það sem aðgreinir Ólaf frá þessum mætu listamönnum er hugarfarið. Maður hefur á tilfinningunni að Ólafur allt að því ráðist að myndfletinum með ofsa. Það sem hann skilur eftir sig er eins og hamslaus skrift, sem endurspeglar innri ákafa sem brýst fram á allt að því krampakenndan hátt. Eins og til að leggja áherslu á þetta eru tvö gaddavírsknippi uppi á vegg, en Ólafur hefur talsvert notað gaddavírinn sem hluta af verkum sínum. Þótt hann haldi málverki og gaddavír aðskildum á þessari sýningu er hin myndræna hliðstæða gaddavírsins, línuflækjur og gaddaslettur, enn til staðar í myndum hans. Ekki eru þó allar myndirnar jafn krampakenndar og hamslausar. Þrátt fyrir art-brut-íska villimennsku (eins og t.d. í myndröðinni 7­9), þá gægist fram fíngerður fagurkeri í myndröðinni sem númeruð er frá 10­12. Svo gæti virst sem öll listsköpun Ólafs væri flækt í gaddavír og kæmist ekki þaðan út og fengi ekki almennilega að njóta sín. Um leið og myndin fer að vera of falleg herpist gaddavírinn að, með krassi og slettum. Þetta er togstreita sem myndlist Ólafs sleppur ekki svo auðveldlega út úr, því þegar öllu er á botninn hvolft er þessi togstreita jafnframt það sem heldur henni á floti, en ekki það sem dregur hana niður. Gunnar J. Árnason

Morgunblaðið/Sig. Fannar EIN frímerkjamynda Birgis Andréssonar.

ÚR myndaröð nr. 10­12 eftir Ólaf Lárusson.