Allir þeir, sem ekki vilja sjá Ísland verða hluta af væntanlegu stórríki, segir Hjörleifur Guttormsson, verða að halda vöku sinni.
Samfylkingin og Evrópusambandið Kosningar Allir þeir, sem ekki vilja sjá Ísland verða hluta af væntanlegu stórríki, segir Hjörleifur Guttormsson , verða að halda vöku sinni.

EINS og á flestum sviðum sem máli skipta tala fulltrúar Samfylkingarinnar út og suður þegar aðild að Evrópusambandinu ber á góma. Í "stefnuyfirlýsingu" Samfylkingarinnar segir ekkert um Evrópusambandið en í "verkefnaskrá" hennar stendur: "Stöðugt þarf að fara fram umræða um stöðu Íslands innan Evrópu. Virkja þarf alla tiltæka sérfræðiaðstoð innan stjórnkerfisins, menntastofnana og hagsmunasamtaka til að ræða kosti þess og galla að taka þátt í samstarfi Evrópuríkja. Slík umræða meðal þjóðarinnar er nauðsynlegur undanfari ákvarðanatöku. Ekki er áformað að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu á kjörtímabilinu." Margrét Frímannsdóttir talsmaður segir í viðtali við blaðið Dag 24. apríl síðastliðinn aðspurð um afstöðu Samfylkingarinnar til aðildar Íslands að Evrópusambandinu: "Við erum sammála um að miðað við ástandið í dag munum við ekki sækja um aðild að Evrópusambandinu á næsta kjörtímabili." Þennan fyrirvara "miðað við ástandið í dag" (leturbr. HG) hefur hún endurtekið aftur og aftur og sama orðalag höfum við heyrt úr munni Sighvats Björgvinssonar. Margrét ítrekar í sama viðtali að Samfylkingin "vilji ekki segja nei eða já fyrir alla framtíð" og vísar til þjóðaratkvæðagreiðslu ef sótt yrði um aðild. Össur vill aðildarviðræður strax Í ferð fulltrúa verkalýðsfélaga til Brussel á dögunum kom fram hjá embættismönnum ESB að ekki væri útilokað að Íslendingar gætu samið sig undan ákvæðum sameiginlegrar fiskveiðistefnu bandalagsins í aðildarviðræðum. Úr þessu gerði fréttamaður mikil tíðindi, og glóðheitir áhugamenn um ESB- aðild hér heima brutu af sér hlekki og tóku að vitna. Fremstur í flokki fór þar málsvari Samfylkingarinnar í utanríkismálum, Össur Skarphéðinsson. Hann sagði hér komnar breyttar forsendur og Íslendingar hljóti að láta reyna á ESB-aðild þegar á næsta kjörtímabili. "Það er mín skoðun og ég mun beita mér fyrir því ef ég fæ afl til," sagði þingmaðurinn. Svilkona Össurar, borgarstjórinn í Reykjavík, hefur séð ástæðu til að leggja honum lið í baráttunni fyrir þessu sameiginlega áhugamáli. Það vekur athygli að Ingibjörg lýsir engum fyrirvara í sambandi við aðildarumsókn, sem hún var reyndar farin að gæla við fyrir mörgum árum meðan hún enn sat á Alþingi. Augljóst hvert Samfylkingin stefnir Annar fulltrúi Samfylkingarinnar, Ágúst Einarsson, fer ekki dult með áhuga sinn á ESB-aðild eins og sjá má á heimasíðu hans. Hann vísar til þess að aðild verði rædd ítarlega eftir kosningar og "í stórum flokki eins og Samfylkingin verður þá verður til meirihluti og minnihluti. Þannig er lýðræðisleg umræða." Hér er vísað til þess sem koma skal. Margrét Frímannsdóttir hefur nýlega lýst þeim ásetningi að úr Samfylkingunni verði myndaður stjórnmálaflokkur strax að loknum kosningum og þegar er byrjað að stofna félagseiningar. Nánustu samherjar talsmannsins úr Alþýðubandalaginu, Ari Skúlason og Bryndís Hlöðversdóttir, vilja ákveðið leita inn í Evrópusambandið. Þórunn Sveinbjarnardóttir, helsta rödd Kvennalistans í Samfylkingunni, er ákafur talsmaður aðildar. Efast nokkur um hver niðurstaðan verður í væntanlegum stjórnmálaflokki þegar þessi öfl eru komin saman með krötunum? Framsókn og Samfylking á ESB-róli Samfylkingin vísar til þess að hún sé á svipuðu róli í þessu máli og forysta Framsóknarflokksins. Vissulega má það til sanns vegar færa því að engum dylst áhugi Halldórs Ásgrímssonar á að finna inngönguleiðir í Evrópusambandið. Fái Samfylkingin og Framsókn þingstyrk til að mynda saman ríkisstjórn eftir kosningar er líklegt að Íslendingar stæðu frammi fyrir umsókn um aðild fyrir lok kjörtímabilsins. Ekkert eitt mál vegur jafn þungt nú þegar gengið er til alþingiskosninga. Því þurfa allir þeir sem ekki vilja sjá Ísland verða hluta af væntanlegu stórríki að halda vöku sinni. Aðeins Vinstrihreyfingin ­ grænt framboð hefur skýra stefnu í þessu örlagaríka máli. Höfundur er alþingismaður. Hjörleifur Guttormsson