Martha Ernstsdóttir, ÍR, segir að lágmarkið sem hún náði fyrir heimsmeistaramótið í Sevilla á Spáni hafi opnað sér dyr í maraþonhlaupum. Martha náði lágmarkinu í Hamborgar-maraþoninu á síðasta sunnudag. Hún segist stefna á að keppa í maraþonhlaupi á Ólympíuleikunum í Sydney á næsta ári, fyrst Íslendinga.

Martha stefniá Ólympíuleik-ana í Sydney

Martha Ernstsdóttir, ÍR, segir að lágmarkið sem hún náði fyrir heimsmeistaramótið í Sevilla á Spáni hafi opnað sér dyr í maraþonhlaupum. Martha náði lágmarkinu í Hamborgar-maraþoninu á síðasta sunnudag. Hún segist stefna á að keppa í maraþonhlaupi á Ólympíuleikunum í Sydney á næsta ári, fyrst Íslendinga.

Martha, sem hefur snúið sér í auknum mæli frá 10 þúsund metra hlaupum að maraþonhlaupum, segist hafa æft af krafti í vetur. Hún tók þátt í víðavangshlaupi evrópskra félagsliða á Ítalíu í febrúar, fór í æfingabúðir yfir páska á Spáni og keppti í maraþoninu í Hamborg um síðustu helgi. Þar náði hún lágmarkinu fyrir HM í Sevilla, hljóp vegalengdina á 2:35,16. Martha segir að með sama árangri geti hún tryggt sér sæti á Ólympíuleikunum á næsta ári.

Martha segir erfitt að gera sér grein fyrir möguleikum sínum á heimsmeistaramótinu í Sevilla í ágúst í sumar. "Milli 80 og 100 taka þátt í þessum mótum og vonandi tekst mér að vera fyrir ofan miðju. Annars er ekki hægt að gera ráð fyrir góðum tíma í þessari keppni. Um þetta leyti er hitinn mikill á Spáni og aðalatriðið að ná góðu sæti," segir Martha.

Martha segist einnig stefna á að keppa í 5 þúsund metra hlaupi á Smáþjóðaleikunum í Liechtenstein og Evrópukeppni landsliða í Króatíu í sumar.