DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra sagði á fjölmennum stjórnmálafundi í Nýja Bíói á Akureyri í gærkvöld að í sínum huga væri vinnufriðurinn eitt það besta við núverandi kjörtímabil, "sá lengsti friður á vinnumarkaði sem við höfum haft".
Davíð Oddsson á fundi Akureyri Íslenskt efnahagslíf þolir ekki vinstri stjórn

DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra sagði á fjölmennum stjórnmálafundi í Nýja Bíói á Akureyri í gærkvöld að í sínum huga væri vinnufriðurinn eitt það besta við núverandi kjörtímabil, "sá lengsti friður á vinnumarkaði sem við höfum haft". Hann telur að þar skipti mestu að lagfæringar höfðu áður verið gerðar á rekstrarskilyrðum fyrirtækjanna þannig að þau treystu sér til að semja um mestu kaupmátttaraukningu sem um hefur verið samið og nú í fyrsta sinn treystu þau sér til að láta ekki alla kauphækkunina renna út í verðlagið.

Davíð benti á fundinum á að í 55 ára sögu lýðveldisins hefur engin vinstri stjórn setið heilt kjörtímabil. Þær hefðu allar sprungið, komið hefði á daginn að íslenskt efnahagslíf þyldi ekki fjögurra ára vinstri stjórn. Áður hefði það þó ekki legið fyrir að stjórnirnar myndu springa. "Það er búið að gera uppskrift að bombunni, búið að stilla tímasprengjuna og troða Össuri Skarphéðinssyni inn í hana," sagði Davíð.

Gengið ekki fellt í sex ár

Þá nefndi hann að gengið hefði ekki verið fellt í 6 ár eða frá árinu 1993, sem væri lengsta tímabil Íslandssögunnar sem ekki hefði þurft að grípa til gengisfellingar. Forsætisráðherra sagði ekki hægt að lofa að eins vel myndi ganga á næstu árum, en flest benti til að þau yrðu góð ef rétt væri á spilum haldið.

Hann talaði einnig um þá miklu möguleika sem fælust í íslensku hugviti og útflutningi þess, en benti á að jafnframt þyrfti að flytja Ísland heim. Tækifæri vantaði fyrir menntað fólk hér á landi, en fyrirtæki eins og Íslensk erfðagreining hefðu skapað möguleika fyrir menntaða Íslendinga sem vildu búa á landinu, þannig hefði fyrirtækið flutt Ísland heim.

Morgunblaðið/Kristján DAVÍÐ Oddsson flytur ræðu sína í Nýja Bíói á Akureyri í gærkvöldi.