HEIMS- og ólympíumeistarinn í 100 metra grindahlaupi kvenna, Ludmila Engquist, sagði í vikunni að hún væri með krabbamein og hefði af þeim sökum gengist undir skurðaðgerð á dögunum þar sem annað brjóst hennar var fjarlægt. Hún sagðist jafnframt vera bjartsýn og ætlaði sér að verja ólympíumeistaratitil sinn í Sydney á næsta ári. "Ég vil ekki hætta með þessum hætti.

Engquist berst

við krabbamein HEIMS- og ólympíumeistarinn í 100 metra grindahlaupi kvenna, Ludmila Engquist, sagði í vikunni að hún væri með krabbamein og hefði af þeim sökum gengist undir skurðaðgerð á dögunum þar sem annað brjóst hennar var fjarlægt. Hún sagðist jafnframt vera bjartsýn og ætlaði sér að verja ólympíumeistaratitil sinn í Sydney á næsta ári.

"Ég vil ekki hætta með þessum hætti. Ætlun mín er sú að koma til leiks af fullum krafti, að minnsta kosti ætla ég að reyna," sagði Engquist á blaðamannafundi á miðvikudaginn.

Engquist, sem keppti ekkert að ráði á síðasta sumri vegna meiðsla í hásin, sagðist hafa æft vel í vetur. Fyrir rúmum mánuði segist hún hafa orðið vör við hnút í öðru brjóstinu er hún var við æfingar á Spáni. Hún fór í skurðaðgerð í síðustu viku. Nú tekur við lyfjameðferð því tveimur dögum eftir aðgerðina kom í ljós að meinið hefur breiðst út um líkamann.

"Ég vil hafa annað markmið en lifa, það nægir mér ekki," sagði Engquist á blaðamannafundinum. "Ég vil einnig komast í fremstu röð í íþrótt minni á nýjan leik. Sú hugsun og sú von mun fleyta mér yfir erfiðasta hjallann í þeirri baráttu sem framundan er."

Engquist er 35 ára gömul og hefur búið í Svíþjóð frá 1993 en hún er fædd í Rússlandi og keppti fyrir Sovétríkin til 1991 er hún kynntist sænska umboðsmanninum Johan Engquist og fluttist til hans. Sænskan ríkisborgararétt fékk hún 1996 og sama ár varð hún ólympíumeistari í 100 m grindahlaupi. Hún varð heimsmeistari í sömu grein 1997 fyrir Svíþjóð og sex árum áður fyrir Sovétríkin, þá með eftirnafnið Narozhilenko.