LÖGREGLUYFIRVÖLD í Ísrael hafa lagt til, að Ariel Sharon, utanríkisráðherra landsins, verði ákærður fyrir mútur og sviksemi. Verði af því getur það haft mikil áhrif á gengi Benjamins Netanyahus, forsætisráðherra landsins, í kosningunum 17. maí nk.

Sharon ákærður fyrir mútur?

Jerúsalem. Reuters.

LÖGREGLUYFIRVÖLD í Ísrael hafa lagt til, að Ariel Sharon, utanríkisráðherra landsins, verði ákærður fyrir mútur og sviksemi. Verði af því getur það haft mikil áhrif á gengi Benjamins Netanyahus, forsætisráðherra landsins, í kosningunum 17. maí nk.

Netanynahu lýsti yfir fullum stuðningi við Sharon í gær en utanríkisráðherrann er mjög valdamikill í Likudflokknum, flokki Netanyahus, og mjög vinsæll meðal hægrimanna. Kvaðst talsmaður hans vona, að þetta mál yrði tekið fyrir strax og hann hreinsaður af allri sök fyrir kosningar.

Sharon lagði á ráðin um innrás Ísraelshers í Líbanon árið 1982 og kemur það mikið við sögu í þessu máli. Lögreglan yfirheyrði hann í síðasta mánuði vegna ferðar sem hann fór til Rússlands 1997 er hann var uppbyggingar- eða skipulagsráðherra ásamt kaupsýslumanninum Avigdor Ben-Gal en hann var hershöfðingi í Ísraelsher 1982. Leikur grunur á, að Sharon hafi reynt að útvega Ben-Gal stóran gaskaupasamning gegn því, að Ben-Gal gæfi rangan vitnisburð í máli, sem Sharon höfðaði gegn dagblaðinu Haaretz .

Það gerði hann vegna fréttar í blaðinu en þar var sagt, að Sharon hefði blekkt Menachem Begin, forsætisráðherra Ísraels 1982, og ekki sagt honum hve langt inn í Líbanon Ísraelsher myndi fara. Fór hann alla leið til Beirút. Ben-Gal sagði á ráðstefnu 1987, að Sharon hefði leynilega lagt á ráðin um innrásina í Líbanon og ekki haft samþykki stjórnarinnar fyrir henni. Áratug síðar sagði hann, að orð sín hefðu verið misskilin. Sharon tapaði samt málinu gegn Haaretz , sem hrinti síðan þessari rannsókn af stað með málshöfðun.Kynt undir/33